Breiðablik æfir á hóteli sem stjörnur elska að gifta sig á

Leikmenn Breiðabliks eru staddir á lúxushóteli á Spáni um þessar …
Leikmenn Breiðabliks eru staddir á lúxushóteli á Spáni um þessar mundir! Samsett mynd

Leikmenn meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Breiðabliki eru staddir í æfingaferð á Alicante-svæðinu um þessar mundir. Þeir hafa verið duglegir að deila efni frá ferðinni, en þeir eru staddir á sannkölluðu lúxushóteli með frábærri aðstöðu. 

Hótelið sem um ræðir er La Finca Resort sem er fimm stjörnu hótel staðsett við La Finca-golfvöllinn á Alicante. Auk golfvallarins er á svæðinu glæsileg aðstaða til líkamsræktar og til að stunda aðrar íþróttir eins og fótbolta, tennis, paddle og hjólreiðar. 

Við hótelið eru tveir fótboltavellir með grasi sem standast kröfur Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) auk markmannsþjálfunarsvæðis, tveimur fullbúnum búningsklefum og glæsilegri líkamsræktarstöð. 

Vinsælt hjá knattspyrnustjörnum

Hótelið virðist vinsælt meðal íslenskra stjarna til að gifta sig á, þá sérstaklega knattspyrnumanna. 

Árið 2022 gengu knattspyrnumaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson og lögfræðingurinn Hólmfríður Björnsdóttir í hjónaband við glæsilega athöfn á hótelinu. Íslenskum skemmtikröftum á borð við Emmsjé Gauta, Herra Hnetusmjör og Sóla Hólm var flogið út til að skemmta gestum og því vantaði ekki upp á stemninguna. 

Ári síðar, eða sumarið 2023, gengu einkaþjálfarinn Karitas María Lárusdóttir og fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Gylfi Einarsson einnig í hjónaband á hótelinu. Brúðkaupið fór fram utandyra í mikilli veðurblíðu, en eftir athöfnina var slegið upp veislu þar sem stuðið var allsráðandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert