Göngum vel um landið: Umgengni í náttúru Íslands

Hvernig á að ganga um náttúruna?
Hvernig á að ganga um náttúruna? Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

Gera má ráð fyrir mikilli umferð landsmanna um Ísland í sumar. Í kjölfar Covid-19 verða ferðalög á milli landa takmörkuð um tíma og fleiri landsmenn munu ferðast innanlands. Mikil umferð ferðamanna veldur miklu álagi á náttúru landsins og vinsæla ferðamannastaði. Þegar lagt er í ferðalag um landið er að mörgu að hyggja. Ferðafélag Íslands hvetur alla ferðamenn til að ganga vel um náttúru landsins. Sérstök ástæða er til að forðast gáleysislega umgengni hér á landi. Gróðursvæði eru víða viðkvæm og íslenskur jarðvegur er grófur, laus í sér og auðrofinn. Sár eru lengi að gróa vegna stutts vaxtartíma gróðurs auk þess sem vatn og vindar geta aukið á rof í sárum.

Með því að leggjast á eitt getum við verndað náttúru og ásýnd landsins og tryggt að fólk fái notið fegurðar landsins til framtíðar. Göngum frá áningarstað eins og við viljum koma að honum. Tökum rusl með til byggða. Virðum eignarrétt og göngum vel um girðingar og hlið. Truflum ekki dýralíf með óþarfa ágangi. Sýnum tillitssemi við ólíkar tegundir ferðamennsku. Engin tegund ferðamennsku er öðrum æðri og enginn hefur rétt til yfirgangs. Höfum hugfast að skemmdir á jarðmyndunum verða ekki bættar.

Virðum friðlýsingarreglur og tilmæli landvarða.
Virðum friðlýsingarreglur og tilmæli landvarða. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

Í lögum um náttúruvernd eru ákvæði sem fjalla um almannarétt, umgengni og útivist. Þar segir að öllum sé heimilt að fara um landið og njóta náttúru þess svo fremi að gengið sé vel um og þess gætt að spilla engu. Heimilt er að fara um óræktuð eignarlönd án sérstaks leyfis. Rétthöfum lands er heimilt að takmarka með merkingum ferðir manna um eignarlönd. Lönd í eigu ríkisins, svo sem náttúruverndar- og skógræktarsvæði, eru öllum opin með fáum undantekningum. Hægt er að takmarka umferð tímabundið, svo sem yfir varptíma eða vegna gróðurverndar.

Náttúruverndarsvæði eru friðlýst af mismunandi ástæðum. Reglur, t.d. um veiðar og umferð, eru breytilegar milli einstakra svæða og því mikilvægt að ferðamenn afli sér nauðsynlegra upplýsinga. Virðum friðlýsingarreglur og tilmæli landvarða. Sumir ferðamenn leita á náðir náttúrunnar til að finna frið og ró en aðrir sækja þangað ævintýri og spennu. Með auknum straumi ferðamanna er viðbúið að leiðir þessara hópa skarist í auknum mæli. Sýnum tillitssemi við aðra á ferðum okkar svo komist verði hjá árekstrum.

Ferðafélag Íslands hvetur félagsmenn og landsmenn alla til að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt. Einnig ber að sýna landeiganda og öðrum rétthöfum fulla tillitssemi og virða hagsmuni þeirra.

Sumarnóttin í Stakkadal.
Sumarnóttin í Stakkadal. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

Akstur

Ökum ekki utan vega. Ökutæki getur markað sár í landið sem erfitt er að afmá. Leyfilegt er að aka utan vega þegar jörð er snævi þakin og frosin.

Gönguferðir

Heimilt er að fara gangandi um óræktað land. Styttum okkur ekki leið yfir afgirt land, tún eða einkalóðir og virðum reglur um umferð á svæðum þar sem verið er að vernda dýralíf og gróður. Fylgjum merktum göngustígum. Stígarnir eru gerðir til þess að auka öryggi fólks og vísa því rétta leið og draga úr álagi á viðkvæma náttúru.

Landeigendum ber að tryggja að ferðamenn komist meðfram vatnsbökkum og strönd og eftir þjóðleiðum og skipulögðum stígum. Við farartálma skulu vera prílur eða hlið. Umferð um vötn og ár er háð leyfi rétthafa. Vatnsbakkar og hólmar eru oft mikilvæg búsvæði og því ber að ganga þar um af gætni.

Hjólreiðar

Hjólandi fólki ber að fylgja vegum og reiðhjólastígum þar sem þess er kostur. Sumir göngustígar eru ekki til þess gerðir að hjólað sé á þeim og þar er umferð reiðhjóla takmörkuð. Gætum þess að fara ekki illa með gróður og eyðileggja ekki yfirborð stíga þar sem farið er um.

Útreiðar

Hestamönnum ber að fylgja reiðstígum. Hugum að jarðvegi og gróðri á ferð utan reiðstíga. Í hálendisferðum ber að hafa fóður meðferðis. Næturhólfum skal valinn staður á ógrónu landi. Sérstaka gát ber að sýna við stóðrekstur.

Nokkur góð varðandi umgengni í náttúrunni:

Göngum ávallt frá áningarstað eins og við viljum koma að honum.

Skiljum ekki eftir rusl á víðavangi né urðum það.

Kveikjum ekki eld á grónu landi.

Rífum ekki upp grjót né hlöðum vörður að nauðsynjalausu.

Spillum ekki vatni, né skemmum lindir, hveri eða laugar.

Sköðum ekki gróður.

Truflum ekki dýralíf.

Skemmum ekki jarðmyndanir.

Rjúfum ekki öræfakyrrð að óþörfu.

Ökum ekki utan vega.

Fylgjum merktum göngustígum þar sem þess er óskað.

Virðum friðlýsingarreglur og tilmæli landvarða

Ferðafélag Íslands óskar landsmönnum gleðilegs ferðasumars.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert