5 uppeldisráð Emils Hallfreðssonar

Emil Hallfreðsson sýnir hér taka sína sl. sumar en færri …
Emil Hallfreðsson sýnir hér taka sína sl. sumar en færri vita að þarna fer einkar umhyggjusamur fjölskyldufaðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Emil Hallfreðsson knattspyrnukappi er flestum fótboltaáhugamönnum þessa lands, sem er nokkurn veginn öll íslenska þjóðin, vel kunnur eftir frækilega frammistöðu sína og félaga á HM í Rússlandi í sumar. Færri vita að Emil er mikill fjölskyldumaður, en hann á tvö börn með konu sinni Ásu Maríu Reginsdóttur, þau Emanuel sex ára og Andreu Alexu tveggja ára.

Hér deilir hann fimm af bestu uppeldisráðum sínum með lesendum Fjölskyldunnar.

1. Ómæld ást Mikilvægast af öllu er auðvitað að sýna þeim ómælda ást, koma fram við þau af virðingu og hlúa að þeim svo þau vaxi og dafni sem best. Ég vil meina að það sé mikilvægast af öllu að þau finni fyrir því að þau séu elskuð og viðurkennd eins og þau eru.

2.  Að gefa þeim tíma Ég hef takmarkaðan tíma eins og flestir foreldrar en ég nýti hvert tækifæri til að vera með þeim. Oft er ég hundþreyttur eftir erfiðar æfingar/leiki en skutla þeim alltaf í skólann/leikskólann á morgnana. Pabbi sér um sína.

3. Að viðurkenna tilfinningar barnanna Börn þurfa að fá viðurkenningu á tilfinningum sínum rétt eins og við fullorðna fólkið. Grátur er af hinu góða og þannig fá þau útrás fyrir tilfinningar sínar og líður betur eftir á. Að vera til staðar fyrir þau í blíðu og stríðu styrkir sambandið.

4. Kvöldbænir Við gefum okkur alltaf tíma til að fara með kvöldbænirnar. Þá þökkum við Guði fyrir daginn, biðjum fyrir fjölskyldu, vinum og hinum ýmsu dýrum og fyrir morgundeginum. Þessi stund er mér mjög mikilvæg og börnin fara að sofa umvafin kærleika og friði.

5. Minn tími einn með börnunum Það hljómar eigingjarnt en ég fæ ekki mikinn tíma einn með börnunum. Ég bý mér því sem oftast til stundir þar sem við förum þrjú út, setjumst inn á kaffibar, ræðum málin og fáum okkur eitthvað gott að borða, því meira Nutella, því betra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert