Draumurinn rættist út frá smáauglýsingu í Morg­un­blaðinu

Hildur Helga Jónsdóttir er 29 ára dýralæknanemi búsett í Kaupmannahöfn.
Hildur Helga Jónsdóttir er 29 ára dýralæknanemi búsett í Kaupmannahöfn. Samsett mynd

Hildur Helga Jónsdóttir var 13 ára gömul þegar langþráður draumur hennar um að eignast hund rættist, en hún náði að sannfæra föður sinn um að koma með sér að skoða Golden Retriver got sem hún sá auglýst í smáauglýsingadálk Morgunblaðsins. Hildur segist hafa valið sér stærsta hvolpinn í gotinu sem fékk nafnið Jökull og átti fjölskyldan 13 dýrmæt ár með honum. 

Í dag er Hildur 29 ára gömul og er búsett í Kaupmannahöfn ásamt eiginmanni sínum Dagfinni Ara Normann, syni þeirra Ými Erni og Border Collie-hundinum Ottó. Hildur stundar nám í dýralækningum við Kaupmannahafnarháskólann í Frederiksberg. „Námið er fimm og hálft ár, og ég er á fimmta árinu. Námið er allt kennt á dönsku og hefur það gengið framar vonum. Ég fór út bara með dönskukunnáttu frá menntaskóla, tók inntökupróf sem var á dönsku og komst inn,“ segir hún. 

„Vissulega var maður frekar þreyttur fyrstu mánuðina í náminu að reyna að skilja allt sem kennararnir voru að segja, en ég er þakklát í dag fyrir að hafa ekki látið dönskuna stoppa mig í að elta drauminn til Kaupmannahafnar. Námið er ótrúlega skemmtilegt, fyrstu þrjú árin eru mest bókleg, með verklegum tímum í bland. En síðustu árin eru svo mest á gæludýraspítalanum og hestaspítalanum ásamt því að fara á svínabú, kúabú og í sláturhús. Þá byrjar sko fjörið að nota alla þekkinguna sem maður er búinn að vera að lesa sér til um síðustu ár,“ bætir hún við. 

Dagfinnur og Hildur ásamt hundinum sínum Ottó sem er tveggja …
Dagfinnur og Hildur ásamt hundinum sínum Ottó sem er tveggja ára gamall af tegundinni Border Collie.

Aðspurð segist Hildur hafa verið mjög ung þegar hún vissi að hún vildi verða dýralæknir. „Svo var ég ekki beint að hugsa um það í menntaskóla, enda er ekkert dýralæknanám á Íslandi. Ég var samt alltaf hrifnust af líffræði í skóla, svo ég skráði mig í BS nám í líffræði við Háskóla Íslands. Ég sé sko ekki eftir því og kynntist frábærum krökkum þar!

Ég var samt alltaf með hugann við að sækja um í dýralæknanám, en ákvað samt að klára líffræðigráðuna fyrst. Vorið 2019 sótti ég loksins um, og mér til mikillar gleði komst ég inn í Kaupmannahöfn og flutti út um haustið. Ég finn að ég er algjörlega á réttri hillu í lífinu að hafa valið þetta nám,“ segir Hildur. 

Hildur var ung þegar hún ákvað að hún ætlaði að …
Hildur var ung þegar hún ákvað að hún ætlaði að verða dýralæknir.

Mikið frelsi að vera ekki háður bíl

Fjölskyldan kann afar vel við sig í Kaupmannahöfn og segja því fylgja margir kostir að búa þar. Hildur viðurkennir þó að þau sakni íslensku sundlauganna og fjallanna. „Kaupmannahöfn er frábær, en ég hef búið í þremur mismunandi hverfum sem eru öll mjög ólík. Nú bý ég á Amager Strand með manninum mínum Dagfinni, fjögurra mánaða syni okkar Ými Erni og hundinum okkar Ottó. Við erum nálægt ströndinni svo það er stutt í náttúru og auðvelt að koma sér út úr borgaráreitinu, en á sama tíma hægt að hoppa upp í metro og vera kominn á Kongens Nytorv á um 10 mínútum,“ segir hún. 

„Það er rosalegt frelsi að vera ekki háður bíl eins og heima á Íslandi, en við förum allt gangandi, hjólandi eða í metro og lest. Við eigum líka rafmagnshjól með kassa þar sem við komumst öll fyrir með hundinn,“ bætir Hildur við.

Fjölskyldan hefur komið sér afar vel fyrir í Kaupmannahöfn.
Fjölskyldan hefur komið sér afar vel fyrir í Kaupmannahöfn.

Hjónin höfðu lengi talað um að þau vildu eignast hund í Danmörku og höfðu því skoðað kosti og galla ýmissa hundategunda áður en Ottó kom inn í líf þeirra fyrir tveimur árum. „Border Collie varð fyrir valinu og ég hafði því augun opin fyrir goti hjá ræktanda sem mér leist vel á. Það leið ekki langur tími þar til hún setur mynd á síðuna sína og segir að það sé einn rakki ennþá í heimilisleit úr nýju goti. Við ákváðum að horfa á þetta sem merki um að þetta væri hundurinn okkar,“ segir Hildur. 

Hvað var það sem heillaði þig við tegundina?

„Border Collie eru smalahundar í grunninn, en í dag er oft talað um tvær ólíkar genalínur, vinnuhundar eða sýningarhundar. Sýningahundar eru ræktaðir eftir útlitsstöðlum frekar en góðum smala eiginleikum, og eru því oftar hentugri í fjölskyldu- og borgarlíf.

Við hjónin elskum bæði stórar, loðnar hundategundir, en þar sem við búum í íbúð þá vildum við ekki velja okkur stærstu og þyngstu tegundirnar. Við vildum geðgóðan, kláran fjölskylduhund sem er alltaf til í útiveru. Þess vegna fannst okkur Border Collie passa inn í okkar lífstíl.“

Hildur og Dagfinnur sáu fljótt að Border Collie væri tegund …
Hildur og Dagfinnur sáu fljótt að Border Collie væri tegund sem hentaði þeirra lífsstíl afar vel.

Langþráður draumur sem rættist loksins 

Áttir þú gæludýr þegar þú varst yngri?

„Það var draumur minn frá því ég var fimm ára að eignast hund af tegundinni Golden Retriever, en á þeim tíma voru þeir ekki algengir á Íslandi og mamma var ekki til í að fá hund á heimilið. Ég náði að sannfæra pabba þegar ég var 13 ára að fara og skoða got sem ég fann í smáauglýsingunum í Morgunblaðinu, held hann hafi ekki einu sinni sagt mömmu frá því. En þá var ekki aftur snúið og ég valdi mér stærsta hvolpinn í gotinu sem fékk nafnið Jökull. Mamma endaði þó á að verða hans langbesti vinur, og fór meira að segja í hundagönguhóp þar sem við kynntumst öðru frábæru hundafólki.“

Hildur var 13 ára þegar langþráður draumur hennar rættist.
Hildur var 13 ára þegar langþráður draumur hennar rættist.

„Hann Jökull var yndislegur hundur, rólegur bangsi sem skilur eftir sig rúm 13 ár af ómetanlegum minningum. Það má segja að hann hafi algjörlega breytt lífinu, við hefðum til dæmis örugglega aldrei keypt okkur fellihýsi hefði það ekki verið fyrir hann, og hann var klárlega stór ástæða fyrir að ég ákvað að elta drauminn og verða dýralæknir.“

Falleg mynd af Hildi og Jökli sem áttu 13 frábær …
Falleg mynd af Hildi og Jökli sem áttu 13 frábær ár saman.

Hverjir eru kostirnir við að eiga hund?

„Kostir þess að eiga hund er að hann gerir venjulega hversdagslega hluti skemmtilega. Allt er betra með glaðan hund sér við hlið. Það er líka frábært fyrir líkama og sál að þurfa að fara út í göngutúr alla daga, anda að sér fersku lofti, sjá gleðina hjá hundinum sínum og ná að núllstilla sig.“

Hildur nýtur þess að fara út í göngu og hreyfa …
Hildur nýtur þess að fara út í göngu og hreyfa sig með Ottó!

En ókostirnir?

„Helsti ókosturinn sem mætti nefna er skuldbindingin sem ekki allir átta sig á áður en þeir fá sér hund. Það er mikil vinna að þjálfa upp góðan hund og dýralæknakostnaður getur orðið mikill ef upp koma einhver vandamál. Við vissum þó hvað við værum að fara út í og finnst okkur þessi binding klárlega þess virði.

Margir eru með sparnaðarreikninga til að safna sér fyrir einhverju, en sem gæludýraeigandi verður maður að vera viðbúinn óvæntum kostnaði ef hundurinn lendir í slysi eða verður veikur. Ég hef því líka einn reikning tileinkaðan Ottó fyrir slík útgjöld, sem ég mæli með að allir geri! Og auðvitað fá sér gæludýratryggingar.“

Hér má sjá ofurkrúttlega mynd af Ottó þegar hann var …
Hér má sjá ofurkrúttlega mynd af Ottó þegar hann var hvolpur.

Fær stundum að fara með í vinnuna

Hver er ykkar daglega rútína?

„Ottó hoppar oftast upp í rúm á morgnanna og knúsast í okkur, en þá er komið að morgungöngutúr. Maðurinn minn er í fjarvinnu, svo hann vinnur heima. Þeir eru því saman á daginn, en hann kom líka stundum með mér í vinnuna þegar ég var að vinna á dýralæknastofu hér á Amager áður en ég fór í fæðingarorlof.

Ottó fær að meðaltali þrjá göngutúra á dag, mislanga, sem við hjónin skiptum á milli okkar eða förum öll saman út. Þar að auki fær hann stutta þjálfun eða heilaþrautir til að leysa alla daga. Á kvöldin, eftir síðasta göngutúrinn, er Ottó rosalega duglegur að láta bursta í sér tennurnar fyrir svefninn.“

Ottó fer að meðaltali í þrjá göngutúra á dag.
Ottó fer að meðaltali í þrjá göngutúra á dag.

Hafið þið deilt einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum eða skemmtilegum minningum?

„Allir dagar eru skemmtilegri með honum! Ottó hefur farið með okkur út um allt. Hann hefur ferðast með okkur um Danmörku og nokkrum sinnum til Svíþjóðar. Hann er mjög rólegur í samgöngum, en við kenndum honum strax þegar hann var ungur að fara reglulega í metro, lest og strætó.

Hann fer líka með okkur í bæinn, röltir með okkur um Magasin verslunarhúsið, en hundar eru leyfðir þar. Hann hefur komið með mér í skólann þar sem hann var að aðstoða okkur í sónartíma. Svo er hann yndislega ljúfur við son okkar, en ég get ekki beðið eftir að bæta fleiri minningum í bankann og sjá þá alast upp saman.“

Hjónin kenndu Ottó snemma að fara í metro, lest og …
Hjónin kenndu Ottó snemma að fara í metro, lest og strætó.

Er með vegabréf sem virkar innan Evrópu

Er hundurinn með einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Maðurinn minn keypti takka fyrir hunda sem við töluðum inn á, og það er magnað hvað Ottó var fljótur að læra á takkana! Fyrst hélt ég að hann væri bara að ýta á einhvern takka, en það er mjög augljóst að hann veit hvaða takka hann er að velja. Hann á sex takka eins og er, sem segja: leika, út, borða mat, drekka vatn, mamma, pabbi. Aldrei að vita nema við bætum við fleiri tökkum.“

Ottó er fljótur að læra.
Ottó er fljótur að læra.

Hvernig gengur að skipuleggja frí með dýr á heimilinu?

„Við höfum hingað til tekið hann með okkur í ferðir til Svíþjóðar og það er minnsta málið. Hann á vegabréf sem virkar innan Evrópu og er með gildar bólusetningar fyrir ferðalögin. Þegar við förum til Íslands erum við í þeirri forréttindastöðu að eiga fullt af góðum dýralæknavinum sem eru alltaf til í að passa Ottó þegar við skreppum heim.

Þó svo að það væri gaman að geta tekið hann með í heimsóknir til Íslands, þá hef ég séð í gegnum námið og vinnuna mína hér úti, hvað Ísland er í raun lánsamt að vera eyja og geta verið laus ýmis sníkjudýr og sjúkdóma sem eru nokkuð algeng hér úti, með því að senda dýrin í bólusetningar, mælingar og einangrun við innflutning. Einn daginn fær Ottó þó vonandi að njóta íslenska loftsins og fjallanna.“

Ottó hefur fengið að koma með Hildi í skólann.
Ottó hefur fengið að koma með Hildi í skólann.

Einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?

„Mikilvægt að kynna sér strax frá byrjun hvernig þú vilt þjálfa upp hundinn þinn, annað en bara að kenna honum að sitja og liggja. Sem tilvonandi dýralæknir þá mæli ég með að þjálfa hundinn strax í að skoða eyrun, augun, klippa klær og bursta tennurnar – það er ekki eðlilegt að hundur sé andfúll.

Það er líka sniðugt að þurrka alltaf loppurnar eftir göngutúr til að fyrirbyggja sveppasýkingar. Í þjálfun er heldur ekki nóg að segja bara nei, maður þarf að leiðrétta ranga hegðun með því að kenna þeim hvað þeir eiga þá að gera í staðinn, og hrósa þeim vel fyrir það, aftur og aftur. Þolinmæði og samræmi milli eiganda og hunds er lykilatriði.

Mér finnst gott að minna sig á þegar maður á þreytta daga að gefa sér tíma fyrir hundinn sinn – þeir eru bara stuttur partur af okkar ævi, en fyrir þeim erum við öll þeirra ævi.“

Hildur er með góð og hagnýt ráð fyrir aðra gæludýraeigendur!
Hildur er með góð og hagnýt ráð fyrir aðra gæludýraeigendur!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert