Einelti barna eykst í góðærinu

Þorlákur Helgi Helgason hefur verið framkvæmdastjóri Olweusar-verkefnisins á Íslandi frá upphafi, eða frá 2002. Hann hefur brennandi áhuga á að útrýma einelti í landinu. Sjálfur lenti hann í einelti sem barn. Hann segir að við verðum að finna þau börn í skólakerfinu sem greina frá einelti í könnununum. Því ef við gerum ekkert í vandamálinu núna mun það bara stækka og versna í framtíðinni. 

Þorlákur er háskólamenntaður frá Svíþjóð og hefur mestallan starfsferil sinn sinnt fræðslumálum. Hann var um tíma sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og í Svíþjóð, en hefur einnig starfsreynslu úr fjölmiðlum.

„Á þeim tíma sem verkefnið fór í gang hér á landi starfaði ég sem fræðslustjóri í Árborg. Ráðherra hafði látið gera úttekt á eineltismálum í skólum. Í framhaldi þess var nefnd skipuð á vegum ráðuneytisins, sem lagði fram tillögur að úrbótum í kjölfar útkomu skýrslunnar. Ég kynnti mér hvað hinar Norðurlandaþjóðirnar væru að gera í þessu sambandi. Kom þá í ljós að norska ríkisstjórnin hafði boðið öllum grunnskólum í Noregi að taka þátt í eineltisáætlun. Það var þá sem ég kynntist eineltisáætlun Dans Olweusar, en hann var þá prófessor í Björgvin. Ég sótti námskeið í fræðunum í Noregi árið 2001 og byrjuðum við í kjölfar þess að innleiða breytingar hjá okkur með því að innleiða Olweusaráætlunina í grunnskólum.“

Þorlákur segir að einelti í 5.-10. bekk í skólum sem fylgi Olweusaráætluninni hafi á sl. skólaári mælst 5,8%. „Við könnum eineltið á hverju ári og fjölmörg atriði sem varpa ljósi á stöðu nemenda í skólanum. Staðan hefur breyst undanfarin ár. Til dæmis fjölgar stúlkum sem segja það hafi verið vont, særandi eða hræðilegt sem þær hafi lent í. Þær eru þrisvar sinnum fleiri en strákarnir sem svara á þennan hátt. Það þarf að finna þessi börn með réttum aðferðum. Það verður ekki gert í gegnum kannanirnar, en skólarnir geta gert þetta með allskonar leiðum. Með því að vinna með bekkina, vera með námskeið, nálgast mál stelpna og stráka mismunandi. Auka vinskap á milli nemenda.

Börn sem hafa lent í erfiðleikum og niðurlægjandi samskiptum þarf að vinna með – hættan er að þetta fylgi þeim ef ekkert er aðhafst. Einelti hefur t.d. mikil áhrif á skólagöngu og þar með talið hættu á að þau flosni upp úr námi.“

Einelti minna í kreppu

„Það er áhugavert að sjá hvað gerist í eineltismálum í kringum kreppur. Einelti í skólum landsins haustið 2007 mældist hjá okkur tæp 7%, en minnkaði síðan fram að 2013 um helming. Frá 2013-2014 hefur einelti frekar aukist. Eineltið hefur sem sagt aukist í „góðærinu!“ Hverju sætir? Þegar við sigldum inn í kreppuna hvöttum við skólana mjög til að hafa gát á. Skólafólk lagði sig fram og vann mjög vel. Foreldrar hafa örugglega haft góðar gætur á sínum börnum. Getur verið að nú sé öldin önnur? Tíminn sem er til samvista hafi minnkað? Eðli samskipta breyst? Maður heyrir að það er ekki slegið af.“

Þorlákur segir að ástæðan fyrir þessu geti verið m.a. sú að í kreppu hefur fólk meiri tíma fyrir börnin sín. „En í uppsveiflu þá er minni tími fyrir börnin og þar af leiðandi minna verið að sinna þeim. Neyslan eykst og hraðinn að sama skapi.“

Þorlákur hefur djúpa og víðtæka reynslu í að skoða einelti. Hann segir hvernig skólar taki á móti nemendum sínum sé mikilvægt. Samstarf foreldra einnig. „Það eru margir skólar að gera þetta vel en kröfur foreldra til skólanna eru misjafnar. Hér hefur félagsleg staða og efnahagur foreldra örugglega mikil áhrif. Það þarf að tryggja að allir skólar vinni kerfisbundið gegn einelti. Þetta er sameiginleg vinna í skólasamfélaginu öllu.“

Foreldrar þurfa að deila ábyrgð með skólanum

Hlutverk foreldra er mikið þegar kemur að einelti ekki satt?

„Jú, foreldrar verða að vera viðbúnir því að taka ákvörðun fyrir barnið sitt ef þau skynja breytingar hjá börnum sínum – og kannski finnst ykkur að skólayfirvöld bregðist ekki við með eðlilegum hætti. Reglugerð um ábyrgð og skyldur í skólasamfélaginu kveður skýrt á um hlutverk foreldra og skóla. Margir skólar eru með áhugasama kennara um málefnið sem keyra áætlun um einelti í gegn. En það verður að vera allur skólinn sem tekur höndum saman og innleiðir skipulagða eineltisáætlun sem virkar fyrir börnin.

– Og með réttu hugarfari.“

Eru ekki nánast allir skólar í landinu með þessa áætlun?

„Nei, svo er ekki. Sumir skólarnir eru virkir, aðrir fylgja eineltisáætlun að hluta. Á liðnu skólaári var eineltiskönnun okkar lögð fyrir í 47 skólum. Í þessum skólum er um fjórðungur allra grunnskólanemenda á Íslandi.“

Hvaða skóli ber af í þessum málum?

„Þetta er erfið spurning. Skóli sem er að vinna eins og ætlast er til og á forsendum nemenda er að gera rétt. Það eru til skólar þar sem einelti hefur nærri alltaf mælst lágt – og jafnvel á núlli. Maður finnur það þegar maður stígur inn í skóla og fær þessa tilfinningu um frið og hlýju. Það er góður skóli. Þessi sami skóli getur verið að vinna með erfið mál – í brothættu umhverfi – og stefnir fram á við. Það tekur tíma að snúa af braut en stundum er nauðsynlegt að brjóta upp félagskerfið,“ segir Þorlákur og ítrekar að kannanir styðji við þessa tilfinningu sem hann fær.

„Kærleikurinn er í loftinu í skólum þar sem vel er hlúð að nemendum. Slíkt skilar sér í lægri tíðni eineltis í skólum.“

Lenti sjálfur í einelti

Lenti Þorlákur sjálfur í einelti sem barn?

„Já, ég lenti sjálfur í einelti frá kennara en ekki öðrum nemendum. Ég var sonur skólastjóra svo ég hafði bakland. Hugsaðu þér börnin sem hafa ekkert umboð frá fullorðnum, né bakland til að styðjast við í erfiðum aðstæðum.“

Hvaða ráð gefur þú foreldrum, kennurum og skólastjórnendum þegar kemur að einelti?

„Fyrst vil ég árétta það að í eineltismálum eru þolendur og meintir gerendur. Það þarf að vinna með gerendum að því að bæta samskiptin. Fá þá ofan af hegðun sem ekki er við hæfi. Það þarf að vinna með bekkinn og bæta bekkjaranda og skólabrag. Skóli þarf að hafa verkfæri og þekkingu til að takast á við einelti. Ef foreldrar eru ekki sáttir við niðurstöður eða aðgerðir má ekki að gefast upp. Ef allt um þrýtur má leita til ráðgjafanefndar á vegum Menntamálastofnunar. Sumir foreldrar hafa leitað til mín. Auðvitað vildi ég að allir skólar gætu tekið á þessum málum. Þess vegna þurfa foreldrar að vera mjög vakandi fyrir því að taka ábyrgð gagnvart börnum sínum. Ég hef ráðlagt fólki að færa sig um set þegar ég sé eftir athugun að aðgerðir virka ekki. Ég fer í skóla til að aðstoða við að leysa mál. Ég ráðlegg öllu fólki að hittast maður á mann og nýta ekki samfélagsmiðla eða póstinn til að senda orðsendingar sín á milli. Slíkt getur valdið misskilningi. Það er erfitt að vinna á gloppum í kerfinu og til dæmis að vinna á brottfalli úr skólum. Við þurfum að kunna betur að „lesa“ aðstæður hjá börnunum. Það þarf að fjölga þeim í skólum sem hafa sérþekkingu. Barn sem lendir utangarðs er barni of mikið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert