Skemmtilegasta hlutverk í lífinu

Felix Bergsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir lesa Ævintýri Frikka og …
Felix Bergsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir lesa Ævintýri Frikka og Freyju á Storytel.

Felix Bergsson, fjölmiðlamaður, skemmtikraftur og rithöfundur, sendi nýverið frá sér bókina Ævintýri Freyju og Frikka á kafi í Kambódíu. Bókin er önnur bók hans um Freyju og Frikka sem gefin er út hjá Storytel en Felix hyggur á að gefa út eina bók í viðbót um systkinin.

Í þessari bók halda Freyja og Frikki á vit ævintýranna í Asíu ásamt móður sinni, en þau eiga eina mömmu og tvo pabba. Felix les sjálfur bækurnar ásamt tengdadóttur sinni, leikkonunni Þuríði Blæ Jóhannsdóttur.

„Í fyrstu bókinni um tvíburana fóru þau alla leið til Galapagos, sem er eyja undan ströndum Ekvador með pöbbum sínum en nú eru þau farin í hina áttina með mömmu sinni, alla leið til Asíu. Þau ætla að skoða hofin glæsilegu í borginni fornu Angkor og Bára mamma þeirra er að mála myndir af því sem fyrir augu ber. Frikki vill finna fornleifar og ganga í augun á Arnhildi vinkonu sinni en Freyja hefur enga þolinmæði í slíkt og vill bara lenda í ævintýrum. Henni verður svo sannarlega að ósk sinni og þau lenda í miklu háska,“ segir Felix. 

Sjálfur hefur Felix ferðast til Kambódíu ásamt eiginmanni sínum Baldri Þórhallssyni prófessor. „Við höfum tekið ástfóstri við þennan hluta Asíu og heimsótt Tæland, Víetnam, Laos, Malasíu, Singapore og Kambódíu. Þetta er dásamlegt svæði og ég hvet alla til að fara þangað og taka börnin sín með,“ segir Felix.

Ferðuðust mikið með börnin

Felix elskar að ferðast og þá sérstaklega með fjölskyldunni. Þegar blaðamaður náði á hann var hann einmitt að fara fljúga heim frá Bandaríkjunum. Innblásturinn sækir hann úr hinum ýmsu ferðalögum sem hann hefur farið í en svo fannst honum einnig kominn tími til að gera ævintýrasögur fyrir krakka sem hafa áhuga á öðrum löndum og annarri menningu. 

„að er svo ótrúlega margt sem getur gerst þegar maður er að ferðast og þó að flestir lendi ekki í svona lífshættu eins og Freyja og Frikki eru stöðugt að koma sér í er samt svo margt sem maður getur skoðað og uppgötvað í heiminum. Ég las allar ævintýrabækur sem ég komst í þegar ég var lítill strákur og skemmtilegast fannst mér að lesa um eitthvað sem var dálítið skrýtið og öðruvísi. Bækur eins og Ævintýrabækurnar, Fimm fræknu og Frank og Jói eru innblástur að sögunum um Freyju og Frikka. Þau eru bara venjulegir og skemmtilegir íslenskir krakkar sem koma sér gjarnan í mjög óvenjulega aðstæður. Mér fannst líka mikilvægt að finna hvað þeim er annt um umhverfið og dýralífið á jörðinni okkar. Það er eitt mikilvægasta málefni dagsins í dag,“ segir Felix. 

Þeir Baldur voru duglegir að ferðast með sín börn, Guðmund og Álfrúnu Perlu, á sínum tíma. 

„Við fórum t.d. með þeim til Galapagos, Perú, Ekvador og Suður Afríku. Þau voru (og eru) bestu ferðafélagar í heimi! Þau þrjú eru auðvitað minn allra stærsti innblástur. Svo dreymir mig um að fara einn góðan veðurdag í ævintýraferðir með barnabörnunum líka,“ segir Felix. 

Langaði að skrifa fyrir börn aftur

Þetta eru ekki fyrstu barnabækurnar sem Felix hefur skrifað en hann segist hafa langað til að byrja aftur að skrifa fyrir börn í nokkur ár, en að það hafi ekki verið fyrr en nú sem tími vannst til þess. Bækurnar koma út sem rafbækur og hljóðbækur hjá Storytel. 

„Mér fannst spennandi og óvenjulegt að gera þetta í þessari röð, fyrst hljóðbók og rafbók og svo (vonandi) prentuð bók! Það er líka búið að vera algjör draumur að vinna með öllu fólkinu sem kemur að þessu með mér. Það eru fjölmargir. Hópurinn hjáStorytel er frábær, Sunna Dís sem ritstýrir er dásamleg og svo fékk ég bestu leikkonu á Íslandi til að lesa hlutverk Freyju á móti mér. Hún heitir Þuríður Blær og er líka í Reykjavíkurdætrum! Svo er ekki verra að hún er kærastan hans Guðmundar, sem er sonur minn,“ segir Felix.

Felix segir Blævi vera frábæra Freyju.
Felix segir Blævi vera frábæra Freyju.

Allt öðruvísi að verða afi

Felix er svo heppinn að vera orðinn afi og segir það einfaldlegasta skemmtilegasta hlutverk í lífinu. „Nú eigum við tvö barnabörn frá árinu 2020, Arnald Snæ sem fæddist í júní og Eydísi Ylfu sem fæddist í júlí. Þau eru sem sagt bæði tveggja ára. Við erum svo heppnir afar að fá að eyða miklum tíma með þeim báðum og það er alveg dásamlegt. Mér finnst allt sem þau gera og allt sem þau segja vera eins og kraftaverk. Það er allt öðru vísi að eignast eigið barn eða eignast barnabarn. Ástin er söm en veruleikinn allt annar. En það er eiginlega ekki hægt að útskýra þetta. Ég bara mæli með þessu,“ segir Felix.

Spurður hvernig afi hann sé segist hann vona að hann sé skemmtilegur afi. „Við syngjum oft saman og lesum, kubbum eða förum út að róla en stundum er ég upptekinn í eldhúsinu að elda mat fyrir fjölskylduna. Þá lauma ég kannski eplabita eða melónu að barnabörnunum á meðan þau hin bíða eftir matnum. Skemmtilegast finnst mér þegar Arnaldur og Eydís gista hjá okkur öfunum. Þá kúrum við og gerum allt sem okkur finnst skemmtilegast,“ segir Felix.

Barnabörnin eru ekki orðin alveg nógu stór fyrir Storytel en Felix les heilmikið með krökkunum. „Nú eru þau bara einfaldlega að læra að tala og tengja saman myndir og orð. Það er dásamlega gaman að taka þátt í þeim ævintýrum með þeim. Ég er sannfærður um að þau verði bæði bókaormar og þá bíður ævintýraheimurinn hjá Storytel eftir þeim. En það kemur ekki alveg strax.“

mbl.is