Eru miðaldra konur ekki nógu mikilvægar?

Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.
Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.

„Ég hef alltaf unnið mikið og orðatiltækið „vinnan göfgar manninn“ var eins og meitlað í stein. Þegar ég byrjaði að vinna sem fasteignasali árið 2003 þá setti ég vinnuna í fyrsta sæti. Sumar vikur vann ég alla daga. Ef ég var ekki í vinnunni þá var ég að vinna í tölvunni heima. Ég var því oft ekki til staðar þó að ég væri á staðnum. Nei, mamma hefur ekki tíma til að lesa, hún er að vinna. Mamma kemst ekki á sýninguna. Hún þarf að vinna,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona í sínum nýjasta pistli: 

Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég sagði þessa setningu og ég virkilega trúði því að þetta væri frábær ráðstöfun á mínum tíma. Ég komst aldrei í ræktina. Ég var alltaf að vinna seinni partinn þannig að flestir hóptímar voru á vondum tíma fyrir mig. Ég komst heldur ekki á morgnana því ég vann svo langa vinnudaga að ég hafði enga orku til að fara í ræktina þá.  Einn daginn las ég þessa setningu. Þú setur í forgang það sem skiptir máli. Ég prófaði að snúa henni við og í staðinn fyrir að segja ég hef ekki tíma, þá sagði ég: „Þetta er ekki nógu mikilvægt fyrir mig til að setja í forgang.“ 

Þetta breytti öllu. Allt í einu hljómar heilsan mín er ekki nógu mikilvæg til að setja hana í forgang ekkert sérstaklega vel. Það er samt ekkert á við að segja við börnin sín. Veistu elskan mín, fimleikasýningin þín er ekki nógu merkileg til að ég gefi mér tíma til að mæta.    Þegar þú breytir orðalaginu þá kemstu ekki lengur upp með að ljúga að þér. Þegar við segjum, ég hef ekki tíma, erum við einfaldlega að segja. Ég nenni ekki að setja þig í forgang. Það er annað sem skiptir meira máli. Við erum samt verst við okkur sjálf. Við ljúgum meira að okkur en neinni annarri manneskju.

Setningar á borð við. Ég hef ekki tíma fyrir sjálfa mig. Ég hef ekki tíma til að hreyfa mig. Ég hef ekki tíma til að hugsa um heilsuna er líklega ein stærsta lygin sem við segjum. Þú setur í forgang það sem skiptir máli og með því að setja þig ekki í forgang ertu einfaldlega að segja sjálfri þér að þú sért ekki nógu mikilvæg, að þú skiptir ekki nógu miklu máli.

Rachel Hollis segir þetta svo vel í bókinni sinni „Girl Wash Your Face“  „I know that blowing off a workout, a date, an afternoon to organize your closet, or some previous commitment to yourself doesn’t seem like a big deal—but it is. It’s a really big deal. Our words have power, but our actions shape our lives.”

Málið er einfalt, í hvert skipti sem við sleppum einhverju erum að við að segja okkur að það skipti ekki máli. Því oftar sem við gerum þetta því auðveldara verður það og einn daginn verður það að vana að standa ekki við loforðin sem við gáfum sjálfum okkur. Það kom mér því skemmtilega á óvart að þegar ég minnkaði vinnuna og hætti að vinna á kvöldin og um helgar að ég kom miklu meira í verk á miklu styttri tíma.

Sýnishorn af æfingaplaninu í nóvember

Nóvember var í raun fyrsti alvöru þríþrautaæfingarmánuðurinn minn. Æfingar byrjuðu seint í september. Ég fór erlendis með dóttur minni í október í langa helgi og ég er alltaf nokkra daga að ná úr mér flugþreytu þegar ég fer til Bandaríkjanna.  Æfingaplanið var meitlað í stein og ég verð að viðurkenna að ég hlakkaði til að komast aftur í æfingarútínuna mína

Svona leit planið út í byrjun nóvember

Mánudagar: sund kl. 19:30-20:30

Þriðjudagar: hjólaæfing 05:55 – 7:10, svo brick og planki beint á eftir

Miðvikudagar: hlaupaæfing 17:30 – 19:00

Fimmtudagar: hjólaæfing 05:55 – 07:10, svo brick og planki beint á eftir og sundæfing 19:30 -20:30

Föstudagar: Hvíld

Laugardagar: útihlaup 09:00 – 10:30 og sundæfing 11:00 -12:00

Sunnudagar: hjólaæfing 09:00-11:15

Mánuðurinn byrjaði á föstudegi þannig að fyrsta æfingin var hvíld 😊

Laugardagsæfing: Alltaf 2 æfingar. Fyrst er hlaupaæfing og svo er sundæfing.  Þennan laugardag tók ég 10 km útihlaup með Þríkó í Heiðmörk. Mér finnst mjög gott að byrja að hlaupa hægt og bæta svo við hraðann eftir því sem ég hleyp lengra.  Flestir sem eru að hlaupa í Þríkó gera það líka.  Munurinn á mér og þeim er að þeirra byrjunarhraði er miklu hraðari en minn þannig að þau stinga mig alltaf af.  Það er allt í lagi. Róm var ekki byggð á einum degi. Ég vil frekar gera þetta hægt og rólega og njóta æfinganna heldur en að sprengja mig í miðju hlaupi, líða ömurlega og hætta alveg.  Það er aldrei hægt að bera sig saman við aðra.  Sumir sem eru að hlaupa í Þríkó hafa keppt í allskonar Járnkörlum og Maraþonum og eru búin að hlaupa í áratugi. Þú getur aldrei borið þinn fyrsta kafla við kafla 20 hjá næsta manni.

Eftir hlaupaæfinguna skelltum við okkur á sundæfingu. Ég var smá kvefuð og treysti mér ekki alveg á fulla æfingu. Það sem ég hef lært að gera í svona aðstæðum er að gera mitt besta. Mæta og taka styttri æfingu eða hvíla meira á æfingunni. Það sem hentar mér best er að sjá reglulega einhverjar framfarir. Ég á erfitt með að sjá þær þegar það eru tækniæfingar.  Ég samdi því við Sigurð Ragnarsson sundþjálfara að fá að nýta laugardagsæfingarnar í að bæta mig. Mitt markmið er að komast í að synda 3.000 m í einni lotu í skriðsundi. Þennan laugardag synti ég 1.000 m og svo er planið að lengja þetta smátt og smátt þar til allt í einu get ég synt 3.000 m í apríl 2020. Alveg eins og með plankann. Ég byrjaði á því að geta plankað í 10 sekúndur og svo allt í einu gat ég plankað í 6 mínútur. Margt smátt gerir eitt stórt og það er í raun ótrúlegt hvað það er hægt að bæta sig mikið á stuttum tíma með því að mæta og gera.

Morgunhjólaæfing kl. 5:55. Þetta var ansi erfið æfing en ég lifði hana af. Ég get alveg viðurkennt að ég tók pásur sem voru ekki á planinu og ég tók lengri hvíld á milli rauðra spretta. Það er alltaf betra heldur en að hætta alveg. Ég kláraði æfinguna og tók svo 15 mínútna brickhlaup á eftir.  Það er orðið hluti af minni rútínu. Ég man að ég hugsaði í fyrra þegar ég sá þríþrautadeildina gera þetta. Aldrei mun ég geta farið á hlaupabretti eftir hjólaæfingu, vá hvað ég vildi að ég væri í svona góðu formi. Svo allt í einu er ég farin að geta þetta. Ég elska að geta eitthvað sem ég var búin að sannfæra mig um að ég gæti ekki.  Munurinn á mér í dag og áður er að ég prófa og reyni. Ég byrja hægt og rólega og byggi svo undir. Ef planið er að hlaupa 15 mínútur þá byrja ég í 5 mínútur og sé hvernig það gengur.  Það hentar mér svo miklu betur en að hlaupa í 15 mínútur og gefast upp og reyna aldrei aftur.

Hotbody æfing á laugardegi: Við fengum val um útihlaup eða Hotbody og hlaupabretti einn laugardaginn. Aldrei hefði það hvarflað að mér að ég gæti 3 æfingar á dag.  Svo allt í einu er ég farin að gera það reglulega. Hotbodytíminn var frábær. Mér fannst hann reyndar frekar léttur og reyna mjög lítið á, alveg þangað til daginn eftir.  Þá áttaði ég mig á því hversu mikil snilld þessi tími var, ég var að finna fyrir vöðvum hér og þar sem ég vissi ekki að ég hefði.

Samkvæmt planinu átti að hlaupa á hlaupabretti eftir Hotbodytímann í 30 mínútur. Þetta yrði mitt lengsta hlaup og ég ákvað að prófa að hlaupa á 9.3 hraða. Setti óvart á 9.5 og gat það og var hrikalega montin með mig hvað ég var orðin góð, alveg þangað til ég leit til vinstri og sá að  Hákon Hrafn var að hlaupa á 14.0. Gamla ég hefði bugast. Ég hefði æst mig upp og stillt brettið líka á 14.0. Síðan hefði ég annað hvort þeyst af því á núlleinni því ég hefði ekki ráðið við þennan hraða eða ég hefði dottið um sjálfa mig og skaðað mig all hressilega.  Nýja ég leit á 14.0 og minnti mig á að Hákon Hrafn hefur hlaupið síðan hann var í móðurkviði og okkar lappahlutfall er 4:1 honum í hag. Eina leiðin til að ég gæti hlaupið á sama hraða og Hákon Hrafn væri ef hann væri á hækjum og það yrði samt ekki öruggt, nú eða ef ég væri elt af svöngu ljóni, þá kannski næði ég 14.0  Ég kláraði svo 30 mínútur á 9.5 og var mjög sátt við mig þar sem þetta var bæði lengsta og hraðasta sem ég hef hlaupið á bretti eftir aðra æfingu.

Sundið gekk ágætlega. Ég synti 1.500 m sem mér fannst frábært af því að fyrir ári síðan gat ég ekki synt 50 m í einni beit. Ég þurfti alltaf að stoppa til að anda á leiðinni. Sundið gekk samt líka illa því ég var 55 mínútur að synda sem þýðir pace 3.39 sem er rosalega hægt.  Þetta er alvöru skjaldbökusund.  Það er allt í lagi vegna þess að ég á nóg inni til að bæta.

Sunnudagur til sælu. Hjóla- og brick æfing og Hot Yoga: Þetta var ansi krefjandi hjólatími. Hjólatími og brick þýðir að reglulega „stekkur“ þú af hjólinu, hleypur að brettinu og tekur gott hlaup þar.  Hleypur svo aftur á hjólið. Það er leiðbeinandi aðferðin. Svo er það mín aðferð.  Þú ferð af hjólinu, gengur rösklega að brettinu, hleypur, skreppur svo jafnvel á salernið, fyllir á vatnsbrúsann og gengur svo rösklega aftur í hjólasalinn.  Endurtekið eftir þörfum. Þar sem hotbody gekk svona svakalega vel þá ákvað ég að skella mér í Hot Yoga eftir hjóla/brick tímann. Það gekk nú eiginlega alveg hörmulega. Eftir 20 mínútur átti ég ekkert inni. Leið eins og ég væri mætt í Jökulsárhlaupið þegar ég varð alveg bensínlaus. Ég gat ekkert í tímanum og mér leið ömurlega illa. Eftir tímann bentu mér reyndari aðilar á að ég hefði þurft að fá mér næringu fyrir tímann og fylla aðeins á tankinn. Man það næst.

Rauð hjólaæfing: Guðmundur Sveinsson eða Gummi er þjálfarinn. Hann er aðeins betri en ég. Ég er sem betur fer aftast og sé ekkert á skjáinn nema með því að pýra augun. Stóra myndin sýnir wöttin sem við eigum að hjóla á. Þetta var erfið æfing og við áttum að fara í 170 wött. Þar sem ég er alveg buguð á að reyna það sé ég að það eru rauðir stafir við hliðina á 170 sem sýna 579. Hvað þýða þessar tölur við hliðina á 170 spurði ég sessunaut minn. Ég vissi það alveg, ég vildi bara fá að staðfest. Þetta eru tölurnar sem Gummi er að hjóla á. Já einmitt, ég er að bugast á 170 og þá er hann bara að chilla í 579. Þegar ég verð stór, ætla ég að verða eins og Gummi, eða sko að minnsta kosti geta komist í 579 í 5 sekúndur. Málið er að þegar þú horfir á fólk eins og Gumma þá hefur þú á tilfinningunni að þeir hafi alltaf verið svona góðir.  Þeir hafi einhvern veginn fæðst ofurmenni og þurfi ekkert að hafa fyrir þessu. Gummi setti inn mynd af sér á Facebook um daginn sem sýndi breytingarnar á honum sem hjólara á 6 árum. Hann byrjaði að æfa hjólreiðar af alvöru einmitt fyrir ca 6 árum. Ég á svipaða mynd af mér og fyrri myndin af Gumma og einhvern tímann mun ég eiga svipaða mynd af mér og seinni myndin af Gumma.  Ég verð aldrei Gummi, ég hef enga þörf fyrir það. Ég vil bara keppa við mig og halda áfram að bæta mig og ögra mér. 

Í hjólatímum er ég yfirleitt eins og óákveðin kjósandi á kjördag. Planið er alveg skýrt. Við eigum að hjóla á ákveðnum hraða í ákveðinn tíma. Þetta er ekkert flókið. Við fáum tölurnar og svo eru þær líka litakóðaðar. Það mætti halda að það væri engin leið að klúðra þessu.  Þegar þjálfarinn segir núna hjóla allir á 90 wöttum (sem er gulur litur), tek ég regnbogann á þetta. Fyrst fer ég í gult, svo rautt, svo niður í grænt og stundum alla leið niður í blátt.  Ég er aðeins að finna mig ennþá og læra á stillingar á hjólinu. Það er allt í lagi. Það má alveg vera út á túni stundum. Muna að æfingin skapar meistarann og þú verður alltaf betri og betri og svo einn daginn tekur þú heila æfingu í réttum lit.

Í lok nóvember kom loksins að því að ég svitnaði niður á gólf á hjólaæfingu.  Mér fannst ég orðin fullorðins, loksins komin í hóp alvöru hjólara. Setti þetta afrek í story á Instagram. „Ein erfiðasta æfing frá upphafi“. Fékk svar frá Gumma, þetta var nú bara „easyhjól í dag“ og broskall 😊

Sundæfingar: Ég er rosalega ánægð með sundþjálfarann okkar.  Það er engin smá lúxus að hafa 2 frábæra sundþjálfara hjá Breiðablik. Siggi er frábær. Hann er með aðila á allskonar getustigi og nær að halda utan um okkur öll. Hann er einhvern veginn með yfirsýn yfir allt og alla á æfingum. Ég er ennþá að glíma við snorkel æfingarnar. Finnst það pínu hvimleitt enda búin að hafa köfunarrréttindi síðan Siggi byrjaði á leikskóla.  Mögulega er það eins og með margt annað.  Það þarf að viðhalda þekkingunni. Ég náði mér í Advanced Open Water Diver  köfunarréttindi frá PADI þegar ég bjó i Honduras 1993 og hef ekki kafað síðan. 

Þegar bingóvöðvarnir taka völdin

Ég byrjaði að prófa brickhlaup eftir hjól í október. Hvað er brickhlaup? Það er hlaup eftir hjólaæfingu. Þetta er hugsað til að venja fæturna við þessa hreyfingu að geta hlaupið strax eftir að hafa hjólað. Ég byrjaði rólega í 5 mínútum en var fljótlega komin í 15 mínútur og svo var planið að auka hraðann þar til ég myndi komast í 11.0, sem sagt 15 mínútur á 11.0 var lokamarkmiðið, að minnsta kosti í þessum áfanga. Eftir brickið þá teygi ég alltaf vel og planka. Áður en ég datt í sumar og var sett óvart í gifs átti ég best 6 mínútur í planka. Bingóvöðvarnir voru farnir að styrkjast og það var að myndast smá byssa á hárréttum stað. Það tók höndina margar vikur að samþykkja að fara að planka aftur eftir að gifsið sem ég þurfti ekki var tekið. Þá kom í ljós að bingóvöðvarnir voru ekki farnir neitt. Þeir höfðu bara legið í dvala.  Þeir breiddu úr sér eins og Lúpína á góðum degi. 6 mínútna planki reyndist ógerningur. Ég ákvað því að fara aftur á byrjunarreit og byrja á 30 sekúndum og bæta svo við 1-5 sekúndum í hvert skipti sem ég planka. Aldrei meira, því ég er excelskjal. Ég þarf að sjá framfarir, hversu smáar og hægar sem þær eru. Við erum öll mismunandi og það sem virkar best fyrir mig er að sjá bætinguna mína. Plankinn byggir ansi mikið á dagsforminu. 8. nóvember var ég komin í 2 mínútur. Daginn eftir voru 2 erfiðar æfingar og ég gat 1 mínútu og þá ákvað ég að byrja aftur að byggja undir plankann frá 1 mínútu. Lokamarkmiðið mitt er að geta 5 mínútur í planka.

Ég þyngdist um 2 kíló í sumar, æfði minna og át meira. Mín kíló eru miklar félagsverur og vilja vera saman.  Þau hópuðu sig því saman, 500 gr á hvorn bingóvöðva og 500 gr. á hvort innra læri. Mér hefði fundist tilvalið að þau hefðu valið að stækka brjóstin sem hafa minnkað um 2 númer í þessu ferli mínu. Nei, það voru engar samningaviðræður um þetta mál, bara einhliða ákvörðun hjá þeim. Ég var hundfúl með að blessaðir bingóvöðvarnir væru farnir að breiða úr sér en niðurstaðan eftir innra samtal við sjálfa mig var að sætta sig við staðreyndir. Þeir væru ekkert að fara á næstunni, ekki frekar en blessuð Lúpínan. Hvar er þá til ráða?  Leggjast í þunglyndi yfir þessari ósvífni. Nei, láta hart mæta hörðu og útrýma þeim einn planka í einu.

Þegar gamla ég var í ræktinni, þá hataði ég planka meira en nokkuð annað. Þjálfarinn sagði  reglulega „núna plönkum við í eina mínútu“. Hann hefði alveg eins getað sagt, núna plönkum við í klukkutíma eða næsta mál á dagskrá er að hlaupa upp Everest. Ég gat ekki plankað í 1 mínútu og þessi niðurlæging að gefast alltaf upp eftir nokkrar sekúndur var óþolandi.  Allir aðrir gátu plankað, bara ekki ég.  Það var ekki fyrr en ég fann mína eigin leið til að planka að þetta fór að ganga vel og mér fannst gaman að planka.  Stundum er nóg að byrja að planka í 10 sekúndur og bæta svo við 1 sekúndu.  Allt í einu getur þú plankað í 30 sekúndur og svo 1 mínútu. Kannski tekur það þrjá mánuði að geta það eða jafnvel sex mánuði.  Það skiptir nákvæmlega engu máli hvað það tekur langan tíma því ef þú reynir ekki þá getur þú ekki ennþá plankað í 10 sekúndur eftir 6 mánuði eða ár. Tíminn mun alltaf líða. Hvers vegna ekki nota hann í örbætingar á einhverju sem þú vilt laga? Það þarf ekki að vera planki, getur verið hvað sem er.  Ég get lofað þér að tilfinningin sem þú finnur þegar þú getur eitthvað sem þú hefur alltaf vitað að þú gætir ekki er ólýsanlega góð.

Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag þá hefur heilsan ekki tíma fyrir þig á morgun

Þetta sá ég hjá fyrrverandi heimilislækninum mínum.  Þetta var á veggnum fyrir aftan hann þannig að þú gast ekki annað en lesið þetta þar sem þú sast á móti honum.  Ég man þegar ég sá þetta fyrst. Ég hugsaði, meiri hrokinn í þessum manni. Hvað þykist hann vera?  Hann veit ekkert um mig eða mitt líf. Ég er rosalega upptekin. Ég er í krefjandi vinnu, með börn sem þarf að sækja og skutla útum allt. ÉGHEFEKKITÍMA Hvað er hann að setja sig á háan hest gagnvart mér? Þetta fór alltaf rosalega í taugarnar á mér, líklega mest af því að ég vissi innst inni að þetta var rétt. Ég var bara ekki tilbúin að viðurkenna það. Nokkrum árum seinna fékk ég nýjan heimilislækni og hann var í fríi þannig að ég hitti afleysingalækninn. Þetta var eftir að ég skipti um lífstíl og ég var að fara í mína árlegu ástandsskoðun. Árleg ástandsskoðun hvað.  Einu sinni á ári fer ég og læt mæla öll gildi og tek svona stöðutékk.  Ekkert ósvipað því og að fara með bílinn í þjónustuskoðun árlega. Við ræddum um lífið og tilveruna.  Ég fór yfir hvað ég gerði. Ég vakna 5 á morgnana.  Ég æfi 7x í viku. Ég drekk ekki áfengi. Ég reyki ekki. Ég borða hvorki kökur né nammi. Ég horfi ekki á sjónvarp og ég fer snemma að sofa. Hann horfði á mig og sagði í fullri alvöru. Mikið svakalega lifir þú leiðinlegu lífi. Ég brosti og gat ekki verið meira sama hvað honum fannst um minn lífstíl. Nokkrum dögum seinna hringdi hann með niðurstöðurnar. Hann sagði, gildin þín eru frábær. Þú ert greinilega að gera eitthvað rétt. Svo sagði hann, kannski meira við sjálfan sig. Ég missi nú oft algjörlega vitleysu út úr mér. P.s. ég hef alveg slakað á þessu núna. Ég vakna ekki alltaf klukkan 5. Ég borða alveg kökur og nammi stundum og ég er líka farin að horfa á sjónvarp.  Í 2 ár á meðan ég var að ná tökum á sjálfri mér og lífinu fór ég hins vegar alveg eftir þessu.

Að eignast 25 klukkutíma í sólarhring

Hárið á mér er eins og íslenska veðrið. Þú veist aldrei á hverju þú átt von.  Ég get farið út að morgni og það er voðalega fínt, smart krullur og líflegt. 2 tímum seinna, yfirleitt rétt áður en ég er að fara að taka upp eignavideo eða fara í viðtal, lít ég út eins og lukkutröll. Það er í alvörunni eins og ég hafi stungið fingrunum inn í innstungu og fengið raflost. Ég á mjög auðvelt með að rifja þetta upp þar sem ég hef tekið upp ógrynni af videoum í gegnum tíðina og þau poppa alltaf samviskusamlega upp einu sinni á ári, þökk sé Facebook. Ég deitaði einu sinni mann sem var „skemmtilega hreinskilinn“.  Ég var að skoða mynd af mér sem mér fannst ansi góð þar til hann sagði, þú getur ekki sett þessa mynd inn, hárið á þér er hörmulegt, þú lítur út eins og Grýla á henni. Það tók mig u.þ.b. klukkutíma að græja hárið ef ég ætlaði að vera fullviss um að það yrði til friðs út daginn. Eftir að ég byrjaði að æfa svona mikið þá varð hárið ennþá meiri hausverkur. Suma daga æfi ég tvisvar.  Það er kannski hjólaæfing kl. 5:55 og svo sundæfing kl. 19:30. Það þarf ekki að hafa stærðfræðigráðu til að reikna út að það hefur engin 2 tíma á dag til að stússast í hárinu sínu, eða að minnsta kosti mjög fáir. Eins og allir vita þá les Facebook hugsanir. Þú þarft ekki annað en að hugsa um eitthvað og þá kemur rétt auglýsing. Um það leiti sem ég var alveg að bugast á hárinu og var farin að íhuga alvarlega að klippa það stutt, sá ég auglýsingu um Keratin hársléttun frá Hárnýjung hárstúdíó í Kópavogi. Ég þekki nokkrar sem höfðu farið í svona og allar mjög ánægðar. Ég hafði samt litla trú á því að þetta virkaði fyrir mig. Ég er með svo þykkt og liðað hár. Í sumar lenti ég í því að niðurfallið á vaskinum stíflaðist og ég þurfti að fá pípara.  Sjúkdómsgreiningin var einföld. Niðurfallið er stútfullt af dökkum löngum hárum.  Svo horfði hann pínu ásakandi á mig, eins og ég ætti einhvern hlut að máli.  Ég ákvað að láta slag standa og pantaði mér tíma í hársléttun. 3 vikum seinna er hárið ennþá mjög fínt og viðráðanlegt. Áður tók það mig klukkutíma að fá það nokkuð gott, núna tekur það 6,47 mínútur (já ég tók tímann) og það er eins allan daginn.  Alveg eins frá því að ég fer út að morgni og þar til ég kem heim að kvöldi. Ég veit að það er eins allan daginn því ég spurði strákana mína hvernig hárið á mér væri. „Mamma, það er alveg eins og í gær“, akkúrat, alveg eins. Meira að segja þegar ég vakna daginn eftir sundæfingu þá lít ég ekki út fyrir að hafa lent í fellibyl, þarf bara rétt að renna fingrunum í gegnum hárið á mér og það er alveg eins og í gær. Líklega ein besta fjárfesting sem ég hef farið út í á ævinni. 

Þú átt bara eitt líf

Þegar ég var tólf ára, átti ég tvær ömmur, tvo afa, tvær langömmur og tvo langafa. Þegar ég var tvítug átti ég eina ömmu og einn afa. Þegar þú eldist áttar þú þig á því að það er aldrei til nógu mikið af myndum. Minnið er nefninlega ansi hverfult og myndir hjálpa til að muna mikilvægu augnablikin. Þessi mynd af langafa, afa, pabba og Rikka bróður er svo mikilvæg því ég held að þetta sé eina myndin sem er til af þeim fjórum. Í febrúar 2017 greindist Rikki eldri bróðir minn með magakrabbamein. Hann tók þessu af miklu æðruleysi og ákvað að sigra krabbann sem hann gerði ári seinna. Hann átti nefnilega ýmislegt ógert og eitt af því var að mæta í útskriftina hjá Guðrúnu Þóru dóttur sinni sem útskrifaðist með master í fornleifafræði í janúar 2018. Þetta var erfið meðferð og í ferlinu þurfti að taka magann úr honum. Hann þurfti að læra að borða upp á nýtt og allskonar matur varð allt í einu á bannlistanum hjá honum. Það varð ekkert annað í boði en að aðlaga sig að nýjum lífstíl og hann gerði það meistaralega vel. Í febrúar 2019 tók krabbameinið sig upp aftur og að þessu sinni ólæknandi. Þegar hann hringdi til að segja mér það ákvað ég að taka ískalt mat á lífið og tilveruna. Hver er ég? hvert vil ég stefna? hvað vil ég gera og hver vil ég verða?  Þessi frasi, þú átt bara eitt líf er svo hárréttur. Ég ákvað að lífið væri núna og ég ætlaði ekki að láta ótta stjórna mínum upplifunum lengur. Hætta að láta óttann koma í veg fyrir að ég næði mínum markmiðum og að ég gæti gert það sem ég vildi. Ég vildi ekki vakna upp eftir 5 ár eða 10 ár og hugsa, ég vildi óska þess að ég hefði ....

Í staðinn fyrir að sleppa einhverju af því að ég væri svo hrædd við að prófa skildi ég finna út úr þessu. Ég hendi mér ítrekað út í djúpu laugina vegna þess að ég get það. Vegna þess að við eigum bara eitt líf.  Rikki bróðir lést þann 19. nóvember s.l. eingöngu 52 ára að aldri.  Hann átti heilmikið eftir ógert og allt í einu er þetta tekið af þér. Allt í einu getur þú ekki stjórnað ferðinni þinni. Það er engar samningaviðræður eða reset lengur. Nokkrum dögum áður en hann dó sagði ég honum að ég væri að hugsa um að keppa í þríþraut en væri frekar rög við að skrá mig. Væri ekki alveg viss um að ég myndi ráða við þetta, að ég væri ekki nógu góð. Hann sagði, ég vildi óska þess að ég hefði orku til að ganga í vinnuna. Hann var fæddur í desember 1966, ég er fædd í febrúar 1969.  Sigrún Tinna dóttur mín sagði við mig.  Þegar ég verð 12 ára þá verður þú jafngömul og Rikki þegar hann dó.  Málið er að við vitum aldrei hvað við fáum langan tíma og því enn mikilvægara að nýta þennan tíma sem við fáum og lifa til fulls.  Ekki líta til baka með eftirsjá eftir öllu sem við gerðum ekki. Rikki fékk tækifæri til að skipuleggja sína hinstu kveðju og hún var sannarlega í hans anda. Forspilið var Bubbi og Dimma.

Ég er mjög heppin að krakkarnir styðja mig 150% í þessu brölti mínu og þau leggja helling á sig til að þetta gangi upp.  Kærastinn styður mig líka.  Ég veit að það er ekki sjálfgefið að fjölskyldan styðji svona mikið við bakið á þér og það sem ég er þakklát fyrir þau öll. Krakkarnir þekkja nefnilega muninn á gömlu mér og nýju mér og lífið er einfaldlega betra og skemmtilegra fyrir alla í dag.

Það er ekki eigingirni að setja sjálfa sig og heilsuna í forgang því ef hún er farin þá er svo ótrúlega lítið eftir og lífsgæðin eftir því.  Við eigum bara eitt líf.View this post on Instagram

“Everything is possible. The impossible just takes longer.” – Dan Brown This is my plan for December. 2 years ago I could not even imagine doing half of what I‘m doing now.  In just 2 years I have gained a new life. A life that is full of endless possibilities because now I know that the only limit is the one my mind tells me. You can do what ever you want, only if you want it enough Æfingaplanið mitt fyrir desember. Fyrir 2 árum hefði ég aldrei getað ímyndað mér að ég gæti gert brot af því sem ég hef gert. Á 2 stuttum árum hef ég eignast nýtt líf. Líf sem er svo spennandi og fjölbreytilegt vegna þess að ég veit núna að einu takmörkin sem ég hef eru þau sem ég set mér sjálf. Þú getur gert allt sem þú vilt, bara ef þú vilt það nógu mikið #comfortzone #completefreedom #beaccountable #becauseican #justonelife #justdoit✔️

A post shared by Ásdís Ósk Valsdóttir (@asdisoskvals) on Dec 1, 2019 at 3:28am PSTmbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert