Fullkomin ganga: Fossaparadísin Brynjudalur

Valgerður Húnbogadóttir að elda mat á göngu um Brynjudal.
Valgerður Húnbogadóttir að elda mat á göngu um Brynjudal.

Innst í Hvalfirði eru tveir dalir, Botnsdalur og Brynjudalur. Botnsdalur hefur löngum laðað göngugarpa að til að skoða Glym og ganga Leggjabrjót. Við hlið Botnsdals liggur Brynjudalur en hann er afar fáfarinn og góðar líkur eru á að göngugarpar sem þangað leggja leið sína hafi dalinn út af fyrir sig. 

Ef keyrt er frá Reykjavík er beygt inn til hægri við skilti merkt Brynjudalur, innst í Hvalfirði. Þaðan liggur vegur inn dalinn, að skógræktinni, en þar eru góð bílastæði. Brynjudalurinn hefur upp á margt að bjóða fyrir alla aldurshópa. Hægt er að eyða deginum með börnunum í skógræktinni, en við bílastæðið er að finna kort af skóginum.

Skemmtilegast er án efa að ganga inn allan dalinn og fylgja Brynjudalsánni inn í Þrengslin en þar er hæsti foss Brynjudals og er ónefndur. Sú leið er ómerkt og þarf í raun að ganga í áttina að innsta fossinum sem sést greinilega við upphaf göngu. Í byrjun er hægt að fylgja stíg neðan við skógræktina við enda bílastæðisins en eftir það þarf að fylgja kindaslóðum. Gengið er með Brynjudalsá á hægri hönd og yfir nokkra læki. Leiðin liggur framhjá mörgum fossum og giljum en fossarnir eru allir nafnlausir. Innsti hluti dalsins er þó ekki æskilegur fyrir börn og óvana en sá hluti er brattur og jarðvegurinn laus. Fossarnir á þessari leið eru hver öðrum fegurri. Leiðin fram og til baka er um sjö kílómetrar. Leiðin er fjölbreytt og getur á köflum minnt á gönguleiðir á hálendinu enda stórkostleg gil og flúðir í dalnum. Gangan er því kjörin til að prófa göngubúnað fyrir meira krefjandi göngur á hálendinu.

Einnig er hægt að ganga upp Brynjudalinn og yfir í Botnsdal frá sama upphafsstað. Sú leið er ekki krefjandi og má gera ráð fyrir að hún taki um fjóra klukkutíma. Þá þarf að koma fyrir bílum á báðum stöðum, á bílastæðinu við skógræktina í Brynjudal og bílastæðinu við gönguleiðina að Glym. Þá er gengið inn í skógræktina og upp dalinn vinstra megin. Gengið er með Þórisgili upp úr Brynjudal og yfir í Botnsdal. Þessi hluti leiðarinnar er ómerktur. Þegar komið er upp úr Brynjudal má sjá síðasta hluta Leggjabrjóts. Þeim stíg er síðan fylgt niður að bílastæðinu í Botnsdal. Sá hluti leiðarinnar liggur einnig framhjá mörgum fallegum litlum fossum. Hvalfjörðurinn er svo sannarlega fossaparadís.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert