Býr í bíl og stundar jaðaríþróttir af kappi

Sophie Roberts ögrar sjálfri sér og er óhrædd við að …
Sophie Roberts ögrar sjálfri sér og er óhrædd við að takast á við nýja hluti. Samsett mynd

Árið 2012 bjó Sophie Roberts í London, heillandi heimsborg í stöðugri þróun. Hún var farsæl í starfi en eirðarlaus, ósátt og fannst innst inni eins og hún væri ekki á réttum stað. Roberts ákvað því að setja sjálfa sig í fyrsta sætið og lita líf sitt með nýjum og spennandi ævintýrum.

Hún sagði upp starfi sínu og ákvað að elta drauma sína en Roberts hafði alltaf þráð að ferðast um heiminn og stunda jaðaríþróttir. Innan 18 mánaða var hún byrjuð að slá met út um allan met og fann manneskjuna, lífið og frelsið sem hún hafði ávallt þráð.

Ofurkona og ferðast ein

Frá því hún hóf þessa ævintýralegu vegferð hefur hin 37 ára gamla ofurkona lokið ýmsum líkamlega krefjandi áskorunum, allt frá því að hjóla þvert yfir Bandaríkin, klífa hæstu fjöllin í öllum átta Alpalöndunum og hjóla á milli þeirra allra, ljúka svokölluðu „ofur-maraþoni“ en þá er hlaupin lengri vegalengd en hinir hefðbundnu 42 kílómetrar og synda í jökulköldu vatni.

„Að hefja þessa vegferð þar sem engin leið var ákveðin var erfiðasta en mest gefandi ákvörðun lífs míns,“ sagði Roberts í viðtali við Euronews. „Hún hefur leitt mig þangað sem ég er í dag.“

Í dag eyðir hún tíma sínum að ferðast ein um Bretland og Evrópu en hún býr í sérsniðnum VW–Crafter sendibíl og notar hann einnig til að ferðast á milli staða en hún starfar sem jaðaríþróttamaður, bloggari og hugarfarsþjálfari allan ársins hring. 

Lífið á þjóðveginum

Roberts er ekki eina konan sem kýs að lifa á þjóðveginum en þessi lífstíll er að verða sívinsælli meðal kvenna sem kjósa að ferðast og búa einar í sérútbúnum bílum sínum. Facebook-hópar eins og Solo Women Campers Meetups og Women with Campervans eru stöðugt að stækka og fjölgar í þessum samfélögum um þúsundir meðlima árlega. 

„Mig langaði alltaf að eignast svona bíl, frá því að ég var barn,“ sagði Roberts. „Ég fór aldrei í útileigur með foreldrum mínum þegar ég var yngri en ég man að ég keyrði um og sá húsbíla og hugsaði með mér að þetta væri rétta leiðin til að lifa lífinu.“

Draumaheimilið er á dekkjum

Í ágúst 2019, fjárfesti Roberts í VW–Crafters sendibílnum og fékk teymi hjá Van Life Builds til þess að breyta hinum þá venjulega hvíta sendibíl í draumaheimili sitt, á dekkjum. Fimm mánuðum síðar var bíllinn klár fyrir lífið á þjóðveginum og öll ævintýrin, fullbúinn eldhúsi, upphitaðri útisturtu, þakverönd og risastórum þakglugga yfir hjónarúminu. Hún nefndi bílinn OLLI eftir einkunnarorðum sínum: „One Life, Live It.“

Þrátt fyrir að stunda jaðaríþróttir af kappi vildi Roberts ferðast á rósamari máta til þess að njóta ferðalagsins. „Við vitum öll að við eigum að hægja á okkur og taka tíma til að vera meira til staðar. Þegar þú býrð í bíl neyðir það þig til að gera nákvæmlega það. Þú vilt ekki flýta þér á næsta stað. Lífstíllinn leyfir þér að láta daginn líða og þú lifir í takti náttúrunnar.

Ég ligg oft í rúminu og horfi upp á stjörnurnar. Ég get líka auðveldlega klifrað út á veröndina með morgunteið og horfa á sólarupprásina,“ sagði Roberts. 

Er lífstíllinn fyrir þig? 

„Áður en þú festir kaup á þínum eigin sendibíl/húsbíl skaltu athuga með að leigja bíl og prufukeyra lífstílinn. Roberts mælir með að skoða vefsíðurnar Indie Campers, Roadsurfer og Gabooney en þær eru á meðal vinsælustu húsbílaleiguvefsíða í Evrópu, með bækistöðvar í Frakklandi, Spáni, Portúgal og Ítalíu. 

Hún mælir sömuleiðis með því að fara rólega af stað og kynna sér lífstílinn vel. „Fyrstu næturnar mæli ég með að bóka gistingu á tjaldsvæði jafnvel þó þú sért með sturtu og aðgang að vatni. Það er gott að geta slakað vel á, vitandi að þú sért örugg.“

Þegar kemur að því að finna staði til þess að leggja bílnum, velur Roberts alltaf staði með farsímamóttöku ef skyldu koma upp neyðaratvik. Hún notar reglulega Park For The Night, en það er app sem er stýrt af samfélagi sem sýnir húsbílavæn bílastæði um alla Evrópu.

„Þú finnur út hver þú ert“

Í sumar ætlar Roberts annað hvort að ferðast til Lofoten–eyja í norðvesturhluta Noregs eða að kíkja í sólina á Ítalíu. Hún bendir þó á að lífið á veginum er mun meira en bara að ferðast á nýja staði. „Fyrir konur þá er þetta mögnuð leið til þess að tjá sig, finna innra og ytra frelsi og komast að því hver þú ert.“

Vegferðin, ævintýrin og áskoranirnar leiddu Roberts til þess að stofna fyrirtæki. „Ég er stoltur stofnandi TrailBlazers – frumkvæði til að byggja upp sjálfstraust og hugrekki hjá unglingssúlkum. Það fæddist af minni eigin reynslu þegar ég reyndi að finna út hvernig ég átti að vera samkvæm sjálfri mér og fara á eftir því sem ég vildi,“ sagði Roberts í lokin.

mbl.is