Íslandsferð seldist á 14 milljónir á stjörnuuppboði

Ævintýraferðin til Íslands seldist á 14 milljónir króna og verður …
Ævintýraferðin til Íslands seldist á 14 milljónir króna og verður spennandi að sjá hver leggur leið sína til landsins. Samsett mynd

Í gærkvöldi fór fram hið árlega amfAR (Artists and Musicians for AIDS Research) uppboð á Hotel du Cap-Eden-Roc sem er talinn vera einn af hápunktum kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í Frakklandi. Eitt af því sem var í boði á uppboðinu var sannkölluð ævintýraferð til Íslands, metin á 14 milljónir íslenskra króna. 

Stjörnur á borð við Heidi Klum, Christinu Aguilera, Alex Pettyfer, Rebel Wilson og Kate Beckinsale voru mætt í sínu fínasta pússi en Leifur Dagfinnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Truenorth, var einnig á svæðinu ásamt Brynjólfi Baldurssyni, eiganda The Greenhouse. 

Óborganlegt ævintýri á Íslandi

Af þeim 15 uppboðshlutum sem voru í boði var ævintýraferð til Íslands í boði Discover Truenorth, Truenorth, Íslandsstofu og The Greenhouse hótelinu í Hveragerði. Ferðin sem er metin á tæpar 15 milljónir íslenskra króna, seldist á 14 milljónir íslenskra króna á viðburðinum í gærkvöldi en það er ekki vitað hver datt í lukkupottinn og er á leið til landsins. 

Ferðin sem er sex nátta og sjö daga pakki fyrir fjóra inniheldur gistingar á Reykjavik EDITION, Dalur Lake House og Retreat at Blue Lagoon, magnaðar matarupplifanir og ótrúlegar ævintýraferðir um náttúru Íslands.

Uppboðshlutir af dýrari gerðinni

Aðrir hlutir sem voru seldir á uppboðinu voru málverk af Leonardo DiCaprio eftir Damien Hirst, listaverk eftir Anthony James sem var meðal annars notað í kvikmyndinni Glass Onion og einstakur Aston Martin sportbíll. Söngkonurnar Gladys Knight, Bebe Rexha, Halsey og söngvarinn Adam Lambert skemmtu gestum á uppboðinu. 

Helstu samstarfsaðilar Discover Truenorth voru Retreat at Blue Lagoon, Dalur Luxury, Reykjavik EDITION og HeliAir ásamt öðrum og rennur allur söluágóði til rannsóknarvinnu gegn alnæmi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka