Ekki gefa barninu ábót!

Brjóstagjöf fer ekki alltaf fram á bleiku skýi.
Brjóstagjöf fer ekki alltaf fram á bleiku skýi. Ljósmynd/Aðsend

Fjölskyldan á mbl.is er í samstarfi við bloggarana á lífstílsbloggvefnum Lady.is. Hér skrifar Sunna Rós um reynslu sína af brjóstagjöf, þurrmjólk, pela og brjóstagjafaráðgjafa sem hún var ekki sátt við. 
________________________________________________

Mjólkin hjá mér kom aldrei í miklu magni. Það kom ekki í ljós fyrr en Klara Dís var orðin ca. 2 vikna og ekki búin að þyngjast almennilega. Hún var voða óvær þessar vikur enda var hún svöng.

Ég kunni ekkert á þetta og var búið að segja mér að ég væri með mikla og fína mjólk þannig að ég var ekkert að pæla í neinu öðru. Mér leið hræðilega og fylltist af vonleysi. Ég var búin að vera að svelta barnið mitt og var ég skelfileg móðir. Þennan sama dag kaupi ég pela og þurrmjólk og gef Klöru. Þetta varð allt annað barn. Hún varð loks róleg, stundi, svaf lengur og grét voða lítið.

Sunna Rós er bloggari á lífstílsvefnum Lady.is.
Sunna Rós er bloggari á lífstílsvefnum Lady.is. Ljósmynd/skjáskot

Ég fjárfesti síðan í handpumpu til að geta séð nákvæmlega hvað væri að koma úr brjóstunum. 10 ml úr báðum brjóstum sem var langt frá því að vera nóg. Það sem mér leið illa. Ég gat ekki hætt að hugsa um það hvað blessaða barnið var orðið svangt og því illt. Ég pumpaði mig á tveggja tíma fresti og lagði hana inn á milli á brjóstið. Ég náði max einum pela á dag til gefa henni og restina fékk hún í ábót.

Ég reyndi allt í bókinni til þess að reyna að ná mjólkinni betur upp. Leigði mjaltavél, keypti öll þau te sem áttu að auka framleiðslu. Keypti hitt, gerði þetta og ekkert gerðist. Ofan á þetta allt saman fékk ég brjóstastíflu og slæma sýkingu og þurfti að fara upp á spítala. Það var langt ferli og var ég inn og út af spítalanum og sýkingin lengi að fara.

Í kjölfarið var ég bókuð í tíma hjá brjóstagjafaráðgjafa. Mæti og var ég hálfpartinn skömmuð yfir því að gefa barninu ábót. Ég ætti ekki að vera að gera svoleiðis! Bara leggja hana oftar á og mjólkin kemur. Brjóstamólkin væri það besta fyrir barnið. Ég varð hálforðlaus þarna inni hjá henni. Hún hlustaði ekkert á mig þótt ég hafði sagt henni hvað ég væri búin að vera að reyna. Ég var ótrúlega sár út í hana en tók nú lítið mark á henni því ég vildi ekki að Klara yrði svöng aftur.

Ég hélt áfram með það sem ég var búin að vera að gera og öllum leið vel. Ég náði að halda þessu striki áfram þangað til að Klara var orðin 3 mánaða. Þá kom stífla númer tvö.

Ljósan mín mælti með því að núna væri best að hætta. Hún sá að ég var að bugast og var búin að reyna allt. Eftir alla þessa vinnu hætti ég. Það var ótrúlega erfitt en samt svo mikill léttir fyrir mig. Ég hætti að stressa mig yfir þessu og Klara fékk nóg að borða þannig allir voru hressir. Ljósan mín var yndisleg, ég er henni afar þakklát fyrir alla hjálpina.

Stundum vitum við sjálfar hvað er best fyrir okkur og eins mikið og mig langaði að halda áfram með Klöru á brjósti þá hreinlega gat ég það ekki. Það eru konur sem eru að hneykslast yfir því að mæður eru ekki með börnin sín á brjósti og nýta þær hvert tækifæri ef þær komast í kynni við eina að láta hana heyra það. Mér finnst að þessar konur ættu aðeins að hugsa áður en þær tjá sig hvað við mæður höfum reynt áður en við hættum.

Þetta var búið að liggja svolítið á mér eftir tímann hjá ráðgjafanum. Verum góðar við hver aðra.

Færsla Sunnu á Lady.is vefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert