Bróðir Svartúlfs sigraði

Liðsmenn Bróður Svartúlfs voru að vonum sigurreifir.
Liðsmenn Bróður Svartúlfs voru að vonum sigurreifir. Ljósmynd/Björg Sveinsdóttir

Músíktilraunum lauk í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsinu í kvöld, en þá kepptu til úrslita þær ellefu hljómsveitir sem komust áfram upp úr undankeppninni.

Leikar fóru svo að skagfirska rokkrappsveitin Bróðir Svartúlfs sigraði í Músíktilraunum 2009. Í öðru sæti varð tónlistarmaðurinn Leifur Eiríksson, sem kallar sig Ljósvaka, og Álftnesingarnir The Vintage hrepptu þriðja sætið. Hljómsveitin Blanco var valin Hljómsveit fólksins, en þau verðlaun veita áheyrendur í sal og hlustendur Rásar 2 um land allt. Í verðlaun voru hljóðverstímar, upptökubúnaður, ferðavinningar og fleira.

Einnig fengu efnilegustu hljóðfæraleikarar verðlaun; Óskar Logi Ágústsson í The Vintage var valinn efnilegasti gítarleikari Músíktilrauna, Jón Atli Magnússon í Bróðir Svartúlfs efnilegasti bassaleikari, Bergur Einar Dagbjartsson í Flawless Error efnilegasti trommuleikari, Almar Freyr Fannarsson í Earendel efnilegasti söngvari og Leifur Eiríksson Ljósvaki efnilegasti hljómborðsleikari.

mbl.is

Bloggað um fréttina