Fékk allt of mikið í fermingargjöf

Jafet Máni Magnússon fermdist 10. apríl 2011.
Jafet Máni Magnússon fermdist 10. apríl 2011. Samsett mynd

Jafet Máni Magnúsarson, leikari og flugþjónn, fermdist borgaralega þann 10. apríl árið 2011. Jafet Máni á góðar minningar frá veislunni þó svo að það hafi ekki allt farið eftir áætlun.

Jafet Máni segir að hann hafi ekki breyst mikið frá því að hann fermdist. „Á þeim tíma fannst mér ótrúlega gaman að leika ólíka karaktera í ólíkum leikritum sem ég og frændi minn sömdum. Á sama tíma voru margir jafnaldrar mínir með háleit markmið í íþróttum, þar sem ég var alls ekki sterkur. Þetta virðist ekki hafa elst af mér,“ segir Jafet Máni þegar hann lítur til baka.

Manstu eftir fermingunni sjálfri eða fermingarfræðslunni?

„Það sem er minnisstætt frá þessum tíma er helst fermingafræðslan í Kvennaskólanum, fræðslan og verkefnin sérstaklega, þau höfðuðu til mín. Þá var ég einnig mjög spenntur fyrir sjálfum deginum og tók það mjög alvarlega að vera hápunktur veislu um fullorðinsvígslu, langlægstur og með bollukinnar! Ég man hvað mér fannst þetta stór viðburður og merkilegt að heyra að ég væri formlega kominn í fullorðinna manna tölu.“

Hvernig var veislan þín?

„Veislan var haldin í húsi Einars Ben. við Elliðavatn og það var pantaður pinnamatur frá veitingastaðnum Höfninni.“

Jafet Máni var mjög spenntur fyrir fermingunni sinni.
Jafet Máni var mjög spenntur fyrir fermingunni sinni.

Lést þú ljós þitt skína í veislunni?

„Ég hélt ræðu í veislunni og samkvæmt foreldrum mínum þá hafði sú ræða ekki fengið mikla yfirlegu heldur verið samin á staðnum með tilheyrandi braki og brestum enda að byrja í mútum. Hrafnhildur Ylfa, systir mín, söng lagið Elska þig eftir Mannakorn og pabbi hafði ætlað að spila myndband í tölvunni með ljósmyndasafni og lagi sem hann hafði tekið upp með mér þegar ég var sex ára en það varð aldrei úr því þar sem að afi minn hafði hellt niður tveimur lítrum af Coca Cola yfir tölvuna, svo það var svona smádramtískur hálftími en pabbi söng og spilaði á gítar í staðinn!“

Fórst þú í myndatöku?

„Jájájá, biddu fyrir þér. Myndirnar voru góðar en heldur uppstilltar og ef þær eru skoðaðar í heild þá er eins og ég hafi haft áhuga á öllu en ég var myndaður með boxhanska, gítar, fótbolta og fleira sem tengdist mér ekki á neinn hátt en myndirnar urðu líflegri fyrir vikið. Ég fann einungis eina úr myndatökunni sjálfri án þess að fara í gegnum óflokkaða geymslu. Það var kannski ágætt að ég fann ekki fleiri en á myndinni sem ég fann lít ég út fyrir að vera móðir mömmu minnar. Held að það verði ekki skipulagðar frekari leitir að þessum myndum!

Hvað fékkst þú í fermingargjöf?

„Alltof mikið. Ég fékk peningagjafir, iPad, utanlandsferð og bækur.“

Fermingarmyndirnar eru flestar komnar niður í geymslu. Á þessari mynd …
Fermingarmyndirnar eru flestar komnar niður í geymslu. Á þessari mynd er Jafet Máni með móður sinni, Þóru Ólafsdóttur.

Hvað væri á óskalistanum ef þú værir að fermast í dag, árið 2024?

„Ég væri alveg til í aðra umferð á þeim gjöfum sem ég fékk þá, þær eru alveg yfirdrifnar og meira en ég á skilið.“

Hvað finnst þér mikilvægt að fermingarbörn hafi í huga?

„Ég held að fermingarbörn hafi bara ágætis dómgreind og hugi að nægu. Ef ég gæti haft áhrif á einhvern þá væri það að sýna sér og öðru fólki kærleika. Öðru er alltaf hægt að redda og laga eftir á.“

Ljósmynd/Dóra Dúna
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert