Veiga stefnir að því í sumar að verða fyrsta íslenska ...
Veiga stefnir að því í sumar að verða fyrsta íslenska konan til að róa í kringum Ísland á kajak. Ljósmynd/ÁgústAtlason

Rær á móti straumnum

Að róa á móti straumnum er nokkuð sem Veiga Grétarsdóttir er orðin þjálfuð í. Hún ætlar að fara í kringum Ísland á kajak í sumar. Veiga vildi frekar deyja en að lifa áfram sem karlmaður.

Veiga fæddist í karlmannslíkama, fædd og uppalin á Ísafirði þar sem hún átti góða æsku og marga vini. Hún er nýflutt aftur í sinn gamla heimabæ þar sem hún vinnur sem stálsmiður og leiðsögukona. Hún stefnir að því í sumar að verða fyrsta íslenska konan til að róa í kringum Ísland á kajak. Ísland þykir eitt af þeim löndum í heiminum þar sem sú áskorun er hvað erfiðust. En það er einmitt ástæða þess að Veiga ætlar í róðurinn. Hún þekkir það að sigla á móti straumnum. Það er eitthvað í augum hennar sem sýnir að hún hefur sigrast á sjálfri sér. Að hafa fyrir lífinu virðist henni í blóð borið. Kona sem þurfti að hafa fyrir því að fá líkama sinn leiðréttan.

Reyndi tvisvar að svipta sig lífi

Á tímabili sá Veiga ekki leið sem hún gæti farið til að halda áfram að lifa. Hún lýsir þessu tímabili í lífi sínu svona:

„Ég hef tvívegis reynt að svipta mig lífi. Ég hef farið niður í þannig þunglyndi að allt varð svart í kringum mig. Ég þurfti að takast á við mikla fordóma, en það voru aðallega sleggjudómar sem bjuggu innra með mér. Í raun má segja að ég hefði gefist upp hefði ég ekki ákveðið að taka þetta skref, að gangast við mér eins og ég er: Kona fædd í röngum líkama. Ég er þakklát fyrir það í dag að ég fór í leiðréttingu á líkama mínum. Ég vildi ekki lifa lengur í röngum líkama. Ég hafði ekki val.“

Veiga var ung að aldri þegar hún uppgötvaði að hún var ekki eins og hinir strákarnir. Hún man eftir að hafa laumað sér í kvenmannsföt einungis 11 ára að aldri. Þegar hún var unglingur var hún eins og alkóhólisti að fela áfengið sitt að eigin sögn. Hún faldi kvenfötin í húsgögnum sem hún hafði tekið í sundur. Hún segir að þessum feluleik hafi fylgt mikil skömm og niðurbrot.

Tímabil afneitunar

„Þegar ég komst af unglingsaldri skilgreindi ég mig í fyrstu sem klæðskipting, en það var ekki eins og ég færi út um allt að segja frá því. Ég hef verið í tveimur löngum samböndum við konur sem ég elskaði. Með fyrri barnsmóður minni eignaðist ég yndislegan son, en hún gat ekki sætt sig við þessa þörf mína fyrir að klæða mig í kvenmannsföt svo það samband endaði.“

Eftir skilnaðinn segist Veiga hafa tekið tímabil þar sem hún fór út oft sem stelpa. Síðan kynntist hún seinni barnsmóður sinni og læsti þennan hluta af sér inni í skápnum.

„Við Helga, seinni barnsmóðir mín, vorum brjálæðislega ástfangin. Við kynntumst án þess að hún vissi hver ég væri en fljótlega ákvað ég að vera heiðarleg við hana um hvað ég hafði verið að gera. Samband okkar var þannig að ég vissi að við elskuðum hvort annað skilyrðislaust. Ég náði að koma fram af heiðarleika miðað við allt sem ég vissi á þessum tíma. Seinna áttaði ég mig á því að það að tala um hlutina væri ekki meðalið við því sem var að hjá mér. Það reyndist í raun hættulegt heilsu minni að þrýsta tilfinningunum niður og bæla með mér þörfina. En það gekk upp í ákveðinn tíma.“

Var í sætum karllíkama

Veiga var í sætum karllíkama. Hún var eins konar karla-karl í augum þeirra sem þekktu hana náið enda reyndi hún markvisst að beita „karlalegum“ aðferðum til að lækna sig af því að vera kona. „Ég fékk mér skotleyfi, fór að veiða og gerði ýmislegt sem ég taldi myndi efla mig sem karlmann í þessu lífi. Á leiðinni heim af einu slíku skotvopnanámskeiði fór ég í nælonsokka og kjól og ég man hvernig það var hápunktur ferðarinnar. Þetta var afl sem varð ekki unnið með karlmennskunni einni saman. Það var nokkuð sem ég reyndi á eigin skinni.“

Veiga er í góðum tengslum við börnin sín tvö og fósturbarn sem hún eignaðist með seinni barnsmóður sinni. Hún er á því að börnin hennar séu númer eitt, tvö og þrjú í lífinu. Það var einmitt fyrir þau sem hún ákvað að finna leiðina til að lifa áfram, þótt hún gæti misst alla fjölskylduna í ferlinu. Hún vissi að ef þetta tækist myndi fólk sætta sig við leiðréttinguna þegar það sæi að þetta væri hennar eina lífsbjörg. Að þetta væri leiðin hennar til að lifa.

Seinni konan stóra ástin í lífinu

„Seinni konan mín er stóra ástin í lífi mínu. Hana langaði mig ekki að missa en hún er gagnkynhneigð, ég er samkynheigð. Við finnum leið á hverjum degi til að vera nánar vinkonur. Enda deilum við stórum hluta lífsins sem foreldrar dóttur okkar. Kannski er ástin einmitt þannig að hún frelsar en bindur ekki,“ segir Veiga og fellir stórt tár um leið og hún lýkur setningunni. Hún vonast til að geta talað um þetta einn daginn án þess að gráta.

Veiga segir að samkvæmt sinni bestu þekkingu sé talið að um 1% mannkyns sé í röngum líkama eða transfólk. Hún segir fagfólk hafa takmarkaða þekkingu á þessu sviði; þeir sálfræðingar sem hún hafi farið til hafi litla þekkingu á málefninu, kynleiðréttingarferlið sé þungt og flókið. Ekki ósvipað því kannski að róa í kringum landið.

Erfiðar áskoranir

„Að róa í kringum Ísland, sem þykir svipað því að ganga upp á K2-fjallið, er að mig grunar auðveldara en að fara í gegnum það sem ég hef farið í gegnum með kynleiðréttingunni. Að róa í kringum landið á kajak er bæði andlega og líkamlega erfitt. Það sama má segja um kynleiðréttingarferlið.“

Veiga starfar á veturna hjá Skaganum3X en á sumrin er hún leiðsögukona. Hún veit fátt yndislegra en að fara um landið með ferðamenn og kynna þeim allt það áhugaverða sem landið hefur upp á að bjóða. Hún kann vel við sig í náttúrunni með fólki.

Að róa á móti straumnum er nokkuð sem Veiga Grétarsdóttir ...
Að róa á móti straumnum er nokkuð sem Veiga Grétarsdóttir er orðin þjálfuð í. Ljósmynd/Ágúst Atlason

Veiga er mikill húmoristi og dugleg að sýna myndir af því sem hún hefur farið í gegnum. Hún bendir á mynd af sér fyrir kynleiðréttingaraðgerðina. Hún útskýrir að áhyggjusvipurinn sé tilkominn vegna þess að hún hafði áhyggjur af því að ekkert yrði úr aðgerðinni en ekki því sem hún fæli í sér.

Til marks um það hversu vel henni líður í dag bendir hún á kraftinn og viljastyrkinn sem einkennir hvern dag í lífi hennar. Hún hefur tekið mataræði sitt í gegn, hún er ekki „baggi á samfélaginu“ eins og hún segir sjálf, heldur lífsglöð viljasterk kona sem veit hvað hún vill og hvað hún vill ekki.

Heimildarmynd um róðurinn

Hvað viltu fá fram með róðrinum í kringum landið?

„Gerð verður heimildarmynd um róðurinn. Í gegnum þá mynd langar mig að ná til fólks utan landsteinanna líka. Mig langar að sýna að ég hef það sem þarf af því að ég hef gengið í gegnum ýmislegt sem hefur gert mig sterka. Mig langar að gefa fólki úti um allan heim hugrekki til að leysa úr sínum málum líka. Fá hugrekki í brjóstið til að segja við sig: „Ég er nóg“, líkt og ég gat og get sagt í dag. Því auðvitað er ég nóg.

Mig langar að safna peningum fyrir Pieta-samtökin, til að styðja við starfsemina þar svo þau geti haldið áfram að aðstoða fólk sem finnur ekki tilgang með lífinu lengur. Mig langar að sýna fólki fram á að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Þegar við getum sett eigin dómhörku til hliðar og gengist við því sem við erum. Þegar við getum labbað inn í aðstæður þar sem enginn skilur okkur, gefið fólki rými til að kynnast okkur betur og þannig náð með mínum krafti að minnka fordóma fyrir því sem er ókunnugt fyrir fólki.“

Dömubindi á sængina

Veiga á fleiri vini í dag en hún hefur nokkrun tímann átt. Ég hef auðvitað lent í því að gamall karlvinur ávarpi mig sem karlmann, það er ekkert mál, ég ávarpa hann þá bara sem konu sem er mjög fyndið og við hlæjum saman.

Ég var líka kölluð pabbi í fyrsta skiptið sem ég fór með dóttur minni í kvenmannssturtu, það var pínu óþægilegt en ótrúlega fyndið líka. Ég hef fengið dömubindi á sængina þar sem það var það eina sem góðum vini mínum datt í hug að mig vantaði eftir aðgerðina. Allt þetta eru gullmolar sem safnast í sarpinn. Fallega skrítnir hlutir sem eru þess virði að komist í dagsljósið.

Ég er ekki ein um að tilheyra þessari fyndnu veröld, þar sem við erum öll að reyna að fóta okkur saman í átt að tilgangi í lífinu. Ég geri mitt besta á hverjum degi og trúi því í hjartanu að allir aðrir geri það líka. Það gefur mér skilning og auðmýkt í garð þeirra sem vita ekki betur. Þeim býðst nú að kynnast konu eins og mér. Ég vona að þeir gefi sér tíma og leggi söfnuninni lið. Eins hvet ég alla til að koma á fyrirlestrana mína, sem verða á átta stöðum á ferð minni um landið.“