Íslandsferð seldist á 14 milljónir á stjörnuuppboði

Ævintýraferðin til Íslands seldist á 14 milljónir króna og verður …
Ævintýraferðin til Íslands seldist á 14 milljónir króna og verður spennandi að sjá hver leggur leið sína til landsins. Samsett mynd

Í gærkvöldi fór fram hið árlega amfAR (Artists and Musicians for AIDS Research) uppboð á Hotel du Cap-Eden-Roc sem er talinn vera einn af hápunktum kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í Frakklandi. Eitt af því sem var í boði á uppboðinu var sannkölluð ævintýraferð til Íslands, metin á 14 milljónir íslenskra króna. 

Stjörnur á borð við Heidi Klum, Christinu Aguilera, Alex Pettyfer, Rebel Wilson og Kate Beckinsale voru mætt í sínu fínasta pússi en Leifur Dagfinnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Truenorth, var einnig á svæðinu ásamt Brynjólfi Baldurssyni, eiganda The Greenhouse. 

Óborganlegt ævintýri á Íslandi

Af þeim 15 uppboðshlutum sem voru í boði var ævintýraferð til Íslands í boði Discover Truenorth, Truenorth, Íslandsstofu og The Greenhouse hótelinu í Hveragerði. Ferðin sem er metin á tæpar 15 milljónir íslenskra króna, seldist á 14 milljónir íslenskra króna á viðburðinum í gærkvöldi en það er ekki vitað hver datt í lukkupottinn og er á leið til landsins. 

Ferðin sem er sex nátta og sjö daga pakki fyrir fjóra inniheldur gistingar á Reykjavik EDITION, Dalur Lake House og Retreat at Blue Lagoon, magnaðar matarupplifanir og ótrúlegar ævintýraferðir um náttúru Íslands.

Uppboðshlutir af dýrari gerðinni

Aðrir hlutir sem voru seldir á uppboðinu voru málverk af Leonardo DiCaprio eftir Damien Hirst, listaverk eftir Anthony James sem var meðal annars notað í kvikmyndinni Glass Onion og einstakur Aston Martin sportbíll. Söngkonurnar Gladys Knight, Bebe Rexha, Halsey og söngvarinn Adam Lambert skemmtu gestum á uppboðinu. 

Helstu samstarfsaðilar Discover Truenorth voru Retreat at Blue Lagoon, Dalur Luxury, Reykjavik EDITION og HeliAir ásamt öðrum og rennur allur söluágóði til rannsóknarvinnu gegn alnæmi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert