Sendir Ísland rapplag í Eurovision?

Næst­kom­andi laug­ar­dags­kvöld fer seinni und­an­keppni Söngv­akeppni Sjón­varps­ins fram í Há­skóla­bíói. Sex lög taka þátt í keppn­inni líkt og fyrra kvöldið. Næstu vik­una mun mbl.is gefa les­end­um sín­um ör­lítið nán­ari inn­sýn í fólkið að baki hverju og einu lagi enda er mik­il­vægt að vanda valið þegar þjóðaríþrótt­in Eurovisi­on er ann­ars veg­ar.

Júlí Heiðar Halldórsson hefur margsinnis sent lag í Söngvakeppni Sjónvarpsins en aldrei haft erindi sem erfiði fyrr en nú. Lag hans „Spring yfir heiminn“ er flutt af söngkonunni Þórdísi Birnu Borgarsdóttur og Guðmundi Snorra Sigurðarsyni, sem var fjarri góðu gamni þegar mbl.is settist niður með hópnum og er því leikinn af sokkabrúðu í myndbandinu hér að ofan, eðlilega.

„Þetta er ekki alveg svona týpísk ballaða,“ segir Þórdís um lagið og Júlí tekur undir. „Rappið sker okkur svolítið frá hinum.“

Það hefur ýmislegt verið reynt í Eurovision áður, þar á meðal rapp, en rapplag hefur aldrei unnið keppnina. Þau Júlí og Þórdís eru þó fljót að benda á að hinn gríska Stereo Mike sem lenti í sjöunda sæti í Eurovision árið 2011 með lagið „Watch My Dance“. 

Þórdís segist hafa farið í fýlu og hætt að horfa á Eurovision eftir að Selma komst ekki í úrslit keppninnar árið 2005. „Ég var brjáluð, þetta var bara ömurleg keppni. En svo hætti mér að finnast það og kannski minnkaði unglingaveikin aðeins. Þetta var kannski ekki svona ógeðslega hallærislegt og það er kannski líka bara gaman að hafa það smá hallærislegt í lífinu.“

 

Þrjú lög kom­ast áfram úr hvorri und­an­keppni auk þess sem dóm­nefnd hef­ur mögu­leika á að hleypa sjö­unda lag­inu áfram, telji hún það eiga sér­stakt er­indi í úr­slit. Fylg­ist áfram með á mbl.is þar sem öll­um kepp­end­um verða gerð skil.

mbl.is