„Hjalti reyndi að drífa sig í heiminn í stigaganginum heima“

Hulda Vigdísardóttir varð móðir í janúar síðastliðnum þegar sonur hennar, …
Hulda Vigdísardóttir varð móðir í janúar síðastliðnum þegar sonur hennar, Hjalti Birgisson Hulduson kom í heiminn. Samsett mynd

Íslenskufræðingurinn og fyrirsætan Hulda Vigdísardóttir eignaðist sitt fyrsta barn í janúar síðastliðnum, soninn Hjalta Birgisson Hulduson, með kærasta sínum Birgi Erni Sigurjónssyni. Hulda segist hafa upplifað frábæra meðgöngu og fæðingu en fái stundum hálfgert samviskubit yfir því, en sjálf hafi hún upplifað ótta á meðgöngunni yfir því að eitthvað færi úrskeiðis eftir að hafa heyrt ófáar hryllingssögurnar af meðgöngu og fæðingu.

Í starfi sínu hefur Hulda skrifað mikið, þýtt og gefið út bók. Hún hefur einnig starfað sem fyrirsæta bæði hér á landi og erlendis og tekið þátt í ýmsum keppnum fyrir Íslandshönd, nú síðast Miss Multiverse í Dóminíska lýðveldinu og World Top Model í New York-borg.

Hulda hefur starfað sem fyrirsæta bæði hér á Íslandi og …
Hulda hefur starfað sem fyrirsæta bæði hér á Íslandi og erlendis.

„Þurfti að ganga á eftir mér í meira en ár“

Hulda og Birgir kynntust fyrir tæpum fimm árum, en á þeim tíma hafði Hulda engan áhuga á því að fara í samband. „Við kynntumst í sameiginlegri útskriftarveisla hjá einni bestu vinkonu minni úr MR og unnusta hennar sem er einn besti vinur Birgis síðan úr grunnskóla. Þetta var reyndar pínu fyndið – við vinkonurnar höfðum haldið litlu jól rúmum mánuði áður og þar sagði vinkona mín mér frá Birgi og að við værum „fullkomin fyrir hvort annað“. Strákarnir héldu síðan spilakvöld milli jóla og nýárs þar sem Birgir fékk víst að vita af mér og að hann myndi hitta mig í útskriftarveislunni,“ rifjar Hulda upp. 

Þegar þau hittust í veislunni var Hulda búin að steingleyma því sem fram fór á litlu jólunum, en Birgir hafði engu gleymt og settist hjá Huldu. „Til að gera langa sögu stutta þá ætlaði ég ekki í samband á þessum tíma en hann var sem betur fer nógu þrjóskur og þrautseigur og gafst aldrei upp. Við vorum saman allt það vor en síðan lagðist ég í ferðalög og kom ekki heim til Íslands nema í þrjá daga til að taka jólapróf og þá hittumst við líka,“ bætir hún við. 

„Það er algerlega honum að þakka að við erum hér …
„Það er algerlega honum að þakka að við erum hér í dag því greyið þurfti að ganga á eftir mér í meira en ár. Ég verð honum alltaf þakklát – hann er besti vinur minn og það er mín mesta gæfa í lífinu að vera mamma Hjalta okkar.“

Fann strax á sér að hún væri ófrísk

Aðspurð segir Hulda þau Birgi hafa orðið mjög glöð þegar þau komust að því að hún væri ófrísk.

„Ég fann einhvern veginn strax á mér að ég væri ófrísk, löngu áður en ég tók fyrsta óléttuprófið. Ég fékk samt aldrei neina ógleði né önnur líkamleg einkenni; mér leið bara eins og ég væri ekki „ein“, eins einkennilega og það kann að hljóma. Ég var að vinna sem flugfreyja hjá Icelandair allt sumarið og strax í einu stoppinu í maí gekk ég inn í Disney-búð á Times Square og keypti lítinn bangsa, svo viss var ég. Kannski var það óskhyggja eða hvort tveggja, grunur og óskhyggja í bland. Þegar ég kom heim gat ég samt ekki beðið lengur og tók óléttupróf sem var jákvætt,“ segir hún.

„Við vorum ekki að reyna eignast barn en „leyfðum því …
„Við vorum ekki að reyna eignast barn en „leyfðum því að gerast“ í þetta skipti og krílið var meira en velkomið.“

„Ég þori varla að segja frá því þegar ég er spurð“

Hulda segir meðgönguna hafa gengið vonum framar og að hún hafi ekki upplifað einkenni sem hún hafði oft heyrt að fylgi meðgöngu, eins og ógleði, brjóstsviða, grindargliðnun eða bjúg.

„Ég þori varla að segja frá því þegar ég er spurð en satt að segja þá leið mér alveg eins líkamlega á meðgöngunni og áður en ég varð ófrísk eða eftir að ég átti. Ég fann auðvitað fyrir hreyfingum þegar krílið byrjaði að hreyfa sig en ekkert annað. Ég var mjög heppin,“ segir Hulda og bætir við að hún hafi haldið áfram að gera alla þá hluti sem hún var vön að gera. 

Hún ferðaðist mikið á meðgöngunni, en Hjalti heimsótti yfir 25 lönd þegar hann var enn í kúlunni og segist Hulda ekki hafa fundið fyrir neinum óþægindum á ferðalögum sínum en viðurkennir að það hafi stundum reynst erfitt að finna gerilsneyddan mat.

Hulda gat haldið áfram að hreyfa sig á meðgöngunni og …
Hulda gat haldið áfram að hreyfa sig á meðgöngunni og fór á síðustu æfinguna fjórum dögum fyrir fæðingu. Hún segist almennt borða hollan mat og hafi því engu breytt þar en hætti þó strax að drekka orkudrykki og hefur látið þá eiga sig síðan.

Hulda segir meðgönguna hafa verið auðvelda líkamlega, en þegar hún lítur til baka þá hefði hún viljað slaka meira á andlega. „Ég spáði alltof mikið í hvað gæti gerst á meðgöngunni eða farið úrskeiðis í fæðingu. Maður kemst einhvern veginn heldur ekki hjá því að heyra alls kyns hryllingssögur úti í bæ og virðist heyra þær frekar en þær góðu, því miður. Ég var alls engin taugahrúga en hafði samt áhyggjur innst inni af ýmsu sem reyndist allt óþarft,“ segir hún. 

„Ég fæ stundum pínu samviskubit hversu létt ég fór í gegnum meðgöngu og fæðingu. Ég veit um fleiri stelpur í sömu sporum, því það er eins og maður þori varla að segja frá því þegar allt gengur vel sem mér finnst pínu athyglisvert. Ég hefði allavega miklu frekar viljað heyra allar góðu meðgöngu- og fæðingasögurnar en þær slæmu,“ bætir hún við. 

Verðandi foreldrar spenntir fyrir hlutverkinu yfir hátíðarnar.
Verðandi foreldrar spenntir fyrir hlutverkinu yfir hátíðarnar.

Reyndi að drífa sig í heiminn í stigaganginum

Hulda segir fæðinguna hafa gengið hratt og vel fyrir sig, en Hjalti lét ekki bíða eftir sér og reyndi að drífa sig í heiminn í stigaganginum heima hjá þeim aðfaranótt 30. janúar. Hulda á sjálf afmæli 29. janúar og hafði verið með afmælisboð fyrir vini og ættingja þann daginn. Þegar hún var að klæða sig fyrir boðið tók hún eftir því að óléttukúlan virtist vera aðeins neðar en vanalega en spáði lítið í það þar sem hún fann ekki fyrir neinu óvenjulegu og leið vel í veislunni. 

„Ég var fullgengin með hann á afmælisdaginn minn en við Birgir bjuggumst þó hvorugt við því að fá hann alveg strax í heiminn. Við fórum því að sofa um tvöleytið og nokkrum tímum síðar vaknaði ég til að fara á salernið. Áður en við vissum af vorum við svo mætt upp á fæðingadeild,“ segir hún.

„Litli kútur beið þar til allir afmælisgestir voru farnir og …
„Litli kútur beið þar til allir afmælisgestir voru farnir og þar til ég var búin að opna síðustu gjafirnar þar sem hann vildi jú vera aðalpakkinn.“

Hulda segist hafa þvertekið fyrir að fara upp á fæðingadeild til að byrja með, enda hafi hún verið handviss um að ekkert væri að gerast og þótti því óþarfi að rjúka af stað til þess eins að vera send aftur heim. Hún samþykkti það þó að lokum með tregðu að fara upp á spítala og er í dag afar þakklát Birgi og móður sinni fyrir að hafa komið sér upp á spítala.

Hulda og Birgir eru búsett á efstu hæð í fjögurra hæða fjölskylduhúsi, en móðir Huldu býr á neðstu hæðinni. „Mamma kom upp og hringdi upp á spítala, en þarna var ég þó líklegast þegar komin með 10 cm í útvíkkun svo sem betur fer samþykkti ég að mamma færi og næði í bílinn,“ rifjar hún upp. „Birgir tók mig í fangið og hélt á mér niður fjórar hæðir, en í stigaganginum á leiðinni niður birtist annar fótur barnsins, enn í belgnum, og því ekkert annað í stöðunni en að fá blá ljós út á Bergstaðarstræti.“

„Ég þurfti að „halda í mér“ þar sem barnið var ekki í höfuðstöðu og þessi eina gata að heiman og á spítalann hefði ekki mátt vera lengri. Ég bað Birgi að syngja fyrir mig í sjúkrabílnum og hann söng Gamla Nóa hástöfum alla leið inn á fæðingastofu þar sem yndislegt starfsfólk tók á móti okkur. Um leið og ég fékk leyfi til að rembast skaust litli prinsinn svo í heiminn í einum rembingi,“ segir Hulda og bætir við að móðir hennar hafi rétt náð upp á fæðingadeild til að vera viðstödd fæðinguna.

„Ég fékk strákinn okkar í fangið og mér fannst mig …
„Ég fékk strákinn okkar í fangið og mér fannst mig hljóta að vera að dreyma. Ég skildi ekkert í því hvernig ég var eina stundina nývöknuð heima á leið á salernið en þá næstu komin með þennan gullfallega mola í fangið.“

Fékk óskir sínar uppfylltar þessa afmælisnótt

Hulda segist hafa fengið allar sínar óskir uppfylltar þessa afmælisnótt og því hafi hjarta hennar verið fullt af þakklæti. Bæði Birgir og mamma hennar gátu verið viðstödd fæðinguna, en það munaði einum sólahringi að Birgir hefði þurft að skjótast erlendis vegna vinnu í örfáa daga.

„Eftir fæðinguna leit Birgir upp og sá hláturgas fyrir ofan rúmið, hló og sagði: „Sko, það gafst nú ekki einu sinni tími til að hugsa út í þetta.“ Og það var líka rétt; allar pælingarnar og áhyggjur af minni hálfu um mænurótardeyfingu, hláturgas, vendingu, fæðingarstofu með baðkari og annað reyndust óþarfar. Ég fékk enga deyfingu, enda gerðist þetta allt svo ótrúlega hratt og á svo lygilega fullkominn máta að ég trúi því varla enn,“ rifjar hún upp. 

„Veðrið var víst alveg eins og þegar ég fæddist og því hvarf mamma smá aftur á bak í tímann þegar hún mætti aftur upp á fæðingardeild sléttum 29 árum og nokkrum klukkustundum seinna á meðan að hvítum snjókornum kyngdi fyrir utan,“ bætir hún við. 

Hulda segist líka hafa verið þakklát fyrir að Hjalti hafi komið í heiminn eftir miðnætti og fengi því sinn eigin afmælisdag. „Birgir gaf mér einmitt 29 bleikar rósir á afmælisdaginn minn þar sem ég varð 29 ára þann 29. janúar en í veislunni gaf frænka mín mér eina bleika rós enn sem mér fannst táknræn og var tilætluð honum,“ segir hún. 

Hulda er ánægð að Hjalti skyldi fá sinn eigin afmælisdag.
Hulda er ánægð að Hjalti skyldi fá sinn eigin afmælisdag.

„Á vissan hátt á maður sig ekki lengur sjálfur“

Spurð hvernig lífið hafi breyst eftir að Hjalti kom í heiminn segir hún að á sama tíma og allt hafi breyst hafi ekkert breyst. „Lífið fékk annan tilgang eftir að ég átti son minn. Þarna var kominn lítill einstaklingur sem treysti fullkomlega á mann og var algerlega háður manni frá A til Ö. Lífið krefst meira skipulags og hann ræður öllu því það miðast allt við hann. Á vissan hátt, þá á maður sig ekki lengur sjálfur og maður hefur lítinn tíma fyrir sjálfan sig,“ útskýrir hún. 

Birgir vinnur erlendis og segir Hulda mikinn mun vera á því að vera einn með barn en að hafa annan aðila með sér. „Birgir er besti pabbi í heimi og svo er ég líka mjög heppin að búa í sama húsi og mamma mín sem er alltaf boðin og búin til að hjálpa til. Ég skal samt alveg viðurkenna að stundum þegar ég er á haus heima, hef lítið sofið um nóttina, varið stærstum hluta dags í brjóstagjöf og er búin að reyna að koma einhverjum einum hlut í verk allan daginn, þá horfi ég löngunaraugum á nætursvefninn sem Birgir fær úti og allan tímann sem hann hefur fyrir sjálfan sig til að fara í gokart, hitta vini sína, fara á söfn og sýningar eða gera það sem hann lystir, “ segir Hulda.

Feðgarnir alsælir í sólinni.
Feðgarnir alsælir í sólinni.

„Það skrítna er samt að þó ég geti kannski pirrað mig á því í smástund, þá myndi ég aldrei skipta við hann þegar á hólminn væri komið. Það er líka mjög skrítið að ef ég fer t.d. ein út í búð þá sakna ég Hjalta strax og vildi helst hafa hann hjá mér öllum stundum, eins krefjandi og það getur verið,“ bætir hún við. 

„Að vera mamma er líklega eitt stærsta verkefni sem maður …
„Að vera mamma er líklega eitt stærsta verkefni sem maður tekur sér fyrir hendur og maður er á sólarhringsvakt alla daga.“

Þakklát fyrir brjóstagjöfina

Hulda segir það hafa komið sér á óvart hve lengi hægt er að halda sér gangandi án þess að fá almennilegan svefn, en í byrjun þurftu þau að vekja Hjalta á þriggja tíma fresti til að gefa honum brjóst.

Hjalti er enn á brjósti og vonar Hulda að hún geti haldið brjóstagjöfinni áfram þar til hann verður tveggja ára. „Brjóstagjöfin gekk strax mjög vel og ég er heppin að það hafa engin vandamál komið upp í tengslum við hana eins og gerist stundum. Ég elska að hafa son minn á brjósti og það er mögnuð tenging en eins og flestir foreldrar vita eflaust þá fer drjúgur tími af deginum hjá mæðrum í að hafa börn sín á brjósti. Ég pældi ekki mikið í því áður en hann fæddist svo kannski má segja að það hafi líka komið mér á óvart hve tímafrek brjóstagjöf er. Hann fer á brjóst mörgum sinnum á sólarhring og ég geri auðvitað svo til ekkert annað á meðan,“ útskýrir hún. 

Þótt Hulda sé afar þakklát fyrir vel lukkaða brjóstagjöf viðurkennir …
Þótt Hulda sé afar þakklát fyrir vel lukkaða brjóstagjöf viðurkennir hún að það geti verið tímafrekt að gefa brjóst.

„Móðurhlutverkið er besta hlutverk í heimi og ég elska son minn meira en allt. Ég myndi gera hvað sem er fyrir hann og það er kannski einmitt það sem er mest krefjandi. Það er fullt starf að vera með lítið kríli; ég er búin að vera á dag- og næturvakt á hverjum degi síðan að hann fæddist í janúar. Þetta getur alveg verið erfitt en maður gleymir því um leið og hann brosir sínu blíðasta. Það jafnast ekkert á við hláturinn hans og gleðina sem fylgir honum. Það er endurnærandi að hafa hann í fanginu og finna fyrir hlýjunni, fylgjast með honum þroskast, sjá hann uppgötva heiminn og læra eitthvað nýtt,“ segir Hulda.

„Þetta er stundum smá limbó á milli þess að vilja stundum fáörlítinn tíma fyrir sig en samt ekki missa af neinu hjá honum. Ég fæ alveg „mammviskubit“ ef ég þarf að skjótast eitthvað og tek hann ekki með,“ bætir hún við. 

Hulda segir móðurhlutverkið vera það besta í heimi.
Hulda segir móðurhlutverkið vera það besta í heimi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert