Brjóstsviði á meðgöngu

mbl.is/thinkstockphotos

Margar óléttar konur kannast við brjóstsviða á meðgöngu. Hjá sumum byrjar hann um leið og konan kemst að því að hún er með barni en hjá fleirum byrjar brjóstsviðinn þegar litli bumbubúinn er farin að taka aukið pláss, m.a. frá maganum og svo magasýrur og meltingarvökvar liggja ofar og flæða upp í vélindað, sem er það sem gerist þegar konur finna fyrir brjóstsviða. Slímhúðin í vélindanu er viðkvæm og þolir ekki þessa vökva og verður þá fyrir ertingu. Ástand þetta er einnig þekkt sem bakflæði.

Flestar konur finna m mest fyrir brjóstsviða þegar þær liggja og þá er eins og magasýrurnar fljóti eins og öldur upp í vélindað og jafnvel upp í munninn og verða því sumar konur að sofa hálfuppréttar og í verstu tilfellunum alveg uppréttar til að fá næturfrið fyrir ólgandi meltingarvökvum og magasýru.

Helstu einkenni brjóstviða eru:

 • Brunaverkur í hálsi og bringu.
 • Súrt bragð í munni.
 • Erfitt að kyngja.

Hverjar geta orsakirnar verið?

 • Á meðgöngu getur myndast slappleiki í hringvöðva á efra magaopi. Við aukinn þrýsting frá leginu á magann geta magasýrur og meltingarvökvar runnið upp í vélindað.
 • Ákveðnar fæðutegundir s.s mikið kryddaður og súr matur.
 • Drykkir sem innihalda koffein.
 • Nikótín.
 • Spenna og streita.
 • Barnið tekur pláss frá maganum sem þrýstir magavökvum upp í vélindað.

 Lausnirnar eru nokkrar en geta m.a. falist í þessu:

 • Borða oft en lítið í einu og forðast að borða rétt fyrir svefninn.
 • Forðast drykki sem innihalda koffein.
 • Hætta að reykja, þ.e.a.s. ef þú ert ekki löngu hætt því.
 • Hækka undir höfðagafli um 10-20 sentimetra.
 • Draga úr spennu og streitu.
 • Prófa að hvílast í Lazyboy stólum eða sambærilegum þegar ástandið er slæmt

Ef þessi ráð duga ekki:

 • Drekka vatn/sódavatn til að skola vélindað. Athugið að sódavatn virkar betur en eingöngu kolsýrt vatn vegna salttegundar sem heitir  natríum bíkarbónat, og er salt af kolsýru. Að auki er í sódavatni örlítið af matarsalti, natríumsúlfati og kalsíumklóríði sem hefur þann eiginleika að geta bundið magasýrur. Prófið sódavatn áður en sýrubindandi lyf eru  notuð.
 • Sýrubindandi lyf sem hægt er að kaupa án lyfseðils (Gaviscon, Silgel, Gelusil).

Ef þessi ráð duga ekki skaltu þú ráðfært þig við ljósmóður og/eða lækni.

Ráðgjöf í þessari grein er að mestu fengin af vefnum Ljósmóðir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert