Yrsa í dönsku viðtali: Gaf ljótu hugsununum frelsi

Yrsa Sigurðardóttir.
Yrsa Sigurðardóttir. mbl.is/RAX

„Ég var dauðþreytt á því að vera skemmtileg. Og það er ágætt að fá tækifæri til að vera svolítið ógeðsleg. Þegar maður skrifar fyrir börn er ekki hægt að skilja við þau með óbragð í munninum. Þessi bók inniheldur því allt sem ég gat ekki skrifað um í barnabókunum. Það er hægt að orða það svo, að „ljótu" hugsanirnar mínar hafi fengið frelsi."

Þetta segir Yrsa Sigurðardóttir m.a. í löngu og skemmtilegu viðtali við bókablað danska blaðsins Politiken í dag, en bók Yrsu, Þriðja táknið, kom nýlega út þar í landi í þýðingu Áslaugar Th. Rögnvaldsdóttur og hefur fengið góða dóma gagnrýnenda. Þetta var fyrsta bók Yrsu fyrir fullorðna en áður hafði hún skrifað verðlaunaðar barnabækur.

Þriðja táknið fjallar m.a. um íslenskar galdrabækur frá miðöldum og Yrsa segist í viðtalinu hafa lesið allt sem hún komst yfir um atburði á Íslandi á tímabilinu 1500-1700. Segir hún, að fólk ætti að þakka fyrir það á hverjum degi að vera ekki uppi á þeim tíma því það hafi verið hræðilegt tímabil.

Hún las síðan allt sem hún fann um nornaveiðar, pyntingar og réttarhöld yfir galdramönnum. „Ég var dyggur viðskiptavinur netbókabúðarinnar Amazon.com. Svo dyggur, að ég er skráð í gagnabanka fyrirtækisins sem einskonar siðblindingi sem hafi aðeins áhuga á ógeðslegum hlutum. Ég fæ enn tölvupósta frá þeim þegar eitthvað er á boðstólum sem talið er að ég hafi áhuga á: dagbækur Pol Pots o.s.frv." segir Yrsa.

Hún ypplýsir að hún sé langt komin með nýja bók um lögfræðinginn Þóru, sem einnig var söguhetja Þriðja táknsins. Að þessu sinni flækist Þóra í morðmál á hóteli á Snæfellsnesi þar sem einnig er afar reimt. Bókin hefst á að barn er myrt árið 1945 og rúmum 60 árum síðar er framið morð á hótelinu. Smám saman kemur í ljós hvernig morðin tvö tengjast. Yrsa segist gjarnan vilja skrifa um hluti sem hún sjálf hafi áhuga á að lesa og hún hafi gaman af að lesa bækur með sagnfræðilegum skírskotunum. Þá segir hún að Snæfellsjökull hafi í hugum Íslendinga yfirnáttúrulega krafta og því hafi draugar alltaf verið áberandi í þjóðsögum frá þessu svæði.

Yrsa er verkfræðingur sem starfar við Kárahnjúkavirkjun. Hún segir í viðtalinu að glæpasöguskriftir eigi afar vel við verkfræðinga vegna þess að þeir hafi fengið þjálfun í að leysa verkefni sem þeim eru fengin þótt glæpasöguhöfundar þurfti raunar sjálfir að finna verkefnin sem þarf að leysa. „Glæpasögur passa vel við hugsunargang verkfræðinga. En þeir verða hins vegar aldrei gamansagnahöfundar."

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Frestaðu ákvörðun, þar til þú er alveg viss um hana. Taktu stjórnina í þínar hendur í stað þess að láta tilviljanirnar ráða ferðinni.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Frestaðu ákvörðun, þar til þú er alveg viss um hana. Taktu stjórnina í þínar hendur í stað þess að láta tilviljanirnar ráða ferðinni.