Gyða ferðaðist hringinn í kringum jörðina á 33 dögum

Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir fór nýverið í ævintýralegt ferðalag.
Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir fór nýverið í ævintýralegt ferðalag. Samsett mynd

Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir er mikil ævintýramanneskja og hefur ferðast víðsvegar um heiminn. Hún er nýkomin heim til Íslands eftir tæplega fimm vikna ferðalag með unnusta sínum, Heiðari Karlssyni, þar sem þau ferðuðust hringinn í kringum jörðina á 33 dögum. 

Gyða starfar sem vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni, en hún hefur á undanförnum árum verið dugleg að deila töfrandi myndum frá ferðalögum sínum á Instagram-reikningi sínum þar sem hún er með yfir 7.500 fylgjendur.

„Við höfum ferðast töluvert bæði um Asíu og Norður-Ameríku áður, en í þetta skiptið vorum við að heimsækja langflesta staðina í fyrsta skiptið. Þessi ferð er búin að vera á teikniborðinu lengi, en upphaflega ætluðum við í ferð mjög svipaða þessari á því herrans ári 2020. Það var því langþráður draumur að heimsækja þessa staði, og ferðin var algjört ævintýri,“ segir Gyða.

Gyða alsæl í veðurblíðunni, en hér er hún stödd í …
Gyða alsæl í veðurblíðunni, en hér er hún stödd í bátsferð á Filippseyjum.

Hvaða staði heimsóttuð þið?

Við byrjuðum á að fara til Abú Dabí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en þaðan flugum við svo til Maníla, höfuðborg Filippseyja. Við eyddum þó engum tíma þar heldur héldum ferð okkar og fórum næst til Coron sem er staðsett á Palawan svæðinu. Þar eyddum við nokkrum dögum, og fórum svo í framhaldi í þriggja daga siglingu um Palawan. Þar gistum við á eyðieyjum og vorum án margra þeirra þæginda sem maður telur vanalega sjálfsögð, eins og hefðbundins klósetts, sturtu og símasambands. Að lokinni siglingunni komum við til El Nido þar sem við eyddum seinustu dögunum okkar í Filippseyjum.

Því næst lá leið okkar til Hong Kong í Kína þar sem við kynntumst þeirri merkilegu borg. Þaðan flugum við svo til Osaka í Japan þar sem við eyddum nokkrum dögum áður en við fórum til Kýótó og svo þaðan til Tókýó. Því næst flugum við yfir daglínuna og alla leið til Honolulu í Hawaiifylki í Bandaríkjunum. Að lokum héldum við svo í heimátt og stoppuðum í bæði Los Angeles og New York áður en við komum aftur til Íslands.“

Frá Filippseyjum lá leið Gyðu til Hong Kong í Kína.
Frá Filippseyjum lá leið Gyðu til Hong Kong í Kína.

Hvernig valdir þú löndin sem þið heimsóttuð í ferðinni?

„Sum löndin hafa verið mjög lengi á óskalistanum mínum að ferðast til, og þá kannski sérstaklega Japan. Eftir að ég byrjaði að drekka Matcha-te árið 2016 fékk ég mikinn áhuga á Japan og japanskri menningu. Ég lærði meiraðsegja japönsku árið 2017 og hef verið heilluð af öllu því sem viðkemur Japan síðan þá.

Eftir að hafa ferðast um suðaustur Asíu og sérstaklega um Taíland þá höfðum við heyrt marga tala um Filippseyjar og fannst það mjög spennandi áfangastaður. Landfræðilega eru Filippseyjar og Japan ekki ýkja langt frá hvoru öðru, svo okkur fannst tilvalið að sameina þessa tvo staði í einni og sömu ferð. Hong Kong hentaði mjög vel til að taka á milli, og það voru líka mjög hagstæð flug bæði til og frá Hong Kong.

Þegar við skoðuðum svo á landakorti og sáum hvað við vorum komin langt í austurátt þegar við værum komin til Japan, þá var í raun ekki svo mikill munur á að fara austur eða vesturleiðina heim. Við ákváðum þá að slá til og fara heilan hring, og heimsækja annan stað sem hafði verið lengi á listanum í leiðinni – Hawaii!“

Gyðu hafði lengi langað að heimsækja Hawaii.
Gyðu hafði lengi langað að heimsækja Hawaii.

Hvernig skipulagðir þú ferðina og var það mikið mál?

„Að skipuleggja ferðalög er eitt af mínum helstu áhugamálum! Ég ætla alls ekki að ljúga því að það hafi ekki verið mikið mál, en mér finnst það mjög gaman. Það þarf hinsvegar ekki að vera svona mikið mál, en ég kýs að hafa flesta parta ferðarinnar frekar vel skipulagða. Ég er í grunninn mjög skipulögð svo það á vel við mig að plana svona ferðir, og ég hef gaman af því að grúska í hinum ýmsu vefsíðum í leit að upplýsingum.

Þegar ég set upp svona ferðir þá snýst þetta fyrst og fremst um að leita sér að eins miklum upplýsingum og maður mögulega kemst yfir, því með þeim getur maður tekið bestu ákvarðanirnar. Það þarf að gefa sér mikinn tíma í að leita, skoða, meta og svo ákveða. Oft er þetta líka ákveðið „trial & error“ þar sem maður prófar að setja hlutina upp eins og maður heldur að þeir ættu að vera, og prófar svo að breyta, snúa við, færa – þar til maður fær bestu niðurstöðuna. Þetta er langt ferli og mjög margt í ferlinu breytist á leiðinni. Að vera opin fyrir breytingum hefur oft skipt sköpum, og þannig finnst mér ég fá það besta út úr ferðalaginu.“

Gyða gefur lesendum góð ráð þegar kemur að því að …
Gyða gefur lesendum góð ráð þegar kemur að því að skipuleggja langt ferðalag!

Hvaða áfangastaður stóð upp úr í ferðinni?

„Mér finnst mjög erfitt að nefna bara einhvern einn því áfangastaðirnir voru svo ólikir og stóðu upp úr fyrir algjörlega ólika hluti. Filippseyjar stóðu upp úr fyrir náttúrufegurðina og fólkið. Náttúran sem við upplifðum var stundum ólýsanlega falleg, og okkur fannst líka mun minna af ferðamönnum en á öðrum stöðum í suðaustur Asíu. Við vorum oft nánast alein að njóta fegurðarinnar, sem er mjög sjaldgæft í öðrum löndum. Fólkið var líka algjörlega dásamlegt, og við höfum sjaldan kynnst annarri eins góðmennsku og hjálpsemi.“

Filippseyjar stóðu upp úr í ferðinni, enda upplifði Gyða ótrúlega …
Filippseyjar stóðu upp úr í ferðinni, enda upplifði Gyða ótrúlega náttúrufegurð þar.

„Japan stóð upp úr fyrir menninguna og matinn. Það var ákveðið menningarsjokk að koma til Japan, á góðan hátt! Það er svo ótrúlega margt þar sem er ólíkt okkar menningu og menningu Vesturlanda, og það var virkilega áhugavert að fá að upplifa það. Svo fékk ég að heimsækja Uji, bæinn þar sem nánast allt Matcha-te heimsins er ræktað. Það var virkilega skemmtilegt að koma þangað þar sem Matcha-te-drykkja var aðal ástæða þess að ég fékk þennan mikla áhuga á Japan.“

Osaka-kastalinn í Japan.
Osaka-kastalinn í Japan.

„Hawaii stóð upp úr fyrir dýralífið, en þar syntum við með örugglega 20 risastórum skjaldbökum, sem var eitthvað sem ég mun aldrei gleyma! Náttúran var líka algjörlega stórbrotin og veðurfarið einstaklega notalegt.“

Á Hawaii synti Gyða með skjaldbökum.
Á Hawaii synti Gyða með skjaldbökum.

Hvað kom þér mest á óvart í ferðinni?

„Ég verð að nefna þriggja daga bátsferðina um Palawan í Filippseyjum. Fyrirfram vorum við stressuð yfir því hvað við vorum að koma okkur út í, að fara út fyrir byggðar eyjar og vera með takmarkað rafmagn og rennandi vatn, enga loftræstingu og ekkert símasamband. Ferðin byrjaði heldur ekki sem best því við lentum í óveðri úti á sjó fyrsta daginn og vorum hreinlega ekki viss um að við kæmumst í land! Sérstaklega ekki þegar við urðum vör við opinn eld í eldhúsinu á viðarbátnum sem við sigldum um á. Sem betur fer fór það allt vel, áhöfnin náði tökum á eldinum og við komumst í land.“

Gyða fór í þriggja daga bátsferð um Palawan í Filippseyjum.
Gyða fór í þriggja daga bátsferð um Palawan í Filippseyjum.

„Uppfrá því upplifðum við svo einhverjar af bestu stundunum í allri ferðinni, og það var mikil upplifun að gista á eyðieyjum og fá að synda um í tærasta sjó sem ég hef upplifað. Við vorum um tíu í ferðinni og við höfum eignast vini fyrir lífstíð í fólkinu sem var með okkur. Þessi ferð var líklega það sem kom mest á óvart því fyrirfram vorum við alls ekki svo viss um að þetta væri eitthvað sem myndi eiga vel við okkur, en svo endaði þetta á að vera það sem stóð hvað mest upp úr.“

Einstök mynd frá bátsferðinni.
Einstök mynd frá bátsferðinni.

Var einhver áfangastaður sem stóðst ekki væntingar?

„Nei ég myndi kannski ekki segja það, en dettur helst í hug Abú Dabí. Okkur fannst minna um að vera þar en við bjuggumst við fyrirfram, og ég myndi ekkert endilega leggja leið mína þangað aftur nema bara á leið eitthvert annað. Ég sé samt ekki eftir stoppinu þar, því við fengum tækifæri til að skoða Sheikh Zayed Grand Mosque, sem er með stærri moskum í heiminum. Það var mögnuð upplifun og þetta er með fallegri byggingum sem ég hef séð!“

Gyða við Sheikh Zayed Grand Mosque.
Gyða við Sheikh Zayed Grand Mosque.

Hvað kostar svona ferð?

„Það getur verið alveg ótrúlega mismunandi eftir því hvaða gistingu, afþreyingu og ferðamáta fólk velur sér! Í þessari ferð gistum við á hótelum, í flestum tilvikum í milli verðflokk þó sum hafi vissulega verið í ódýrari kantinum og önnur í dýrari kantinum. Við völdum líka oftast hröðustu ferðaleiðina milli staða, sem er sjaldnast ódýrust.

Til að gefa einhverja hugmynd þá borguðum við í kringum 300 þúsund á mann í flug, sem gera 600 þúsund samtals, 650 þúsund í hótel, 150 þúsund í bátsferðir og lestir, þar með talið þriggja daga siglinguna, og 200 þúsund í bílaleigubíla og afþreyingu eins og skemmti-bátsferðir, snorkling ferðir og fleira slíkt. Uppihald er ótrúlega misjafnt eftir fólki, en í flestum þessum löndun er hægt að lifa bæði mjög dýrt og mjög ódýrt.“

Kostnaður við ferð sem þessa getur verið mismunandi að sögn …
Kostnaður við ferð sem þessa getur verið mismunandi að sögn Gyðu.

Hvar fékkstu besta matinn?

„Japan á þetta algjörlega skuldlaust! Þar fengum við allra besta mat sem ég hef fengið og það var ótrúlegt hvað eiginlega allt sem við borðuðum var gott, hvort sem það var á fínum veitingastað eða tilbúinn matur úr matvörubúð.

Ég er mikill matgæðingur og hefði eiginlega viljað að ég yrði aldrei södd, það var svo margt að smakka! Eitt af því sem stendur upp úr eru ramen-núðlur sem við borðuðum á veitingastaðnum Ichiran, en þar eru einstaklingsbásar og maður pantar matinn í sjálfsala. Þegar maturinn er tilbúinn opnast gardína í básnum manns og maður fær núðlurnar á borðið án þess að vera nokkurn tímann búin að tala við neinn eða eiga nein samskipti við lifandi manneskju. Svo eru skilti sem maður getur notað ef maður þarf að biðja um eitthvað og svo greiðir maður í sjálfsala líka. Virkilega sérstök upplifun en maturinn stóð svo sannarlega fyrir sínu!“

Maturinn í Japan var bestur að mati Gyðu.
Maturinn í Japan var bestur að mati Gyðu.

Hvaða staði verður fólk að heimsækja?

„Tókýó! Það var þvílík upplifun að koma þangað, enda ein stærsta borg í heimi. Það sem er áhugavert er að þó að það sé mjög mikið af fólki þá virkar allt ótrúlega vel. Það er mikið af bæði skráðum og óskráðum reglum í Japan, sem allir fara eftir og ég held að það sé eitt af því sem gerir það að verkum að allt gengur mjög smurt fyrir sig þrátt fyrir fólksfjöldann. Þar eru mörg, mjög ólík hverfi og hvert þeirra er með sinn sjarma. Ég myndi segja að það væri eitthvað fyrir alla.

Að snorkla í Turtle Bay á Oahu er líka eitthvað sem ég myndi setja á bucket listann! Þar var mjög sjaldgæft tækifæri til að fylgjast með mörgum skjaldbökum í miklu návígi. Svo mæli ég alveg klárlega með bátsferð um Palawan við alla sem ætla að heimsækja Filippseyjar!“

Það var einstök upplifun að koma til Tókýó.
Það var einstök upplifun að koma til Tókýó.

Þegar þú horfir til baka, er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi?

„Eftir á að hyggja hefðum við eytt tímanum aðeins öðruvísi í Japan. Við vorum þrjá daga í Osaka, þrjá í Kýótó og þrjá í Tókýó, en ég hefði viljað vera fimm daga í annaðhvort Osaka eða Kýótó, og svo restina af tímanum í Tókýó. Það tók svolítið á að skipta svona mikið um staði og vera alltaf að fara með allan farangur í lestirnar, en við hefðum sennilega getað upplifað alveg jafn mikið með því að gista frekar á færri stöðum og fara í dagsferðir.“

Hvað er framundan hjá þér?

„Það er nóg að gera þessa dagana og mikið spennandi framundan! Í vinnunni er ég að vinna að mörgum spennandi verkefni sem fara fljótlega að líta dagsins ljós. Svo eru jólin auðvitað á næsta leiti, en ég tek jólaskreytingum heimilisins mjög alvarlega og hér fara seríur í hvern einasta glugga. Svo styttist óðum í eitt besta tímabil ársins – skíðatímabilið! Ég fer mjög mikið á skíði og stunda bæði svigskíði og skíðagöngu, svo sá tími árs er í mjög miklu uppáhaldi hjá mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert