„Eigum flest okkar bestu minningar frá Þorlákshöfn“

Ólafur Pálsson segir einstakt að fara á brimbretti í Þorlákshöfn.
Ólafur Pálsson segir einstakt að fara á brimbretti í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Aðsend

Ólafur Pálsson er mikill brimbrettakappi. Hann sneri heim til Íslands eftir fimm ára dvöl í Ástralíu árið 2009 og þá fór hann ekki síst til Þorlákshafnar til að stunda íþróttina en aðstaðan þar er einstök á heimsvísu. Nú stefnir í að brimbrettaiðkendur á Íslandi missi þessa útivistaaðstöðu. 

„Ég flutti til Ástralíu árið 2004 í nám og byrjaði fljótlega að stunda brimbretti með fólki sem ég kynntist þar. Næstu fimm árin var ég meira og minna að ferðast með vinum um landið að skoða og prófa nýjar öldur. Eftir það var ekki aftur snúið, og þegar ég flutti svo heim 2009 byrjaði ég strax að leita að félagsskap til að fara í vatnið með. Ég kynntist þá litlum hóp, þessari fyrstu kynslóð íslenskra brimbrettaiðkenda og í raun eignaðist marga af mínum bestu vinum. Frá þeim degi og þar til núna hefur hópurinn stækkað og dafnað, en í dag teljum við nokkur hundruð manns,“ segir Ólafur um hvernig brimbrettaáhuginn kviknaði hjá honum. 

Ólafur byrjaði að stunda brimbretti í Ástralíu.
Ólafur byrjaði að stunda brimbretti í Ástralíu. Ljósmynd/Aðsend

Ólafur hefur upplifað mörg eftirminnileg augnablik í sjónum. 

„Ísland er einstakt þegar kemur að öldum og brimbrettaiðkun. Hérna eru heimsklassaöldur í nokkra mínútna fjarlægð frá Reykjavik og ekki mjög margir um hverja öldu í vatninu, sem telst smá kostur.

Ég á margar einstakar minningar á eyjunum í kringum Faxaflóa, í fullkomnum öldum með aðeins nokkrum vinum mínum í vatninu. Að sama skapi hef ég líka átt erfiðar upplifanir, til dæmis að vera flautaður upp úr vatninu í Ástralíu þar sem hákarl var að svamla í kringum okkur, sem og að lenda í stórum öldum ungur og óreyndur og þurfa að anda mig í gegnum það. Þessi íþrótt reynir á margar hliðar, og margir líkja brimbrettaiðkun við sálfræðitíma, maður losar um streitu og endurnærist.“

Ólafur segir ekki síðra að fara á brimbretti á Íslandi …
Ólafur segir ekki síðra að fara á brimbretti á Íslandi en í útlöndum. Ljósmynd/Benjamin Hardman

Er spennandi að stunda brimbretti á Ísandi í kulda? 

„Brimbrettaiðkun á Íslandi er vetraríþrótt og tímabilið nær frá september út maí. Við förum út í vatnið í miklu frosti og kulda en það er alltaf jafn gaman. Blautgallar og annar búnaður hefur þróast mikið síðastliðin ár og nú er „cold water surfing“ orðið mjög vinsælt á norðlægum slóðum. Ísland er einn besti „cold water surf“ staður í heiminum, einmitt vegna öldunnar í Þorlákshöfn.“

Ólafur á brimbretti í kuldanum á Íslandi.
Ólafur á brimbretti í kuldanum á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Fólk kemur allstaðar að úr heiminum

Brimbrettaiðkendur á Íslandi vekja um þessar mundir athygli á mikilvægi öldunnar í Þorlákshöfn sem er sögð vera einstök.  

„Aðalbrotið í Þorlákshöfn hefur verið miðpunktur brimbrettaiðkunar á Íslandi síðastliðin 30 árin, eða frá því að menn byrjuðu fyrst að stunda þetta sport á Íslandi. Aldan er það fjölbreytt að hún hentar öllum, bæði byrjendum og lengra komnum. Hún getur borið mikla stærð, allt að 7-8 metrum og svo daginn eftir verið lítil og kósí. Á góðum dögum safnast fólk þarna saman í tugum ef ekki hundruðum á góðum dögum, og þetta er eini staðurinn á Íslandi sem brimbretta-samfélagið hittist reglulega, og nærist. Við sem stundum þessa íþrótt eigum flest okkar bestu minningar frá Þorlákshöfn, og þetta er algjört og kannski það eina alvöru „breeding-ground“ á landinu þar sem grasrótin getur vaxið og dafnað. Þessi staður er grundvallarforsenda fyrir þessari íþrótt á Íslandi.“

Á undanförnum árum hefur brimbrettasamfélagið á Íslandi stækkkað en aðstaðan …
Á undanförnum árum hefur brimbrettasamfélagið á Íslandi stækkkað en aðstaðan í Þorlákshöfn hentar öllum. Ljósmynd/Aðsend

Nú á að setja landfyllingu í sjóinn og er því forsendur fyrir brimbrettaiðkun á svæðinu í mikilli hættu að sögn Ólafs.  

„Við stöndum við frammi fyrir því núna, eftir öll þessi ár að þurfa að berjast fyrir tilvist þessara öldu og útivistarsvæðis. Til stendur að leggja landfyllingu yfir 90% af svæðinu sem aldan brotnar yfir. Aldan mun eyðileggjast alveg við þessa framkvæmd og þetta er óafturkræft, þessi staður mundi hverfa fyrir fullt og allt. Það er mikilvægt að taka fram, við erum alls ekki á móti hafnarstækkun í Þorlákshöfn, heldur aðeins þessum viðlegukanti (landfyllingu) sem á að koma þarna og í þessari mynd. Fyrir lágu tillögur Bæjarstjórnar Ölfuss sem unnar voru í samstarfi við stjórn Brimbrettafélags Íslands, sem við héldum að ætti að samþykkja. Svo þegar kom til atkvæðagreiðslu bæjarstjórnar, kom í ljós að allt önnur og mun verri tillaga lág fyrir. Tillaga sem gjörsamlega eyðileggur svæðið og ölduna. Í raun var logið að okkur til að halda okkur í burtu.“

Á fleygiferð.
Á fleygiferð. Ljósmynd/Benjamin Hardman

Það eru ekki bara brimbrettaiðkendur á Íslandi sem nýta sér aðstöðuna í Þorlákshöfn. 

„Fólk kemur allstaðar að úr heiminum til að prófa ölduna í Þorlákshöfn, enda þetta lang frægasta og þekktasta alda Íslands. Við fáum atvinnubrimbrettafólk, kvikmyndagerðarlið og áhugasama brimbrettaiðkendur allt árið um kring í vatnið. Aldan býður upp svo fjölbreyttar aðstæður, bæði krefjandi öldur með stórum fullkomnum veggjum sem og þægilegar litlar öldur á minni dögum. Hún virkar á flóði og fjöru og hentar í raun öllum. Sá eiginleiki er sérstakur fyrir eina öldu að hafa.“

Frumsýna heimildarmynd 

Á þriðjudaginn verður frumsýnd heimildarmyndin Aldan okkar allra í Bíó Paradís en myndin fjallar um baráttuna fyrir áframhaldandi brimbrettaiðkun í Þorlákshöfn. 

„Við höfum verið að berjast fyrir verndun á þessari öldu í nokkur ár núna. Myndin fjallar að miklu leyti um þá barráttu og þau samskipti sem við höfum átt við meirihluta bæjarstjórnar Ölfus. Í myndinni er líka reynt að koma skil á mikilvægi þessarar öldu fyrir ekki bara brimbrettaiðkenda heldur líka íbúa Þorlákshafnar. Við hvetjum sem flesta til að láta sjá sig á þessum skemmtilega viðburði næst komandi þriðjudag, 28. maí kl 18.00 í Bío Paradís,“ segir Ólafur og bætir við að happadrætti verður á staðnum auk þess sem ókeypis er á biðburðinn.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert