„ÉG SÉ HAUS!“

Rósa Davíðsdóttir i forstofunni þar sem hún fæddist með stóra …
Rósa Davíðsdóttir i forstofunni þar sem hún fæddist með stóra hvelli fyrir 12 árum. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Gauja Magnúsdóttir fagnar í dag 12 ára afmæli dóttur sinnar, Rósu Davíðsdóttur, en um leið er þessi dagur áminning um afar sérstæða fæðingu dótturinnar snemma morguns 31. júlí 2006. Margrét Gauja, sem er fyrrverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, kennari og leiðsögumaður, er með skemmtilegri konum. Frásögn hennar af fæðingu þessari er fyndnasta fæðingarsaga sem blaðakona Fjölskyldunnar hefur heyrt. Það er afskaplega hressandi að hlæja í gegnum heilt viðtal þótt það sé svolítið krefjandi fyrir einbeitinguna.

Margrét segir að hún hafi eignast eldri dóttur sína Björk með afskaplega hefðbundnum hætti, farið fram yfir settan dag, en fæðingin hafi reyndar tekið stuttan tíma eða aðeins um fimm tíma.

Komdu út í bíl, kona!

„Ég fór bara að sofa að kveldi 30. júlí með nákvæmlega enga verki, fjórum dögum fyrir settan dag, pollróleg með engar væntingar um að fæðing væri í aðsigi, hvað þá strax um nóttina. Ég vaknaði svo um nóttina með verki, staulast fram á klósett og þegar ég kem til baka tek ég tímann á milli hríða og sé að það eru bara tvær mínútur á milli. Ég vek þá manninn minn, Davíð Arnar Stefánsson, og bið hann að vekja dótturina og hringja í foreldra mína sem áttu að passa fyrir okkur. Svo fer ég að drösla mér í föt og koma okkur öllum út. Davíð minn fer út á undan mér með Björk og þau bíða í bílnum eftir mér en þar sem ég stend í dyragættinni fatta ég allt í einu að ég er ekki að fara neitt,“ segir Margrét.

Margrét Gauja Magnúsdóttir fæddi Rósu heima. Þó ekki beint með …
Margrét Gauja Magnúsdóttir fæddi Rósu heima. Þó ekki beint með haföndun, í vatnsbaði og í nútvitund. Ljósmynd/Aðsend

Það voru góð ráð dýr fyrir Margréti sem stóð þarna komin fast að fæðingu, með eiginmanninn og dóttur í bíl sem stóð hinum megin við götuna. Engin hindrun fyrir flesta, en eins og beljandi jökulfljót fyrir fæðandi konu. Margrét Gauja grípur því til þess ráðs að hrópa á feðginin í bílnum úr dyragættinni og vakti upp hálfan Hafnarfjörðinn í leiðinni. Það virkaði, Davíð kom til baka, Björk greyið, þá átta ára, ráfaði um svæðið og nágrannarnir fylgdust með bak við gardínur.

„Ég var komin í töluverða geðshræringu á þessum tímapunkti en Davíð áttaði sig ekki alveg á því hvað var að fara gerast næstu tvær til þrjár mínúturnar svo að hann gekk að mér rólegur og sagði með skipandi röddu: „Komdu út í bíl, kona.“

Þarna í viðtalinu skellir Margrét Gauja upp úr. Það er ljóst að hún á því ekki venjast að nokkur tali við hana með þessum hætti, hvorki eiginmaður hennar né aðrir. „Ég meina ég er fyrrverandi lögreglumaður! Ég fór bara að skellihlæja og sagði honum að hringja á 112 í snarahasti og hann hlýddi því,“ segir Margrét.

Eins og að reyna að grípa lax

Hún segir að henni hafi fundist að á þessum tímapunkti hafi verið eins og einhver hafi sparkað í hnésbæturnar á henni og hún hálfpartinn datt í gólfið en var þó hálf inni og hálf úti í dyragættinni. „Davíð Arnar var þá kominn með einhvern gaur á línuna á 112, en sá taldi sig nú alveg hafa heyrt áður í verðandi feðrum alveg á nippinu, og ætlaði að róa hann og útskýra fyrir honum eitthvað sem var töluvert framar í leiðarvísi um fæðandi konur fyrir verðandi feður. En Davíð hrópaði bara: „ÉG SÉ HAUS!“ Þannig að gaurinn fletti áfram um töluvert margar blaðsíður og sagði bara „já heyrðu, það kemur sjúkrabíll eftir þrjár mínútur!“

Mynd af Rósu ríflega eins árs sem Margrét segir að …
Mynd af Rósu ríflega eins árs sem Margrét segir að sé sérlega lýsandi fyrir karakter Rósu. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Gauja segist hafa náð að grípa símann milli rembinga og hringja í foreldra sína og æpa á þau að koma STRAX en Davíð hafði náð að renna hendinni undir hana þar sem hún lá á fjórum fótum í dyragættinni. Áður en þau gátu undirbúið fæðinguna frekar skaust Rósa í heiminn með svo miklum látum að Davíð náði ekki einu sinni að grípa hana. Seinna spurði Margrét hann af hverju hann hefði ekki gripið barnið og hann svaraði: „Þetta var bara eins og að reyna að grípa lax!“

Hann náði að vefja barnið inn í handklæði og 112-gaurinn sagði þeim að það væri mjög mikilvægt að ekki kæmi tog á naflastrenginn þannig að nú var bara hægt að bíða.

Þrjár sekúndur eins og heil eilífð, en svo kom öskrið

„Það liðu ekki nema tvær til þrjár sekúndur frá því hún fæddist og þar til hún grét en í minningunni var þetta heil eilífð. Ég fraus algerlega og hélt að þetta væri bara búið. Við þögðum öll, ég, Davíð, Björk stóra systir og 112-gaurinn og ég hélt við værum búin að missa hana. Ég var enn á fjórum fótum og sá ekki barnið .. en svo kom öskrið og .. þvílíkur léttir!“

„Þetta var bara eins og í einhverri Woody Allen-mynd. Það vantaði bara að blaðburðardrengurinn kæmi þarna aðvífandi með blaðið. Hann kom reyndar ekki en sjúkraflutningamennirnir komu svona líka hrikalega sætir, klofuðu yfir mig og fylltu borðstofuna. Einn sjúkraliðsmannanna tók Davíð að sér, sem var orðinn blár í framan, og fjarlægði hann úr aðstæðunum. Lét hann setjast inn í stofu en góður vinur okkar hjóna, Pálmi Hlöðversson sem þá var nýorðin sjúkraflutningamaður, klippti á naflastrenginn. Hann hafði einmitt viku áður verið að tala um að hann hefði aldrei verið viðstaddur fæðingu og ég bauð honum að vera viðstaddur mína og stóð svona líka aldeilis við það,“ segir Margrét og skellihlær.

„Fæðingin var alveg nákvæmlega í hennar karakter. Hún er gríðarlega …
„Fæðingin var alveg nákvæmlega í hennar karakter. Hún er gríðarlega sjálfstæð stelpa og erum heppin að vera hluti af hennar lífi en það er sko hún sem ræður för. Það var sko alveg ljóst frá fyrsta degi.“ Ljósmynd/Aðsend

Foreldrar Margrétar komu því næst. Mamma hennar, Sigríður Kolbrún Oddsdóttir sem er með langa reynslu sem flugfreyja og fyrsta freyja, kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að flóknum aðstæðum. Hún tók stjórnina en pabbi hennar Magnús Kjartansson horfði í augu dóttur sinnar sem var enn í forstofunni og mat aðstæður svo að honum væri ofaukið i bili og gekk út í garð. Þau höfðu þó rætt það á leiðinni að þegar þau kæmu heim til Margrétar þá þyrftu þau að sjóða vatn, svona eins og var gert í gamla daga.

Margréti og Rósu litlu var svo skutlað í sjúkrabílinn þar sem læknirinn, Teitur Guðmundsson, ýtti á kvið hennar og reyndi að fá hana til að fæða fylgjuna um leið og hann útskýrði stöðuna á þýsku fyrir þýskum læknanema sem var með í för.

Hláturskast í absúrd aðstæðum 

„Það var sirka undir Kópavogsbrúnni sem ég bara gjörsamlega sprakk úr hlátri, hlustandi á lýsingarnar á þessu öllu saman á þýsku. Pálmi var með barnið að lýsa því fyrir mér, hvort hún væri með hár og að hún væri að kreista á honum puttann. Þá svona rétt áttaði ég mig á hvað var búið að gerast mitt í allri geðshræringunni. Þetta var bara of absúrd allt saman en hláturskastið sem ég fékk þarna dugði til að ég fæddi fylgjuna,“ segir Margrét hlæjandi að minningunni.

„Ég hef stundum sagt að Rósa fæddi sig sjálf. Fæðingin var alveg nákvæmlega í hennar karakter. Hún er gríðarlega sjálfstæð stelpa og erum heppin að vera hluti af hennar lífi en það er sko hún sem ræður för. Það var sko alveg ljóst frá fyrsta degi,“ segir Margrét rígmontin af þessari flottu stelpu.

Fjölskyldan á mbl.is óskar Rósu Davíðsdóttur innilega til hamingju með afmælið!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert