Streita á meðgöngu hefur áhrif á nýbura

Ljósmynd/Thinkstock

Fjölskyldan er í samstarfið við heilsuvefinn Heilsan okkar en þar má finna fjölmargar greinar um heilsutengd mál sem studdar eru bestu fáanlegu vitneskju hverju sinni. Þessi grein birtist fyrst á heilsanokkar.is.
___________________________________________

Streita móður á meðgöngu getur leitt til ýmissa heilsufarsvandamála barns bæði skömmu eftir fæðingu og þegar fram líða stundir.

Konur sem voru í grennd við Tvíburaturnana 11. september 2001 eignuðust að meðaltali léttari börn eða gengu skemur með börnin sín miðað við konur staddar annars staðar í New York á sama tíma. 

Eins hefur verið sýnt fram á að þungaðar konur sem missa barn eða maka eru líklegri til að eignast léttari börn eða fyrirbura en konur sem ekki verða fyrir slíku áfalli.

Hefur atvinnuleysi áhrif á fæðingar?

Efnahagskreppur leiða til samdráttar í samfélaginu, fjölgun atvinnulausra með tilheyrandi tekjumissi og erfiðleikum við að ná endum saman. Með ofangreint í huga vaknar sú spurning hvort efnahagskreppur geti skert heilsu nýbura vegna streitu hjá mæðrum.

Bandarísk rannsókn sýndi að þrátt fyrir að atvinnuleysi væri hátt var minna um léttburafæðingar (<2.500 g) og fæðingargalla. Ástæðan fyrir því er mögulega sú að konur í lægri þjóðfélagsstigum eignast síður börn á tímum mikils atvinnuleysis, en þær eru í margfaldri áhættu á að eignast léttbura eða fyrirbura.

Annað sem kemur til greina er að samdráttur í efnahag bæti heilsuhegðun ófrískra kvenna (t.d. minni fjárráð til tóbakskaupa eða styttri vinnudagur) og stuðli þar af leiðandi að betri heilsu nýbura.

Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á þveröfug áhrif. Þegar atvinnuleysi er mikið, uppsagnir yfirvofandi eða þegar konur taka á sig vinnuskerðingu á meðgöngu fæðast börn að meðaltali léttari.

Hvernig var þetta á Íslandi?

Íslenska efnahagshrunið 2008 hafði gríðarleg áhrif á samfélagið. Ekki var aðeins um að ræða efnahagslegt tjón heldur einnig heilsufarslegt. Þar sem áhrif streitu á heilsu nýbura eru þekkt þótti mikilvægt að rannsaka hvort efnahagshrunið hafi haft áhrif á heilsu nýbura hérlendis.

Í ljós kom að það varð 25% aukningu á tíðni léttburafæðinga í kjölfar hrunsins. Þær konur sem voru á fyrsta þriðjungi meðgöngu, yngri en 25 ára eða ekki á vinnumarkaði þegar atburðarásin hófst í október 2008, voru í talsvert aukinni áhættu að eignast léttbura.

Þessi rannsókn gaf tilefni til áframhaldandi rannsókna á langtímaáhrifum efnahagshrunsins     á heilsu verðandi mæðra og nýbura. Þær rannsóknir eru nú í farvatninu og niðurstöður þeirra eru væntanlegar á næstu misserum.

Greinin á Heilsan okkar vefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert