Strendurnar sem þú verður að heimsækja í Bretlandi

Víðsvegar um Bretland má finna undurfagrar strendur.
Víðsvegar um Bretland má finna undurfagrar strendur. Samsett mynd

Það eru kannski fáir sem leggja leið sína til Bretlands til þess að liggja á ströndinni, en Bretland lumar þó á mörgum spennandi og undurfögrum ströndum sem geta komið skemmtilega á óvart á góðum sumardegi. 

Nýverið tók ferðavefur Condé Nast Traveller saman lista yfir bestu strendurnar í Bretlandi, en hér fyrir neðan má sjá fimm strendur sem prýða listann og þykja með þeim fallegustu. 

Seven Sisters

Í austurhluta Sussex-sýslu er að finna hina fögru kletta Seven Sisters, en nafnið vísar til sjö tinda þessara kletta sem gleðja sannarlega augað. Vanir göngugarpar geta gengið meðfram klettunum, en frá þeim er glæsilegt útsýni.

Það er ekki síður magnað sjónarspil að horfa á klettana …
Það er ekki síður magnað sjónarspil að horfa á klettana frá ströndinni. Ljósmynd/Unsplash/Joseph Pearson

Durdle Door

Á Jurassic-strandlengjunni í Dorset er sjarmerandi strönd við hið fræga Durdle Door sem er kalksteinsbogi sem liggur á milli tveggja stranda. Til þess að komast á ströndina þarf að klifra niður nokkur hundruð þrep í klettinum, en að mati margra er það vel þess virði. 

Durdle Door tengir saman tvær fallegar strendur.
Durdle Door tengir saman tvær fallegar strendur. Ljósmynd/Unsplash/Robert Bye

Rhossili Bay

Gower skaginn í Wales státar af einni fegurstu strandlengju Bretlands, en í vesturenda hennar er að finna Rhossili Bay sem einkennist af hvítum sandi og bröttum kalksteinsklettum. 

Ströndin er meðal annars í uppáhaldi meðal brimbrettakappa.
Ströndin er meðal annars í uppáhaldi meðal brimbrettakappa. Ljósmynd/Unsplash/Marcus Woodbridge

Llanddwyn

Á eyjunni Llanddwyn í Wales er sérlega fögur strandlengja sem teygir sig tæpa fimm kílómetra eftir eyjunni. Hún er þekkt sem „strönd rómantíkarinnar“ og býður upp á fallegt landslag, spennandi dýralíf og notalega stemningu. 

Ströndin er þekkt sem „strönd rómantíkarinnar“.
Ströndin er þekkt sem „strönd rómantíkarinnar“. Ljósmynd/Unsplash/Daniel Seßler

Cuckmere Haven

Þeir sem kunna betur við sig á jafnsléttu en vilja upplifa töfra Seven Sisters klettanna geta dáðst að þeim frá Cuckmere Haven-ströndinni, en hún þykir ein besta ströndin í nálægð við Lundúni. 

Frá ströndinni er guðdómlegt útsýni yfir Seven Sisters-klettana.
Frá ströndinni er guðdómlegt útsýni yfir Seven Sisters-klettana. Ljósmynd/Pexels/Alec D
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert