Íslensk græðgi tók yfir á hlaðborði á Spáni

Saltkjöt og baunasúpa ásamt meðlæti.
Saltkjöt og baunasúpa ásamt meðlæti. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska græðgin tók yfir á hlaðborði sem haldið var fyrir Íslendinga og aðra áhugasama á Costa Blanca á Spáni í gærdag. Tilefnið var sprengidagurinn, hinn árlegi íslenski átdagur, þar sem Íslendingar gæða sér á saltkjöti og baunum. 

Karl Kristján Hafsteinn Guðmundsson, betur þekktur sem Kalli á Spáni, birti færslu á Facebook, þar sem hann lýsti upplifun sinni af hlaðborðinu, sem reyndist allt önnur en ánægjuleg. Að sögn Karls þá mokaði fólk saltkjöti á diskinn, í vasann og ferðatöskur á meðan aðrir fengu varla bita og lentu viðburðahaldarar meðal annars í því að endurgreiða gestum sem vildu aðeins njóta þessa klassíska matar. 

„Uppselt var á Saltkjöt og baunir Amöndu og Gumma sem haldið var á veitingastaðnum La Fiorentina á sprengidag. Kom í ljós að margur Íslendingurinn kann ekki að umgangast hlaðborð heldur fer fram með græðgi. Amanda og Gummi endurgreiddu því mörgum og ljóst að kvöldið er í stórtapi, því miður!

Ástæðurnar eru nokkrar. Um 20 manns, fjórði hluti gestanna, fengu ekkert saltkjöt þökk sé græðgi annarra gesta! Helstu skýringarnar eru:

  • Fólkið sem kom fyrst að hlaðborðinu mokaði margt rúmu kílói af kjöti á sinn disk. Það var gert ráð fyrir 450 grömmum á mann, tvöfalt meiru kjöti en þegar skammtað er á diska!
  • Fólk fór aftur og aftur og fékk sér ábót áður en aðrir komust sína fyrstu ferð að hlaðborðinu! Fjórðungur varð því út undan.
  • Margir fóru snemma af staðnum með sjálftekið kjöt í álpappír, pinklum og töskum. Það var tekið eftir ykkur.
  • Kom berlega í ljós að fólk kann sig ekki. Græðgin og tillitsleysið var algjört. Þetta sama fólk fór snemma af staðnum enda þurfti það að komast heim til að leggja sig eftir ofátið!
  • Það eina sem er eftir hjá þeim siðlausustu er að þykjast ekkert hafa fengið og heimta endurgreiðslu!

Ég geri ekki ráð fyrir að fólk biðji Amöndu og Gumma afsökunar á framferði sínu heldur þegi þunnu hljóði og þakki þeim ekki einu sinni fyrir sig.

Á þessum sprengidegi skammaðist ég mín fyrir að vera Íslendingur! Eiginlega í fyrsta sinn,“ skrifaði Karl á Facebook.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert