Ætlaði aldrei að verða skólastjóri

Harpa Reynisdóttir er skólastjóri í Melaskóla.
Harpa Reynisdóttir er skólastjóri í Melaskóla. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Harpa Reynisdóttir hefur getið sér gott orð á sviði skólamála í Reykjavík en hún tók nýverið við skólastjórastöðu Melaskóla sem er meðal stærstu barnaskóla Reykjavíkur. Hann var stofnaður árið 1947 og á því 77 ára sögu að baki en tæplega fimm hundruð nemendur í 1.-7. bekk sækja skólann um þessar mundir. Harpa er menntaður stærðfræðikennari en hún bjó í yfir 13 ár í Svíþjóð með fjölskyldu sinni þar sem hún starfaði meðal annars sem kennari og því óhætt að segja að hún búi yfir góðri reynslu. 

Harpa segir að í sér hafi alltaf blundað skólamanneskja þótt hún hafi ekki áttað sig á því strax enda hafi hún fyrst reynt fyrir sér í öðru námi áður en hún fór að læra kennarann.

„Ég er fædd og uppalin á Akureyri og útskrifaðist sem stúdent frá MA tvítug. Eftir það lá leið mín til Barcelona þar sem ég starfaði sem au pair. Eftir Spánardvölina fór ég á hönnunarbraut í Iðnskólanum og stefndi á að verða arkitekt. Ég vann svo á arkitektastofu í eitt sumar og tók u-beygju eftir það.“ Harpa bætir við, svolítið kímin á svip, að arkitektinn sem hún vann hjá hafi átt barn í Melaskóla og þegar hann hitti hana sagði hann að það væri honum að þakka að hún væri núna skólastjóri. „Það hafði alltaf blundað í mér að verða kennari þótt ég hafi ekki alveg áttað mig strax á því. Ég skráði mig í lögfræði og Kennaraháskólann og ákvað bara daginn áður en skólinn byrjaði að fara frekar í Kennó. Ég hef aldrei séð eftir því. Ég útskrifaðist 2004 sem stærðfræðikennari og fór þá að vinna í Réttarholtsskóla og var þar til haustsins 2007 en þá eignaðist ég mitt fyrsta barn. Í kjölfarið flutti ég til Svíþjóðar og eignaðist tvo drengi til viðbótar,“ segir hún og bætir við að hún hafi eignast þrjá drengi á þremur og hálfu ári. „Fæðingarorlofið í Svíþjóð er bara eins og fæðingarorlof eiga að vera og ég var því heima með drengina þessi fyrstu ár eftir að við fluttum út.“

Íslenskur stærðfræðikennari að kenna spænsku á sænsku í Svíþjóð

Þegar Harpa steig sín fyrstu skref í kennslunni í Svíþjóð byrjaði hún á því að kenna spænsku. „Ég var ekki alveg komin með sænskuna þegar ég byrjaði að vinna og þess vegna fór ég fyrst að kenna spænsku. Ég var sem sagt íslenskur stærðfræðikennari að kenna spænsku á sænsku í Svíþjóð, sem var alveg áskorun. Ég var að vinna með spænska texta sem ég þurfti að þýða yfir á íslensku og svo yfir á sænsku til að kenna Svíum spænsku á sænsku, þetta var oft erfitt. Það var hollt fyrir mig að byrja svona á núllpunkti, ég hafði reyndar áður upplifað að vera mállaus í nýju landi, en það var á Spáni. Mér finnst ég búa að þessari reynslu og eiga auðveldara með að setja mig spor þeirra sem eru í svipaðri stöðu hér á Íslandi. Þegar ég var svo orðin betri í sænskunni fór ég að kenna stærðfræði líka, aðallega á unglingastigi og aðeins á miðstigi. Síðustu árin var ég svo líka komin í stjórnunarverkefni sem er svipað og deildarstjórar hér í skólakerfinu og svo var ég líka í stjórn skólans.“

Harpa hafði bara komið í Vesturbæinn til að tapa fyrir …
Harpa hafði bara komið í Vesturbæinn til að tapa fyrir KR áður en hún varð skólastjóri Melaskóla. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Aldrei fundist hún gera eins mikið gagn og þegar hún vann með innflytjendabörn

Harpa bjó í Helsingborg í sex ár og sjö ár í litlum bæ rétt fyrir utan Uppsala en hún segir skólana sem hún starfaði við í þessum borgum hafa verið mjög ólíka. „Í Helsingborg var ég að vinna í innflytjendahverfi með mikið af flóttabörnum, sum þeirra höfðu komið ein til landsins og höfðu ekkert bakland. Þetta var mikil reynsla fyrir mig og gat verið mjög krefjandi. Börn eru eins hvar sem þau eru í heiminum, þau eiga sér drauma og hafa væntingar til framtíðarinnar. Ég var umsjónarkennari í þrjátíu nemenda bekk og það var enginn Svíi í hópnum. Sumir þessara nemenda kviðu sumarfríinu sem við hlökkum yfirleitt til, því þau áttu engan að, þau fengu alla vega eina heita máltíð í skólanum á dag. Mér hefur sjaldan fundist ég gera eins mikið gagn og þegar ég vann þarna. Margir af þessum nemendum hafa plumað sig vel og einhver þeirra eru í sambandi við mig, sem er dýrmætt. Hinn skólinn sem ég vann í var í hverfi sem er töluvert líkt Vesturbænum, þar var velmegun og hátt menntunarstig. En auðvitað líka fjölbreytileiki og vandamál, bara öðruvísi vandamál sem við þekkjum hér hjá okkur eins og kvíði og einhver vanlíðan.“

Var veidd í skólastjórastarfið eftir að hún flutti heim

Hvernig kom það svo til að hún hafi orðið skólastjóri í Melaskóla? „Við fluttum heim árið 2021 og þá hafði Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla samband og bauð mér að koma og kenna í Réttó. Ég var mjög spennt fyrir því þar sem ég þekkti til skólans og vissi hvað var verið að vinna gott starf þar. Stuttu seinna hafði Jón Pétur aftur samband og nú til að spyrja hvort ég vildi verða aðstoðarskólastjóri í Melaskóla en hann hafði verið skipaður skólastjóri þar til eins árs. Ég þurfti ekkert að hugsa mig lengi um því mér finnst gaman að takast á við áskoranir og spennandi að vinna með góðu fólki. Ég vissi að við hefðum svipaða sýn á margt í skólamálum þótt við getum líka alveg verið ósammála, sem er gott. Það hafði aldrei verið neinn draumur hjá mér að verða skólastjóri en ég var spennt fyrir því að vinna með Jóni Pétri og takast á við þetta verkefni.“

Í Svíþjóð byrjaði Harpa á því að kenna spænsku.
Í Svíþjóð byrjaði Harpa á því að kenna spænsku. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Miklar áskoranir að koma inn í rótgróinn skóla með sterkar hefðir

Harpa segir það hafa verið krefjandi að koma inn í rótgróinn skóla þar sem hafi verið miklar en góðar hefðir. „Ég held að það hafi í raun verið kostur að ég þekkti lítið til í hverfinu, nýkomin heim eftir 13 ára dvöl erlendis, því það voru allskonar áskoranir þetta ár sem við Jón Pétur störfuðum hér saman. Hér var kraftmikið og gott starfsfólk en það hafði vantað svolítinn stöðugleika í stjórnunina. Skólinn hafði samt alltaf haldist á floti þar sem skólasamfélagið var öflugt, byggt á góðum kennurum og starfsmönnum. Eftir þetta ár fór Jón Pétur aftur í Réttarholtsskóla og mér var boðið að taka við sem skólastjóri. Ég viðurkenni að ég þurfti alveg að hugsa mig um,“ segir Harpa svolítið ákveðin. „Ég hef aldrei sóst eftir því að stjórna hópi af fólki og vera einhver stjóri, ég er ekki þannig stjórnandi. En það var eitthvað sem heillaði mig við þetta verkefni. Mér var vel tekið af samfélaginu þótt þetta hafi verið sársaukafullar aðgerðir sem við fórum í. Ég upplifi þetta samfélag svolítið eins og þorp úti á landi, það eru u.þ.b. 600 manns sem eru í og starfa við skólann á hverjum degi. Það er fyndið að segja frá því en ég hafði varla komið í Vesturbæinn nema til að tapa fyrir KR í Kaplaskjóli,“ bætir hún við svolítið glettin og segir að sig hafi langað til að vera áfram á þessum stað.

Melaskóli er gamall skóli með miklar en góðar hefðir.
Melaskóli er gamall skóli með miklar en góðar hefðir. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert