Best geymda leyndarmál Akraness

Guðlaug er við Langasand á Akranesi. Laugin var opðun í …
Guðlaug er við Langasand á Akranesi. Laugin var opðun í desember 2018. Ljósmynd/Facebook

Í desember 2018 var Guðlaug á Langasandi opnuð formlega. Um er að ræða útsýnispall, heita laug og grynnri laug sem hannað var af Basalt arkitektum. Þeir sem elska að fara í sjósund ættu alls ekki að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara. Hægt er að baða sig í lauginni og fara svo í sjóinn til að hressa sig við. 

Útsýnið úr Guðlaugu er stórfenglegt en það er út á Faxaflóann og þegar skyggni er gott sést til Reykjavíkur. 

„Hugmyndin fyrir Guðlaugu kviknaði út frá dældum sem myndast umhverfis steina á sandinum, þannig myndast litlar náttúrulegar „laugar“ í flæðarmálinu. Þessa hugmynd tókum við svo áfram og formuðum mannvirki á þremur stöllum í sjóvarnargarðinum sem hver og einn hverfist um stakan stein líkt og á ströndinni. Efst er útsýnispallur sem vísar til skipsstafns, í miðjunni er laugin sjálf, þaðan nýtur útsýnis út á hafið og skjóls frá pallinum fyrir ofan, neðst er svo laug þar sem sjórinn og vatnið frá lauginni fyrir ofan blandast,“ segir Hrólfur Karl Cela, arkitekt hjá Basalt arkitektum. 

„Forsaga Guðlaugar á sér rætur að rekja til ársins 2014 þegar Minningarsjóður Jóns Gunnlaugssonar úrvegsbónda og Guðlaugar Gunnlaugsdóttur húsmóður frá Bræðraparti á Akranesi var formlega slitið en sjóðurinn var stofnaður árið 1969. Stjórn minningarsjóðsins ákvað þar að ráðstafa samtals 14 m.kr. til uppbyggingar á heitri laug við Langasand ásamt öðrum styrkjum til samfélagsins á Akranesi að verðmæti 54 m.kr. í reiðufé og lóðum að verðmæti 66 m.kr. Tilgangur með stofnun sjóðsins var að efla mannlíf og samfélag á Akranesi og veita ungum fátækum námsmönnum á Akranesi styrki til náms sem tengdist sjávarútvegi. Með breyttum aðstæðum og atvinnuháttum á Akranesi sóttu færri um styrk úr sjóðnum en stofnendur hugðu upphaflega. Það var því einróma samþykkt í stjórn sjóðsins að leggja sjóðinn niður og ráðstafa stærstum hluta hans til málefna tengdra slysavörnum og samfélagsmálum á Akranesi. Í kjölfar styrkveitingarinnar var settur á laggirnar starfshópur skipaður af Sigurði Páli Harðarsyni, sviðstjóra skipulags- og umhverfissviðs, Elínu Sigrúnu Jónsdóttur, barnabarni Gunnlaugs og Guðlaugar, Írisi Reynisdóttur, þáverandi garðyrkjustjóra, og Haraldi Sturlaugssyni. Hlutverk starfshópsins var að útfæra verkefnið um uppbyggingu á heitri laug á Langasandi og skilaði starfshópurinn af sér tillögu á haustmánuðum ársins 2015,“ segir á vefnum Akranes.is 

Ókeypis er inn í Guðlaugu og er laugin opin á miðvikudögum og föstudögum frá 16-20 og laugardaga og sunnudaga frá 10-15. 

Ljósmynd/Facebook
Ljósmynd/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert