Sjóðheit og sjarmerandi menningarborg við Miðjarðarhafið

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Flestir sem leggja leið sína til Frakklands fara eflaust til höfuðborgarinnar enda hefur París upp á margt að bjóða. En landið er stórt og gríðarlega fjölbreytt hvort sem um ræðir sögu, menningu, mat eða landslag. Eitt af vinsælustu svæðum Frakklands er án efa Franska rívíeran en þangað hafa sól- og menningarþyrstir ferðalangar lagt leið sína í nokkrar aldir. Á frummálinu er rívíeran kölluð Côte d'Azur sem þýðir heiðbláa strandlengjan og óhætt að segja að hún beri því nafn með rentu. Ströndin bláa er tæplega 900 km löng en meðal þekktustu borganna eru Cannes, Mónakó, Antibes, Saint-Tropez og Nice sem er stærsta borgin á ríveríunni.

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Á minjaskrá UNESCO

Nice á sér langa sögu en það voru Grikkir sem fyrstir hreiðruðu þar um sig, u.þ.b. 350 fyrir Krist. Það var svo seint á 18. öldinni að borgin varð vinsæll vetrarheilsulindaáfangastaður meðal efnaðra Breta og árið 2021 var hluti af miðbæ hennar settur á heimsminjaskrá UNESCO sem einstakur vetrarferðamannastaður Rivíerunnar. Pastellituð og falleg hús standa í röðum á hæðunum í borginni sem stendur við hvíta strönd og heiðbláan sjó. Eiginlega má segja að Nice sé fullkomin blanda af strandbæ og borg þar sem hægt er að fara á söfn, í garða, iðka vatnaíþróttir, skoða áhugaverðan arkitektúr, versla, sóla sig undir röndóttri sólhlíf, borða góðan mat, fara á markaði og stökkva svo upp á þakbar til að sötra hanastél á meðan horft er á sólarlagið og skugga pálmatrjánna lengjast með hverju glasinu. Þótt Nice búi yfir sjarma þorps og andrúmsloftið sé einkar afslappað þá er borgin sú fimmta stærsta í Frakklandi með tæplega 343 þúsund íbúa og flugvöllurinn er sá næststærsti í landinu á eftir París.

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Höfnin í Nice er heillandi.
Höfnin í Nice er heillandi. Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Hámenning og hiti

Loftslagið í Nice er einstaklega hagstætt, þar eru heit sumur og mildir vetur og sólin skín í 300 daga á ári. Auk þess eru há fjöll í kringum borgina sem þýðir að þar er mjög skjólsælt. Þessi einstaka veðursæld, nálægðin við sjóinn og hið rólega andrúmsloft hefur laðað að fjölda listamanna í gegnum tíðina og borgin því skapað sér sess sem áhugaverð menningar- og listaborg sem státar af óperu, leikhúsi og mörgum skemmtilegum listasöfnum en í Nice eru flest listasöfn í Frakklandi á eftir París. Auk þess er stundum sagt að borgin sé áfangastaður þeirra sem kunni eina mikilvægustu listina í lífinu, það er að njóta lífsins; „art de vivre“.

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Áhugaverður arkitektúr og ítölsk áhrif

Victoría Englandsdrottning var svo hrifin af Nice að hún byggði sér hús eða öllu heldur litla höll á einni af mörgum hæðum borgarinnar og það gerðu fleiri samlandar hennar. Einar 74 einstaklega fallegar byggingar eru friðaðar sem sögulegar byggingar en þær eru ýmist byggðar í Victoríustíl, art-nouveau, belle époque eða art-deco-stíl. Þess má einnig geta að mikilla ítalskra áhrifa gætir í borginni, bæði í útliti en líka í matnum enda liggur Nice nálægt ítölsku landamærunum og hefur raunar margsinnis verið ítölsk í gegnum aldirnar. Það getur verið skrítið, þegar hlýtt er á söguna, að heyra að oftast hafi það verið Frakkar sjálfir sem réðust á borgina.

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Promenade des Anglais – göngubreiðgata við ströndina

Strandlengjan í miðbænum er án efa eitt mesta aðdráttaraflið og jafnframt þekktasta kennileitið en svæðið fyrir ofan ströndina kallast Promenade des Anglais sem þýðir gönguleið hinna ensku en hún er 7,5 km að lengd. Ströndin fyrir neðan skiptist í einkastrandsvæði og almenningsstrendur með mismunandi reglum. Sumar eru reyklausar en aðrar leyfa hundahald svo dæmi sé tekið. Einkastrandirnar setja einkennandi svip á umhverfið með sínum hvítu og bláu sólhlífum. Þar er borgað daggjald en þá fylgir auðvitað bekkur og sólhlíf og víða er bar- og veitingaþjónusta. Í dag er Promenade des Anglais eins konar göngubreiðgata þar sem má ganga, skokka eða hjóla. Fyrir þá sem kjósa heldur að sitja við sjóinn og lesa eða horfa á mannlífið eru víða bekkir og stólar sem snúa að sjónum. Þess má geta að hjól eru algengur samgöngumáti enda 84 km af hjólastígum og einnig eru góðar lesta-, sporvagna- og strætisvagnasamgöngur í borginni. Höfnin er aðeins austan við strandlengjuna og sést raunar ekki þaðan þar sem hin skemmtilega Colline du Château (Kastalahæð) skilur á milli en fjöldi áætlunarbáta leggst að bryggju í Nice. Gaman er að ganga upp á Kastalahæð, enda frábært útivistarsvæði með fornminjum og stórkostlegu útsýni, bæði yfir höfnina austan megin og strandlengjuna vestan megin.

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Hinn heillandi gamli hluti

Gamli bærinn er geysilega sjarmerandi en hann á sér langa sögu sem nær allt aftur á miðaldir en á þeim tíma var borgin byggð inn í borgarvirki. Það var rifið í byrjun 18. aldar á sama tíma og kastalinn á Kastalahæð. Litlar þröngar götur, litrík hús, torg og kirkjur einkenna gamla bæinn. Gaman er að sitja á einum af hinu fjölmörgu matsölustöðum og virða fyrir sér mannlífið, draga djúpt andann og finna ilminn af Nice enda er svæðið rómað fyrir ilmvötn og sápur. Matarilmurinn er ekki síður spennandi enda einstaklega mikil nánd við gott hráefni í Suður-Frakklandi.

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Gott að versla

Eitt aðaltorgið heitir La Place Masséna en það er í jaðri gamla bæjarins og er frá því 1840, það var tekið í gegn og endurgert árið 2007. Svæðið er sérlega fallegt með litríkum byggingum, kaffihúsum og óhætt að segja að torgið sé hjartað í borginni. Skemmtilega listaverkið „Conversation in Nice“ er á torginu, sjö háar súlur með hálfum mönnum ofan á eftir spænska listamanninn Jaume Plensa. Fræga vöruhúsið Galleries Lafayette er í einu húsanna og aðalverslunargatan, Avenue Jean Médecin, liggur í norðurátt frá torginu, þar eru mörg þekkt vörumerki og verslunarmiðstöðin Nice Etoile. Þeir sem kjósa dýrari vörumerki ættu að leggja leið sína á Rue Alphonse Karr, Avenue de Verdun eða Rue Paradis. Rue Bonaparte er einnig skemmtileg gata fyrir norðan Kastalahæðina en þar ættu þeir sem hafa áhuga á antík og klassískum notuðum munum að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þar eru svo margir góðir matsölustaðir og barir.

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Spennandi matarkista

Eitt af því sem gerir Nice að áhugaverðum áfangastað er matarmenningin en héraðið er til dæmis þekkt fyrir afurðir úr ólífum og ljúffengt rósavín er framleitt í héraðinu. Grænmeti og ávextir eru sérlega ferskir og úrvalið mikið hvort sem er af kjöti, fiski eða ostum. Ítalskir straumar hafa haft áhrif á matargerðina sem fyrr segir, svo gott úrval er af pastaréttum. Allir sem koma til Nice þurfa að bragða á nokkrum héraðsréttum, eins og Pan Bagnat, sem er hvítt hringlaga brauð fyllt með Niçoise-salati, pissaladière sem er laukbaka með ólífum og ansjósum og Socca sem er pönnukaka gerð úr kjúklingabaunahveiti sem borðuð er heit með paprikukryddi en réttirnir eru miklu fleiri.

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Markaðurinn Cours Saleya

Blóma-, matar- og antíkmarkaðurinn í Cours Saleya er einstaklega skemmtilegur og enginn sem heimsækir Nice ætti að láta hann fram hjá sér fara enda er hann á lista yfir 100 fallegustu markaði Frakklands. Á mánudögum breiða antíksalar úr sér og hægt að gera góð kaup á gömlum myndum, silfri, klukkum og klassískum töskum svo fátt eitt sé nefnt en á hinum dögunum er blóma- og matarmarkaður sem vert er að skoða. Þeir sem eru með eldunaraðstöðu í borginni verða eflaust fastagestir á markaðnum. Meðal þess sem hægt er að kaupa eru fersk krydd, ólífur, sveppir, grænmeti, ávextir, sultur og sætmeti eins og hinar margrómuðu macron de Nice sem eru þó ekki eins og venjulegar makrónur með fyllingu sem margir þekkja. Einnig er hægt að kaupa ýmsa tilbúna héraðsrétti sem íbúar borgarinnar nýta sér oft í hádeginu og tilvalið að kippa með Pan Bagnat eða pissaladière og borða niðri á strönd sem er steinsnar frá markaðnum.

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Frá héraðsréttum til Michelin-staða

Þeir sem vilja fá gæða Nice-rétti ættu að leita uppi matsölustaði sem eru með „Cuisine Nissarde“-merkinu en það er vottun frá yfirvöldum um að staðurinn bjóði upp á rétti úr héraði úr fyrsta flokks hráefni. Margir veitingastaðir eru í Nice og sex þeirra státa af Michelin-stjörnum en víða er hægt að fá góðan mat og þá er gott að reyna að forðast ferðamannastaðina.

La Maison de Marie er ekta Nice-staður falinn inni í porti á 5 rue Masséna. Mjög góður miðjarðarhafsmatur með fyrsta flokks hráefni og gaman að sitja úti í portinu. Prófið t.d. Gnocchi au jus de daube og fyllt grænmeti. Betra er að panta borð.

Chez Acchiardo er einstaklega góður ekta franskur staður í gamla bænum, nánar tiltekið á 38 rue Droite. Staðurinn var stofnaður árið 1927 og hefur verið rekinn af sömu fjölskyldu í fjórar kynslóðir. Notalegt andrúmsloft, frábær þjónusta og verulega góður matur. Betra að panta borð.

Le Bistrot d'Antoine er frábær staður sem er mjög vinsæll. Matargerðin er frönsk í bistro-stíl þar sem notað er fyrsta flokks hráefni á skapandi hátt. Staðurinn er í Michelin-bókinni með Bib Gourmand, sem þýðir frábær matur á góðu verði. Betra að panta borð. Heimilisfangið er 27 rue de la Préfecture.

Comptoir du Marché er í pínulítilli og þröngri götu í gamla bænum, hann er vinalegur og afslappaður. Frönsk matargerð þar sem hráefnið er sérlega ferskt og bragðgott og verðið er einkar sanngjarnt. Heimilisfangið er 8 rue de Marché.

Lu Fran Calin er í hjarta gamla bæjarins, á 5 Rue Francis Gallo en þar er boðið upp á samruna af Nice- og ítalskri matargerð. Vel útilátinn matur þar sem hráefnið er valið af natni. Boðið er upp á hefðbundna héraðsrétti frá svæðinu.

Lavomatique er lítill staður í gamla bænum, nánar tiltekið á 11 Rue du Pont Vieux. Matseðillinn er samsettur úr smáréttum sem ætlað er að deila og gott úrval er af áhugaverðum vínum. Eldhúsið er opið og gaman að fylgjast með kokkunum elda. Matargerðin er frönsk, skapandi og síðast en ekki síst verulega góð.

Maison Margaux er á 2 place Magenta. Fínn staður til að setjast niður í drykk og léttan hádegisverð eða til að fá sér fordrykk áður en haldið er annað. Skemmtilegast er að sitja úti og horfa á mannlífið.

Þrír góðir þakbarir með mögnuðu útsýni Eitt af því skemmtilegasta sem hægt er að hugsa sér í heitum löndum er að hoppa upp á góðan þakbar og njóta drykkjar með fallegu útsýni. Nokkrir slíkir eru einmitt í Nice en allir eru þeir á vel staðsettum flottum hótelum.

La Terrase á Le Méridien

Magnað útsýni til allra átta er á La Terrase sem er sambland af matsölustað og bar en hann er á 10. hæð á Le Méridien-hótelinu sem staðsett er á Promenade des Anglais, gengið inn austan við bygginguna og farið upp í hótellyftunni. Umhverfið er notalegt og afslappað og hótelgestir hafa aðgang að þaksundlauginni. Fínt úrval af drykkjum en þarna er líka gott að borða.

Moon bar á Aston La Scala Bar og matsölustaður með mögnuðu útsýni yfir gamla bæinn. Sérstaklega er gaman að fara á Moon bar seinni partinn þegar sólin kastar mildri birtu á húsin í borginni. Gott úrval af hanastélum og öðrum drykkjum og stundum lifandi tónlist á kvölin. Barinn er á áttundu hæð Aston La Scala-hótelsins og fara þarf í gegnum hótelmóttökuna og upp í lyftu.

Seen – Restaurant and Bar – Anantara Seen er án efa einn flottasti þakbar Nice en hann er staðsettur á lúxushótelinu Anantara. Staðurinn er mjög smart með útsýni í allar áttir en ganga þarf í gegnum matsölustaðinn á 7. hæð til að komast út. Auðvelt er að gleyma sér í hringlaga sófunum á meðan horft er út á Miðjarðarhafið með kokteil í hendi. Veitingastaðurinn er góður en þar er lögð áhersla á litla rétti til að deila. Frábært úrval af hanastélum sem unnin eru út frá mismunandi löndum í heiminum þar sem Anantara-hótel eru. Hér er vissara að panta borð á aðalsumarleyfistímanum.

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Þegar kemur að gistingu er Nice ekki á flæðiskeri stödd en hún státar af flestum hótelum í Frakklandi á eftir París eða 218 hótelum sem bjóða upp á 12.000 herbergi og af þeim eru 38% fjögurra og fimm stjörnu. Ef stoppað er í skamman tíma er freistandi að fá sér herbergi á einu af hótelunum sem standa við ströndina. Einnig er tilvalið að vera á litlum persónulegum hótelum í miðbænum eins og t.d. á Palm Hotel (palm-hotel.com) sem er einkar vel staðsett og mjög persónulegt eða The Jay (hotel-jay.com). Mjög mikið úrval er af íbúðum sem geta hentað fyrir lengri dvöl.

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Þrír bæir í nágrenni Nice

Þótt auðveldlega sé hægt að verja mörgum dögum í Nice án þess að það verði endurtekningasamt þá er einkar skemmtilegt að skoða bæina í kring, annaðhvort með því að leigja sér bíl eða nota almenningssamgöngur. Bæði lestir og strætisvagnar fara til dæmis til Saint-Jean-Cap-Ferrat, Villefrance-sur-Mer og Èze.

Saint-Jean-Cap-Ferrat er lítið fiskiþorp sem varð vinsæll ferðamannastaður snemma á 20. öldinni þegar efnamikið fólk og listamenn hófu að byggja villur á svæðinu og mætti þar nefna Rothschild-fjölskylduna og listamanninn Jean Cocteau. Hafnarsvæðið er sjarmerandi með litlum kaffihúsum og vaggandi bátum en það sem ferðamenn sækjast fyrst og fremst eftir er að ganga 8 km stíg meðfram tanganum en þar leynast litlar strandir og útsýnið er víða fallegt. Einnig er vinsælt að sigla hringinn í kringum tangann en þaðan sjást allar villurnar vel. Ráðfærið ykkur við starfsmenn í upplýsingamiðstöð ferðamanna niðri við höfnina varðandi bátsferðir.

Annar áhugaverður bær er Villefranche-sur-Mer og gaman að verja deginum við höfnina eða í gamla bænum sem státar af langri sögu og minnir um margt á Ítalíu. Þar setja þröngar, brattar og skakkar götur svip sinn á bæinn sem hefur veitt mörgum listmálurum innblástur í gegnum tíðina. Fyrir ofan sumar dyr í gamla bænum má sjá hvenær húsin voru byggð og af hverjum. Einnig er gaman að skoða gamla borgarvirkið en þar er ráðhús bæjarins til húsa, þar er hægt að skoða sig um og möguleikar á að leigja ákveðin svæði fyrir einkaviðburði.

Èze er einstakur bær sem nær frá ströndinni og hátt upp til fjalla. Hluti af bænum er inni í borgarvirki frá miðöldum og efst á hæðinni er garður með framandi plöntum, þar er magnað útsýni sem nær allt til Saint-Tropez. Miðaldabærinn er einkar sjarmerandi með þröngum, bröttum og kræklóttum götum. Þar eru fallegar litlar handverksbúðir, kaffihús, matsölustaðir og lúxushótel. Þeir sem hafa áhuga á ilmvötnum ættu að heimsækja Fragonard-ilmvatnsverksmiðjuna sem er við rætur miðaldabæjarins. Þar er hægt að fá fræðslu um hvernig ilmvötn, sápur og krem eru búin til. Hægt er að kaupa ilmvötn í verksmiðjunni. Þeir sem verða ruglaðir í nefinu við að þefa geta nælt sér í kaffibaunadunkinn til að hreinsa nefið, það virkar vel!

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Hagnýtar vefsíður

Nice – explorenicecotedazur.com

Saint-Jean-Cap-Ferrat – www.saintjeancapferrat-tourisme.fr

Villefranche-sur-Mer – www.tourisme-villefranche-sur-mer.com

Eze – www. eze-tourisme.com

Öll svæðin, einkaferðir – www.inspiring-cotedazur.com

Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: