Fjölskyldubíltúrinn á Austurlandi

Frá Hallormsstaðaskógi.
Frá Hallormsstaðaskógi. Steinunn Ásmundsdóttir

Austurland hefur upp á margt að bjóða í afþreyingu, náttúru og mat. Það sem hefur verið helst einkennandi fyrir þetta sumar á Austurlandi er hin endalausa veðurblíða sem leikið hefur við Austfirðinga síðan snemma í maímánuði. Okkar hugmynd að skemmtilegum bíltúr sem hæfist á Egilsstöðum er hinn rómaði Fljótsdalshringur sem liggur í kringum Lagarfljótið.

Fyrsti áfangastaðurinn í hringnum er Vallanes en þar er boðið upp á ýmsa matarupplifun og þjónustu við ferðamenn á sumrin. Borðaður er þar hollur og staðgóður morgunmatur frá hráefni sem kemur beint frá akri. Margir kannast kannski við vörurnar frá Móður Jörð en þær eru einmitt ræktaðar að Vallanesi.

Eftir að hafa fyllt á tankinn með heilsufæðinu frá Móður Jörð í Vallanesi er haldið að einum hæsta foss landsins. Ekið er í gegnum Hallormsstaðaskóg sem er stærsti skógur landsins á leiðinni að Hengifoss. Hinn 128 metra hái Hengifoss fellur í stórfenglegt gljúfur þar sem jarðlög frá ólíkum eldgosum sjást vel. Á leiðinni upp má sjá Litlanesfoss sem er skreyttur með fallegu stuðlabergi. Þægilegur göngustígur liggur upp að fossi og tekur heildargangan um 2 klukkutíma á þægilegum gönguhraða. Fallegt útsýni er yfir Fljótsdalinn og Lagarfljótið á gönguleiðinni.

Háifoss er ein fallegasta perla Fljótsdalshringsins.
Háifoss er ein fallegasta perla Fljótsdalshringsins. Ljósmynd/Aðsend

Að göngu lokinni er tilvalið að halda innar í Fljótsdalinn og kíkja inn í hina glæsilegu Snæfellsstofu og skoða sýningu um Vatnajökulsþjóðgarð, lífríkið þar og náttúruöfl. Lögð er áhersla á í sýningunni að börn geti snert, lyktað og prófað hina ýmsu sýningarmuni. Í næsta nágrenni við Snæfellsstofu er Skriðuklaustur með sitt fræga kaffihlaðborð þar sem lögð er áhersla á hráefni heiman úr héraði. Þar er tilvalið að fá sér ljúffenga næringu. Allt er heimagert og munu allir finna sér eitthvað gómsætt við sitt hæfi.

Næsta stopp á dagskrá er Óbyggðasetrið en sá staður hefur fengi mikla athygli og góða dóma upp á síðkastið. Þar er hægt að skoða afar skemmtilega sýningu um óbyggðir Íslands og hvernig lífið var þar til forna. Sýningin var hönnuð af fremstu leikmyndahönnuðum landsins og farið er með gestina í gegnum hana undir leiðsögn.

Frá Óbyggðasetrinu.
Frá Óbyggðasetrinu. Ljósmynd/Aðsend

Ef fólk er búið að fá nóg af sýningum þennan daginn þá er í boði hestaleiga þar sem meðal annars er riðið inn að skemmtilegri kláfferju sem er liggur yfir Jökulsá í Fljótsdal, þeir sem þora geta farið með kláfnum fram og til baka yfir kraumandi Jökulsána. Kláfferjur sem þessi voru notaðar til að ferja ýmsan varning yfir ár til forna. Þessi kláfferja er nýuppbyggð og er því í góðu ástandi.

Kláfferja.
Kláfferja. Ljósmynd/Aðsend

Nú er hægt að velja hvort haldið skal aftur til Egilsstaða eða ferðalagið sé framlengt með ferð upp á hálendið. Fyrir þá sem vilja taka langan dag er næsta stopp umtalaðasta mannvirki Íslandssögunnar, sjálfir Kárahnjúkar. Að Kárahnjúkum liggur góður malbikaður vegur og er útsýni yfir Vatnajökul og sjálfan konung íslenskra fjalla, Snæfellið, á leiðinni. Þegar hingað er komið er stutt að bregða sér inn í Vatnajökulsþjóðgarð eða að baða sig í náttúrulaugunum í Laugarfelli áður en haldið er til baka á Egilsstaði eftir langan og skemmtilegan bíltúr í fallegu umhverfi Austurlands.

Frá Skriðuklaustri.
Frá Skriðuklaustri. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert