Eitt fegursta svæði á Íslandi

„Snemma varð ljóst að í Friðlandinu að Fjallabaki væru fólgin ein mestu náttúrauðæfi Íslands. Allt ber þar að sama brunni, einstök jarðsaga, óvenjulegar jarðminjar á heimsmælikvarða, hraðfara landmótun og einstök náttúrufegurð kallar á verndun,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands.

Ólafur Örn er höfundur árbókar Ferðafélags Íslands 2010 um Friðland að Fjallabaki og vinnur nú að ritun árbókar FÍ 2021 um Laugaveginn og nærumhverfi hans. „Gildi svæðisins er einnig mikið vegna þess hve lítt raskað það er þrátt fyrir mannanna umsvif í ferðamennsku, útivist og sauðfjárbeit. Friðlandið að Fjallabaki var friðlýst 1979 og segja má að hert hafi verið á vernduninn með niðurstöðu sem fram kom í rammaáætlun um nýtingu og vernd svæða,“ segir Ólafur.

Gönguleiðin um Laugaveginn frá Landmannalaugum til Þórsmerkur liggur um afar margbreytilegt svæði sem í meginatriðum nær frá Markarfljóti í vestri og að Mýrdalsjökli í austri. Skipta má þessari stóru landspildu í þrennt og eru þeir hlutar gerólíkir að allri gerð í jarðminjum, landmótun og ásýnd.

Þessir ólíku hlutar eru meðal þess sem gerir göngu um Laugaveginn svo áhugaverða og fjölbreytilega. Nyrsti hlutinn er innan Torfajökulsöskjunnar, annar hlutinn er jökulmótaða svæðið frá Álftavatni fram til Fremri Emstruár og sá þriðji er Þórsmerkursvæðið og norður af því.

„Stærsta og litríkasta líprítsvæði Íslands er í öskju Torfajökuls. Hún er sporöskjulaga og er þvermál hennar 16 km frá austri til vesturs og 12 km frá norðri til suðurs. Gönguleiðin sem heitir Laugavegur liggur þvert í yfir öskjuna frá norðri til suðurs. Nokkur af ytri mörkum öskjunnar eru um Hábarm, Kaldaklofsfjöll, Ljósártungur og Mógilshöfða en svo vill til að norðurbarmur öskjunnar blasir við augum í Landmannalaugum. Hann er litríki og sveigmyndaði líparíthryggurinn, Norðurbarmur, handan Jökulgilskvíslar en stórt op er þarna á öskjubarminum þar sem kvíslin rennur til norðurs Það er í raun skarðið sem bílvegurinn til Lauga liggur um,“ segir Ólafur Örn en hann var ungur drengur þegar hann byrjaði að ferðast um Friðlandið með foreldrum sínum í kringum 1960 og þekkir svæðið betur en flestir.

Innan öskjunnar eru leifar mikillar eldstöðvar sem er um 400-500 þúsund ára gömul. Hún féll saman og er nú fyllt að mestu af líparítmulningi. Á nokkrum stöðum við jaðra öskjunnar standa myndarleg líparítfjöll m.a. Laufafell, Rauðufossafjöll, Kirkjufell, Illihnúkur og Torfajökull (sjá Árbók FÍ 2010 kafli um náttúrufar bls. 19). Þessir stapar mynduðust í gosum fyrir um 70 þúsund árum á síðasta ísaldarskeiði og eru hluti af jarðmyndun öskjunnar. Við austurbarm öskjunnar er skarð milli Hábarms og Torfajökuls og er þar hentugasta leiðin til Muggudala og Strútslaugar ef ekki er valið að fara yfir jökulinn.

„Vert er að taka eftir hversu Torfajökulsaskjan er hálendari en landsvæðin í nágrenni þess. Þetta ásamt litríki og fögru landslagi ber skýran vott um hversu einstakt landið er. Hið forna eldfjall hefur verið mun hærra áður en það féll saman. Landið í Torfajökulsöskjunni er hvað lægst á norðursvæðinu en nær mestri hæð á svæðinu við Hrafntinnusker. Landmannalaugar eru í um 600 m hæð og Frostastaðavatn 572 m. Hryggir giljanna í miðri öskjunni eru í 700-900 m hæð yfir sjó. En nokkur fjöll eru hærri. Meðal þeirra eru Hrafntinnusker 1.147 m, Háalda 1.128 m, Skalli 1.027 m, Söðull 1.132 m, Reykjafjöll 1.165 m Bláhnúkur 945 m. Þegar kemur suður af brún öskjunnar við Jökultungur norðan Álftavatns lækkar landið snarlega og er Álftavatn í 549 m hæð,“ segir Ólafur Örn. Hæðarmunurinn er líka mikill vestan megin öskjunnar en þar er hæðarlækkunin við Ljósártungur. Nærri jaðri þeirra er landið í tæpum 600 metrum við vaðið á Markarfljóti sunnan Laufafells.

Árbók FÍ 2021 tekur til svæðis sem í megindráttum nær frá Hrafntinnuskeri til Þórsmerkur. Austurmörk svæðisins eru við Torfajökul og vesturjaðar Mýrdalsjökuls. Vesturmörk eru að stærstum hluta við Markarfljót. Árbókin nær einnig til Fimmvörðuháls og afmarkast þá af gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls. Sérstakur kafli mun fjalla um náttúrufar, jarðfræði, gróðurfar og dýralíf. „Ferðafélagið hefur starfað mjög lengi á svæðinu og verið frumkvöðull í allri uppbyggingu, meðal annars á Laugaveginum. Því lá það beint við að félagið myndi skrifa árbók um þessa vinsælu gönguleið og og leiðir út frá henni, sem falla undir að að vera dagsferðir, morgun- eða kvöldgöngur,“ segir Ólafur. Hann situr í nefnd á vegum Umhverfisstofnunar sem nú hefur lagt fram verndar- og stjórnunaráætlun fyrir Friðlandið. „Þetta svæði er svo einstak á marga vegu að það er mikilvægt að vernda það og stýra allri umferð til ganga ekki á auðlindina. Það sýnist mér að hafi tekist vel í þessari vinnu sem UST hefur leitt og birtist í verndaráætluninni,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands.

Jón Örn Guðbjartsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert