Viltu vita kynið?

Ljósmynd/Einkasafn

Ásta Sóley Gísladóttir er 21 árs gömul og búsett í Hafnarfirði. Hún er bloggari á lífstílsblogginu Narnía.is og deilir hér vangaveltum sínum um það hvort það skipti máli hvort bumbubúinn sé strákur eða stelpa.
________________________________________

Áður en ég varð ólétt vorum við Björgvin búin að tala um hvort við vildum vita kynið eða ekki þegar við myndum eignast börn. Hann langaði ekki að vita kynið en ég er sjúklega forvitin og mig langaði að vita það. Ég sagði samt við hann að með fyrsta barn væri ég til í að vita ekki kynið og hugsaði „við erum hvort sem er ekkert að fara að eignast barn strax, ég mun ná að fá hann til að breyta um skoðun“.  Svo varð ég ólétt. Þegar leið á meðgönguna fórum við aftur að tala um hvort við ættum að fá að vita kynið eða láta það koma í ljós, ég ákvað að gefa eftir og fá ekki að vita það.

Ljósmynd/Einkasafn

Strákaleg bumba?

Í 20 vikna sónar vorum við spurð hvort við vildum vita kynið og við sögðum bæði nei. Þá spurði ljósmóðirin hvort hún ætti ekki að skella miða með kyninu fyrir okkur í umslag sem við einnig neituðum. Ég held að konunni hafi fundust smá skrítið að við vildum ekki einu sinni fá umslag enda eru frekar fáir í dag sem vilja ekki vita kynið. Alla meðgönguna hugsaði ég hvort kynið þetta væri og var ég eðlilega mjög spennt. Það héldu allir að Viktoría væri strákur, ég var með svo strákalega bumbu, það var strákahjartsláttur o.s.frv. Eina manneskjan sem hélt þetta væri stelpa var mamma, það var samt eiginlega bara vegna þess að hún vildi vera öðruvísi en allir hinir hahaha.

Og það var .. stúlka!
Og það var .. stúlka! Ljósmynd/Einkasafn

Þegar ég var sett af stað var ég orðin mjög spennt og óþreyjufull að komast loksins að því hvort þetta væri strákur eða stelpa, enda gekk ég 13 daga fram yfir settan dag með hana.  Eftir 28 tíma fæðingu, sem endaði með tangarfæðingu og látum, og munaði hársbreidd að hefði endað í keisara, var mér eiginlega orðið slétt sama. Ég vildi bara fá barnið mitt í hendurnar. Ég var ekkert búin að pæla í því fyrirfram hvernig við ætluðum að komast að kyninu en áður en við fórum upp á spítala spurði ég Bjögga hvort það væri ekki gaman ef við myndum kíkja saman á kynið, sem hann var til í.

Þegar Viktoría LOKSINS fæddist var ég ekkert að pæla í kyninu og planið mitt gekk ekki alveg upp.  Ég komst að því að Viktoría væri stelpa vegna þess að ein af ljósmæðrum mínum hálf öskraði „hann er búinn að kúka í vatnið… nei bíddu, þetta er STELPA!“  Það voru allir búnir að segja við mig að þetta væri pottþétt strákur og ég var eiginlega bara byrjuð að trúa því sjálf! Ég horfði á Bjögga, svo á mömmu og sagði „HA?! Er þetta hvað? Haa? Stelpa?“ Mér finnst mjög gaman eftirá að hafa ekki vitað kynið, þetta var svolítið svona eins og að fá auka gjöf, fá ekki bara litla barnið mitt í hendurnar, heldur líka að kynið væri alveg óvænt.

Færsla Ástu Sóleyjar á Narnia.is lífstílsblogginu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert