„Við vorum ekki tilbúin í annað barn svona fljótt“

Viktor Freyr Hallsson og Camilla Hjördís Samúelsdóttir eiga von á …
Viktor Freyr Hallsson og Camilla Hjördís Samúelsdóttir eiga von á sínu öðru barni saman, en þau eignuðust sitt fyrsta barn saman í mars síðastliðnum. Ljósmynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Hin tvítuga Camilla Hjördís Samúelsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn, Aríu Sóleyju, ásamt eiginmanni sínum Viktori Frey Hallssyni í mars síðastliðnum, en fyrir á Viktor soninn Ólaf Fenri sem er 11 ára. Aðeins tveimur mánuðum eftir fæðinguna komst Camilla að því að hún væri orðin ófrísk aftur, en hún segir fréttirnar hafa verið mikið sjokk fyrir þau bæði. 

Camilla starfar sem kvikmyndagerðarkona og Viktor Freyr sem húðflúrari, en þau kynntust í október 2021 þegar Camilla tók skyndiákvörðun um að fá sér húðflúr. „Ég fór á næstu húðflúrsstofu og spurði hvort einhver húðflúrari væri laus til þess að flúra þann dag og þá helst bráðlega. Mér var sagt að það væri enginn laus en mér væri velkomið að panta tíma,“ segir Camilla. 

„Ég vissi að þessi skyndiákvörðun myndi deyja fljótt út og ætlaði því bara að fara án þess að panta tíma, en þegar ég var að ganga út um dyrnar kallaði afgreiðslumaðurinn á eftir mér og sagði að það væri lærlingur á bakvið sem gæti mögulega verið til í að flúra ef ég myndi treysta honum fyrir því. Ég svaraði játandi og fram kom þessi stórkostlegi og fallegi maður. Ég vissi strax að það væri eitthvað við hann, en ég hefði aldrei getað ímyndað mér þann stað sem við erum komin á í dag. Ég hef aldrei trúað á ást við fyrstu sýn en við fundum samstundis fyrir tengingu þennan dag,“ bætir hún við. 

Viktor og Camilla giftu sig hinn 18. ágúst síðastliðinn.
Viktor og Camilla giftu sig hinn 18. ágúst síðastliðinn. Ljósmynd/Stefán Aðalsteinn Drengsson

Neikvætt og jákvætt óléttupróf í sömu viku

Árið 2022 komst Camilla að því að hún væri ófrísk að sínu fyrsta barni. Aðspurð segist hún hafa verið hæstánægð með fréttirnar. „Ég grét af gleði. Við vorum búin að vera að reyna að verða ófrísk en þetta gerðist reyndar mun hraðar en við bjuggumst við,“ segir hún. 

„Aðdragandinn að jákvæða óléttuprófinu var mjög skondinn þar sem ég var búin að vera með verki í kviðnum í smá tíma. Ég fór til læknis til þess að láta athuga það, hún lét mig taka óléttupróf sem kom neikvætt út svo hún sendi mig til kvensjúkdómalæknis. Þar fór ég í venjulega skoðun og mér sagt að ég væri með blöðru á eggjastokknum,“ útskýrir Camilla.

„Ég fór þá í ómskoðun til þess að skoða þetta betur en þetta var ekkert til þess að hafa áhyggjur af. Allar þessar skoðanir og neikvæða óléttuprófið voru í sömu vikunni, en seinna þessa sömu viku fékk ég jákvætt óléttupróf og var komin fimm vikur á leið,“ bætir hún við. 

Camilla segir aðdragandann að jákvæða óléttuprófinu hafa verið skondinn.
Camilla segir aðdragandann að jákvæða óléttuprófinu hafa verið skondinn. Ljósmynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Var í „risastóru kvíðakasti“ allan tímann

Aðspurð segir Camilla meðgönguna hafa gengið vonum framar og að hún hafi ekki fundið fyrir neinum óþægindum nema aukinni þreytu og smá grindargliðnun. „Meðgangan sjálf var í raun algjör draumur. Ég gat gert flest fram á síðasta dag, nema þá að sjá fæturna á mér og beygja mig eftir hlutum á gólfinu,“ segir hún. 

Um klukkan fimm morguninn 3. mars 2023 missti Camilla svo vatnið. „Ég fór í skoðun klukkan átta hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem ritið kom ekki nógu vel út og vorum við því send á Kvennadeildina í Reykjavík. Við vorum mætt þangað klukkan 12 og mér svo tilkynnt rétt fyrir klukkan 14 að ég þyrfti að fara í bráðakeisara vegna þess að hjartsláttur Aríu datt niður við hverja hríð,“ rifjar hún upp. 

„Klukkan 14:19 var draumadísin komin í heiminn, fullkomlega heilbrigð og flott. Það versta við fæðinguna var það hvað ég er skíthrædd við aðgerðir og allt sem fylgir þeim. Þó svo að fæðingin hafi gengið mjög vel og starfsfólkið hafi verið alveg frábært þá var ég í risastóru kvíðakasti allan tímann. Svo fylgir alltaf ákveðin hræðsla við það að fæða að sjálfsögðu, verða foreldri, áhyggjur af heilsu barnsins og allt það. Það kom svo ofan á líka,“ bætir hún við. 

Viktor og Camilla ásamt dóttur sinni Aríu Sóley.
Viktor og Camilla ásamt dóttur sinni Aríu Sóley. Ljósmynd/Ragnhildur Jóhannesdóttir

Ekki búin að jafna sig eftir síðustu fæðingu

Tveimur mánuðum eftir fæðingu Aríu komst Camilla að því að hún væri orðin ófrísk aftur. „Þetta var mikið sjokk. Við vorum ekki tilbúin í annað barn svona fljótt aftur og fyrsta hugsunin var: „Hvað ef barnið fæðist líka á þessu ári?“ en þá vorum við ekki búin að fá settan dag og ég vissi ekki hversu langt ég væri gengin eða neitt,“ segir hún. 

„Ég var ekki búin að jafna mig eftir síðustu fæðingu, hvorki andlega né að fullu líkamlega og sá alls ekki fyrir mér að geta gengið í gegnum annan keisara svona fljótt aftur. Ég hafði líka áhyggjur af meðgöngunni með eina sem verður ekki orðin eins árs. Ég var líka bara alls ekki viss um að við gætum gert þetta. Að vera með tvö lítil börn er mun meira en bara að segja það. Tilhugsunin var því mjög erfið, en ég er sátt við þá ákvörðun sem við tókum og er orðin mjög spennt fyrir komandi tímum,“ bætir Camilla við. 

Camilla segir seinni meðgönguna hafa verið mjög frábrugðna þeirri fyrri. „Ég fann fyrir mikilli ógleði alveg fram að 20. viku. Ég er líkamlega verkjaðri og á mun erfiðara með daglegar athafnir en á síðustu meðgöngu. Svo er ég líka með eina mjög fjöruga sem vill alls ekki vera kyrr,“ segir hún. 

Camilla segir seinni meðgönguna vera mjög frábrugðna þeirri fyrri.
Camilla segir seinni meðgönguna vera mjög frábrugðna þeirri fyrri. Ljósmynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

„Maður fagnar og syrgir öll tímamótin á sama tíma“

Aðspurð segir Camilla lífið sannarlega hafa breyst eftir að hún varð mamma, en hún upplifir sig vera fædda í móðurhlutverkið. „Mér finnst líf mitt einkennast mun meira af ást og umhyggju. Þessi tilfinning er svo unaðsleg og mér finnst þetta vera eitt skemmtilegasta hlutverk í heimi. Mér fannst ég hreinlega fædd í þetta,“ segir hún.

„En stærsta breytingin er að ég fæ minni svefn og finnst ég alltaf þreytt. Meðgönguþreytan fær samt alveg að eiga sinn heiður að þessu líka. Það er samt skrítið að vera komin með lítið barn líka, maður getur ekki stokkið til jafn mikið og maður gerði. Hvatvís ísrúntur klukkan tíu að kvöldi heyrir næstum sögunni til í bili,“ bætir hún við. 

„Það besta við móðurhlutverkið er án efa öll þessi skilyrðislausa ást og að sjá þau vaxa og dafna þrátt fyrir að það sé líka eitt það erfiðasta við móðurhlutverkið. Það er svo bitursætt að sjá þau þroskast því maður vill bara hafa þau lítil að eilífu. Maður fagnar og syrgir öll tímamótin á sama tíma,“ segir Camilla að lokum. 

Ólafur, Camilla, Viktor og Aría saman á giftingardaginn.
Ólafur, Camilla, Viktor og Aría saman á giftingardaginn. Ljósmynd/Stefán Aðalsteinn Drengsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert