„Útivist langbesta leiðin til að losna við streitu“

Hafþór Snjólfur þekkir Víknaslóðir og landið þar í kring betur …
Hafþór Snjólfur þekkir Víknaslóðir og landið þar í kring betur en margir aðrir.

Hafþór Snjólfur Helgason landfræðingur segir að útivist og göngur séu að sínu mati langbesta leiðin til að losa um streitu og andleg þyngsli. Í viðtalinu talar hann um fegurð m.a. Víknaslóða og hugmyndina að baki gönguleiða á þessum stað. 

Hafþór er í stjórn Ferðamálahóps Borgarfjarðar eystra sem heldur utan um merkingar og markaðssetningu á göngusvæðinu Víknaslóðum. Hann er alinn upp í Borgarfirði eystra og hefur verið að ganga um svæðið alla sína ævi.

„Ég fór upphaflega að starfa fyrir Ferðamálahópinn árið 2009 eftir andlát föður míns, Helga Magnúsar Arngrímssonar. Hann var lengi formaður Ferðamálahópsins og var einn af aðaldrifkröftum í merkingu gönguleiða á Víknaslóðum, og Austurlandi öllu. Ég tók í raun við vinnu hans að mörgu leyti fyrir Ferðamálahópinn og svo hefur verkefnið og umfangið aukist með hverju árinu.“

Víknaslóðir njóta vinsælda vegna landslags og náttúrufegurðar sem er einstök …
Víknaslóðir njóta vinsælda vegna landslags og náttúrufegurðar sem er einstök að margra mati.

Hvað getur þú sagt mér um vinsældir Víknaslóða?

„Víknaslóðir og Dyrfjallasvæðið með Stórurð njóta vinsælda umfram allt vegna landslags og náttúru. Þetta er jaðarsvæði á Íslandi, sem þýðir að hér ertu að upplifa þig nokkuð einan með náttúrunni. Leiðarkerfi merktra leiða nær yfir 150 km og er net fjölbreyttra leiða og ólíkra. Hér er göngufólk ekki endilega að ganga eina fyrirfram ákveðna leið, heldur velja menn leiðir milli skála eftir veðri og erfiðleikastigi. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs á skála í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði og eru þeir rómaðir fyrir góðan aðbúnað og frábæra staðsetningu. Svæðið býður upp á mjög mikla landfræðilega fjölbreytni. Hér er gengið um gríðarstóra forna megineldstöð og það þýðir að hér er mikið af ljósum líparít- og flikrubergsfjöllum, í bland við hin meira þekktu austfirsku og hraunlagaskiptu basaltfjöll. Dyrfjöllin og svæðið kringum þau er svo ævintýri líkast og á sér enga hliðstæðu á Íslandi. Þar er Stórurð helsta djásnið. Þar hvíla risavaxin þursa- og móbergsbjörg úr hlíðum Dyrfjalla á víð og dreif og fylla þannig dalbotn Urðardals sem liggur undir Dyrunum héraðsmegin. Inn á milli bjarganna eru svo rennisléttir setbalar og fagurgrænar jökulár og lækir. Þessi fjölbreytileiki landslags ásamt góðum innviðum er aðalástæða vinsælda Víknaslóða.“

Íslensk náttúra í allri sinni fegurð.
Íslensk náttúra í allri sinni fegurð.

Samvinnan skiptir miklu máli

Víknaslóðir til framtíðar er verkefni sem Ferðamálahópurinn hefur verið að vinna að í samstarfi við Ferðafélag Fljótsdalshéraðs frá árinu 2017.

„Mikil samvinna hefur verið á milli þessara tveggja félaga í mörg ár. Verkefnið kom til á þann hátt að orðin var ákveðin óvissa um heildarástand göngusvæðisins, þ.e. ástand stika og merkinga, ástand stíga og ástand náttúru þar sem stígarnir fara um. Farið var í stefnumótun um svæðið og var rauði þráðurinn í því að tryggja sjálfbærni svæðisins sem göngusvæðis. Ferðafélagið og ferðamálahópurinn ákváðu því að safna styrkjum til að ráða landvörð svo hægt væri að gera formlega og faglega ástandsúttekt á svæðinu en einnig tala við landeigendur um þeirra viðhorf gagnvart göngusvæðinu því flestar gönguleiðirnar eru um einkalönd, tala við leiðsögumenn og skálaverði og leggja spurningalista fyrir gesti. Landvörður mætti á svæðið sumarið 2018 og fór í afar vel heppnaða úttekt sem skilaði okkur ómetanlegum upplýsingum um ástand svæðisins.

Þessa ljósmynd tók Hafþór Snjólfur af eiginkonu sinni í fallegu …
Þessa ljósmynd tók Hafþór Snjólfur af eiginkonu sinni í fallegu veðri á göngu um Víknaslóðir.

Ákveðið var að halda áfram sumarið 2019. Landvörður kom aftur til starfa og nú tveir. Þeir nýttu ástandsskýrsluna til að vinna sín verk, settu upp göngubrýr, upphafsmerkingar, endurstikuðu, færðu eina gönguleið sem var orðin illa farin og gerðu einnig úttekt í Stórurð sem er innan Víknaslóða og vinsælasta gönguleiðin. Í sumar verður svo farið aftur af stað. Landverðir koma í lok júní og nú verður farið í endurbætur í Stórurð. Það þarf að stika allt upp á nýtt, setja upp merkingar til að stýra betur gestum og færa gönguleið á einum stað auk þess sem önnur störf innan Víknaslóða verða unnin.“

Ástæðan fyrir að fólk heillast að Víknaslóðum er hversu ósnert …
Ástæðan fyrir að fólk heillast að Víknaslóðum er hversu ósnert náttúran er.

Hafþór segir mikið gæðastarf hafa verið unnið á síðastliðnum tveimur árum, með stuðningi ýmissa aðila.

„Við höfum fengið styrki í verkefnið frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Umhverfisstofnun, Fljótsdalshéraði, Borgarfjarðarhreppi, Alcoa, Arion banka, Landsbankanum, Landsneti, Brothættum byggðum og Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Það er nokkuð sérstakt að frumkvæði að landvörslu komi frá félagasamtökum eins og ferðafélaginu og ferðamálahópnum en það skiptir okkur miklu máli að Víknaslóðir séu gæðaferðamannastaður með sjálfbærni að leiðarljósi. Við viljum með þessu verkefni sýna að það er hægt að taka þetta frumkvæði, þ.e. að hefja landvörslu í samstarfi við landeigendur og sveitarfélög, og viljum við því vera fyrirmynd annarra að feta sömu leið. Þess má geta að félögin tvö fengu styrk frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands fyrir að setja umhverfi og náttúru Víknaslóða í forgang með landvörslu.“

Húsin og náttúran í sinni fallegu mynd.
Húsin og náttúran í sinni fallegu mynd.

Ósnert náttúran heillar

Hvað kom til að þú fórst að starfa við það sem þú gerir?

„Áhugi á útivist og að upplifa náttúru heimasvæðisins sífellt upp á nýtt í gegnum komu nýrra gesta er það sem hefur drifið mig áfram.

Útivist og göngur eru að mínu mati langbesta leiðin til þess að losa um streitu og andleg þyngsli.“

Spurður um svæðið og af hverju það er áhugavert segir Hafþór það vera vegna þess hversu ósnortið það er.

Lundar á góðum degi.
Lundar á góðum degi.

„Hér er ekki stundaður massatúrismi. Á Borgarfirði er þar að auki að finna fjölbreytta þjónustu og afþreyingu fyrir hópa og einstaklinga. Gert hefur verið mjög vandað gönguleiðakort af Víknaslóðum og viljum við meina að þetta sé eitt best skipulagða göngusvæði landsins. Frá Borgarfirði eystra er hægt að velja um dagsgöngur, t.d. í Brúnuvík sem er víkin næst Borgarfirði og einnig er mjög vinsælt að ganga í Stórurð. Fyrir þá sem vilja aðeins lengri göngu en dagleið er t.d. góð ferð að ganga yfir í Breiðuvík og gista þar í einum af skálum Ferðafélagsins og taka aðra leið til baka aftur til Borgarfjarðar. Svo ef fólk vill gefa sér nokkra daga í gönguferðina er hægt að ganga á milli allra þriggja skálanna á Víknaslóðum, sem er mjög skemmtileg og fjölbreytt hringleið um eyðivíkur og líparítfjöll. Aðbúnaður í skálum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs er mjög góður, skálaverðir sinna skálum og gestum þeirra yfir sumarmánuðina og svo er mikið nostrað við þá á hverju vori fyrir opnun. Okkur sem stöndum að þessu svæði þykir mjög vænt um það og þó að við tökum fleiri gestum fagnandi viljum við fyrirbyggja að svæðið beri skaða af fjölgun ferðamanna og þess vegna viljum við halda úti landvörslu á svæðinu.“

Náttúran er eitt fallegasta listaverkið að mati margra.
Náttúran er eitt fallegasta listaverkið að mati margra.
Það er fátt sem toppar ósnert landslagið yfir sumartímann.
Það er fátt sem toppar ósnert landslagið yfir sumartímann.
Hafþór Snjólfur með hópi á leið á Dyrfjöll.
Hafþór Snjólfur með hópi á leið á Dyrfjöll.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »