„Fólk var að klifra upp á gíginn og ferskt hraunið“

Ferðaljósmyndarinn Ása Steinarsdóttir með eldgosið við Litla-Hrút í bakgrunni.
Ferðaljósmyndarinn Ása Steinarsdóttir með eldgosið við Litla-Hrút í bakgrunni. Ljósmynd/Ása Steinars

Undanfarna daga hefur ferðaljósmyndarinn Ása Steinarsdóttir verið önnum kafin við að ná myndefni af eldgosinu við Litla-Hrút og hefur því eytt þó nokkrum tíma við gosstöðvarnar. Hún segir það hafa komið sér á óvart hversu margir hafi þverað gróðurelda umhverfis gosið og farið alveg við gíginn. 

„Fólk hegðaði sér á mismunandi hátt. Sumir héldu góðri fjarlægð við gosið og voru með nesti, gítar og munnhörpu, svo það voru í raun lifandi tónleikar í gangi við gosið. Það kom mér hins vegar á óvart hversu margir voru alveg við gíginn. Fólk var að labba í gegnum gróðureldanna og reykinn og fóru síðan alveg að gígnum. Það er eins og fólk hafi ekki áttað sig á að þessir gígar geta brotnað og hraun gusast niður, en ég varð oft vitni af því í síðustu eldgosum,“ útskýrir hún.

„Þetta fór frekar mikið úr böndunum“

Ása flaug drónum um gossvæðið allt kvöldið og fylgdist með allskyns hegðun úr drónanum. „Í eitt skiptið tók ég andköf og sagði við hópinn minn: „Ég held að einhver muni deyja í kvöld.“ Fólk var að klifra upp á gíginn og klifra upp á ferskt hraunið,“ segir Ása.

„Það er svo mikil hjarðhegðun í gangi held ég og ekkert sem þú getur gert. Björgunarsveitin vill ekki hætta lífi sínu í að ganga í gegnum gróðurelda og reyk til að tala fólk til beint undir gígnum. Þannig þetta fór frekar mikið úr böndunum þarna, en sem betur fer hefur ekki farið illa,“ segir hún. 

Vonar að stjórnvöld fari að nýta samfélagsmiðla

Ása segir að á gönguleiðinni að gosinu, sem er níu kílómetra löng, sé fullt af skiltum en hins vegar vanti allar upplýsingar þegar komið er nær gosinu. „Ég skil að fólk dragist að þessu sjónarspili, þetta er svolítið svona eins og flugur sem laðast að ljósi. En ég held að margir séu ekki að átta sig á hvar hættusvæðið liggur og það er að reyna að sjá gosið betur,“ segir hún.

Eftir að hafa orðið vitni af glæfralegri hegðun við gosstöðvarnar segist Ása leggja til að það verði útbúið stórt skilti með leiðbeiningum um hvernig eigi að haga sér í kringum eldgos „Þetta yrði þá svona „must read before enter“ skilti til að hjálpa fólki að skilja hættuna. Eða þá að stjórnvöld fari að nýta sér miðla eins og mína til að miðla upplýsingum til ferðamanna,“ segir Ása og bætir við að í hverjum mánuði sé hún að ná til 40 milljón manns.

„Það eru um 300 þúsund manns að horfa á myndböndin mín daglega þar sem ég er að deila minni upplifun af gosinu, en samt eru alltaf farnar gamaldags leiðir til að miðla upplýsingum, eins og í gegnum SMS. Það þarf bara að framleiða myndbönd og fræða á samfélagsmiðlum – þar er fólkið, í símanum sínum. Það er ástæða fyrir því að þau eru að fara að þessu gosi til að byrja með. Þau sjá þetta á samfélagsmiðlum,“ segir Ása.

„Ég hef sagt þetta margoft, en það væri gaman að sjá stjórnvöld fara að nýta sér mátt samfélagsmiðla aðeins meira og koma nær nútímanum,“ bætir hún við. 

Magnað að sjá gosið með berum augum

Ása mælir þó eindregið með því að fólk fari að eldgosinu og segir það magnaða upplifun. „Ég mæli þó með að fara vel klædd, en ég persónulega hélt að ég væri að klæða mig mjög vel en endaði með kuldaskjálfta,“ segir Ása, en hún hjólaði upp að gosstöðvunum fyrr í vikunni og segir svitann og rokið hafa kælt hana niður ansi hratt. 

„Sem betur fer var strákur sem ég þekkti með svefnpoka þannig ég sat í honum á meðan ég flaug drónanum. Ég myndi líka klárlega mæla með að skella mér á fjallahjóli, en mér fannst það gera upplifunina enn meira spennandi. Ég er allavega mjög spennt fyrir því að gosstöðvarnar opni aftur,“ segir Ása að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert