Nýbakaðir foreldrar sofa of lítið

Nei, þau sofa nefnilega ekki alltaf þegar það hentar foreldrunum …
Nei, þau sofa nefnilega ekki alltaf þegar það hentar foreldrunum að þau sofi. mbl.is/thinkstockphotos

Kannski ekki frétt út af fyrir sig að foreldrar ungbarna séu rændir svefni sínum en samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar ná foreldrar fyrstu 12 mánuðina af ævi barnsins aðeins um 59% af þeim svefni sem mælt er með á nóttunni og fá aðeins fjögurra klukkustunda og 44 mínútna svefn á nóttunni að meðaltali á fyrsta ári barnsins.

Dæmigert foreldri notaði um 54 mínútur að meðaltali til að fá barnið til að sofna sem gera 14 heila daga á fyrsta árinu. Að auki ganga foreldrar að meðaltali um þrjá kílómetra meðan þeir róa börnin sín bæði á daginn og á nóttunni eða allt að 1.200 km á ári sem er á pari við vegalengdir 28 maraþonhlaupa.

Stundum tekur það miklar tilfæringar, bíltúra, rugg, söngva, labbitúra og …
Stundum tekur það miklar tilfæringar, bíltúra, rugg, söngva, labbitúra og fleira að láta þau sofna. mbl.is/thinkstockphotos

Rannsóknin sýnir að svefnskorturinn getur haft veruleg áhrif á samskipti nýbakaðra foreldra þar sem hið dæmigerða nýfædda barn vaknar að meðaltali þrisvar sinnum á nóttunni eftir að þau koma heim.  

Meira en tveir þriðju hluta breskra foreldra telja sig hafa lent í rifrildi við maka sinn sem beina afleiðingu af svefnskorti vegna litla krílisins.

Samkvæmt rannsókninni, sem var gerð á vegum Simba-barnavöruframleiðandans, töluðu 23 prósent þátttakenda um að svefnskorturinn leiddi til óvenjulegrar hegðunar. Í svefnleysisástandi töluðu 11% þátttakenda um að hafa haft ofskynjanir um hluti sem ekki voru til staðar og 44% gleymdu hvað þau ætluðu að segja í miðri setningu. Átta prósent þátttakenda höfðu meira að segja gleymt nafni barnsins og 64% þátttakenda sögðust vera undrandi á því að hafa staðið sig jafnvel og þau gerðu fyrsta árið. 

En þótt þau geti gert foreldrana alveg tjúll af svefnleysi …
En þótt þau geti gert foreldrana alveg tjúll af svefnleysi er þeim alltaf fyrirgefinn svefnþjófnaðurinn. mbl.is/thinkstockphotos

Á þessum fyrstu mánuðum taldi þriðjungur þátttakenda að heit mjólk væri besta lausnin fyrir kríli sem ekki vill sofa og 32% eða svipuðu hlutfalli fannst sem unginn svæfi best þegar honum var ruggað til svefns á handleggnum. Fimmtungur þátttakenda gaf börnunum mjúkt „kósí“ teppi til að róa þau meðan þau sváfu laust eða voru að sofna.

20 bestu leiðirnar til að láta barnið sofna samkvæmt þátttakendum rannsóknarinnar 

  1. Heit mjólk
  2. Búa til og halda sig við venjur
  3. Rugga börnunum rólega
  4. Snuð
  5. Heitt bað
  6. Mjúkt „kósí“ teppi
  7. Lestur
  8. Hossa þeim varfærnislega
  9. Syngja
  10. Uppáhaldsleikfang
  11. Leika mikið við barnið yfir daginn svo það sé þreytt á kvöldin
  12. Róandi tónlist
  13. Umhverfishávaði, t.d. hárþurrka, þvottavélar, ryksuga
  14. Bílferð
  15. Ungbarnanudd
  16. Barnaefni í sjónvarpi
  17. Gönguferð í barnavagni
  18. Forðast að horfa í augun á barninu fyrir háttinn
  19. Láta þau anda að sér fersku lofti
  20. Sérstakur ilmur nálægt rúminu

Frétt þessi er unnin upp úr The Independent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert