Fimm uppeldisráð Baldurs Þórhallssonar

Baldur Þórhallsson er giftur Felixi Bergssyni og eiga þeir tvö …
Baldur Þórhallsson er giftur Felixi Bergssyni og eiga þeir tvö börn, Álfrúnu Perlu og Guðmund. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi á stóra samsetta fjölskyldu sem hefur bara stækkað og dafnað á síðustu árum eftir að barnabörnin komu til sögunnar. Þegar Baldur og Felix kynnast þá eiga þeir sitt hvort barnið frá fyrri samböndum. Á þeim tíma var fáheyrt að tveir feður með börn gætu talist sem fullgild fjölskylda en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.

Baldur og Felix leggja mikið upp úr að skapa jákvæðar samverustundir með fjölskyldunni.

Felix og Baldur eiga samrýmda fjölskyldu.
Felix og Baldur eiga samrýmda fjölskyldu. mbl.is/Ásdís

Fáar en skýrar reglur

„Okkur Felix þykir sérstaklega vænt um að taka þátt í þessum lið enda var staðan sú, þegar börnin okkar voru lítil, að sumir litu ekki á okkur sem foreldraeiningu. Því hefði ólíklega verið leitað til okkar eftir skoðun á máli sem þessu sem er okkur þó hjartans mál,“ segir Baldur.

„Almennt gildir á okkar heimili að hafa fáar en skýrar reglur og leggja áherslu á að leggja mörk sem eru skýr og ekki sveigjanleg. Við borðum alltaf saman kvöldmat og höfum haldið þeirri hefð í gegnum kosningabaráttuna eftir fremsta megni. En hér að neðan eru fimm atriði sem hafa skipt okkur máli og haft mótandi áhrif á heimilishaldið okkar.“

1. Spilakvöld stuðla að jákvæðri samveru

„Okkur þykir mikilvægt að snemma séu byggðar upp hefðir með samveru að leiðarljósi. Spilakvöld, bæði með og án vina, eru t.a.m. stórskemmtileg og stuðla að jákvæðri samveru. Þegar börnin svo eldast, og eru ef til vill komin á táningsaldur, gæti reynst flóknara að innleiða slíka samveru. Þessu til viðbótar má minnast á að við eigum stóra samsetta fjölskyldu og samverustundir sem þessar eru tilvaldar til þess að byggja upp samskipti á milli allra heimila en á slíkt höfum við lagt mikla áherslu.“

2. Leyfa börnum að taka þátt í heimilisstörfum

„Heimilisstörfin eru mörg og margvísleg. Leyfið börnunum að taka þátt strax og þau sýna því áhuga - þótt það kunni að taka lengri tíma. Setjið saman í þvottavél og uppþvottavél og verið þeim til aðstoðar og leiðbeiningar í flóknari verkefnum sem krefjast meiri þroska; að skera niður í salatið eða slá grasið. Leyfið öllu heimilishaldi að vera samvinnuverkefni frá upphafi, því hér gildir það sama og með samveruna; ef samvinnan er ekki lögð inn frá byrjun gæti reynst erfitt að fá unglinginn til að setja diskinn í fyrsta skipti í uppþvottavélina.“

3. Hlusta á litlu sögurnar með athygli

„Berið sömu virðingu fyrir börnum og fullorðnum. Talið við þau með sama hætti og talið bæði við þau og vini þeirra. Þannig myndast tengsl sem verða aldrei frá ykkur tekin. Ef hlustað er á litlu sögur barnanna, eins og hver borðaði hvað á leikskólanum, er líklegra að þið fáið að heyra stóru sögurnar þegar þau eldast.“

4. Börn spurð um þjóðmálin með sama hætti og fullorðnir

„Mamma mín, verslunarkona á Ægissíðu á Rangárvöllum, lagði alltaf áherslu á að smáfólkið fengi líka að setjast til borðs með sama fallega borðbúnaðinn og fullorðið fólk. Sömuleiðis að þau væru spurð, með sama hætti og fullorðnir, um það hvað þeim finnst um þjóðmálin, veðrið og búskapinn. Við Felix höfum haldið í þá hefð.“

5. Áhersla á lestur og tónlist

„Lestur og tónlist er í hávegum höfð á okkar heimili. Við leggjum áherslu á að lesa fyrir börnin bækur og segja þeim sögur, syngja lög og spila tónlist. Þar eru börnin einstaklega heppin með pabba Felix sem er tónlistarmaður og leikari og þekkir gildi þessa sérstaklega vel. Lestur og tónlist eru einstaklega þroskandi fyrir málþroska en ekki minna dýrmætar samverustundir.“

Fjölskyldan er afar samrýnd. Frá vinstri má sjá Álfrúnu Perlu …
Fjölskyldan er afar samrýnd. Frá vinstri má sjá Álfrúnu Perlu Baldurdóttur, Árna Frey Magnússon, Arnald Snæ Guðmundsson, Baldur og Felix, Eydísi Ylfu Árnadóttur, Þuríði Blæ Jóhannsdóttur og Guðmund Felixson. Ljósmynd/Eygló Gísladóttir
Þuríður Blær Jóhannesdóttir tengdadóttir Baldurs gefur sig alla í baráttuna.
Þuríður Blær Jóhannesdóttir tengdadóttir Baldurs gefur sig alla í baráttuna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka