Urðu óvart „emo“

Jamie xx segir að hljómsveitin hafi tekið bestu hluta síðustu …
Jamie xx segir að hljómsveitin hafi tekið bestu hluta síðustu plötu sinnar á Íslandi. Ljósmynd/ Lillie Eiger

Breska indí/draumpoppsveitin The xx voru stofnuð árið 2005 og varð heimsfræg árið 2010 þegar fyrsta platan fékk frábæra dóma og vann meðal annars til hinna virtu Mercury-verðlauna. Hljómsveitin var með áform um að halda tónlistarhátíð við Skógafoss nú í júlí þar sem fjöldi erlendra sem innlendra tónlistarmanna átti að koma fram. Fimm þúsund miðar voru til sölu á hátíðina, sem átti að hafa umhverfissjónarmið í hávegum enda hljómsveitinni sérlega umhugað um slík mál.

Á mánudaginn barst hins vegar tilkynning frá aðstandendum hátíðarinnar um að hún yrði blásin af vegna þess að hve viðkvæmt ástand svæðisins við Skógafoss er um þessar mundir. Umhverfisstofnun tók ákvörðun um að setja fossinn á rauðan lista, þar sem svæðið hefur látið gríðarlega á sjá vegna mikillar fjölgunar ferðamanna. „Í ljósi þess vilja skipuleggjendur hátíðarinnar ekki auka álag á svæðið en auk þess er ljóst að það er ekki nægur tími að tryggja að viðburðurinn hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfið og náttúruna,“ sagði í tilkynningu, en allir miðar verða endurgreiddir að fullu.

The xx á Íslandi með Seljalandsfoss í baksýn.
The xx á Íslandi með Seljalandsfoss í baksýn.

Vildu snúa aftur

Einn liðsmaður sveitarinnar er upptökustjórinn Jamie xx, sem hefur einnig átt mjög farsælan sólóferill sem plötusnúður og tónlistarmaður. Morgunblaðið hitti á hann fyrir skömmu, morguninn eftir að hann spilaði á hipsterakvöldinu Boiler Room sem átti sér stað á Pedersensvítunni í Gamla bíói undir berum himni. Hljómsveitin kynntist Íslandi fyrst fyrir um tveimur árum þegar hún tróð upp í Gróðurhúsinu í Mosfellssveit.

„Við vorum hér á Íslandi á svipuðum tíma, í júní þegar það var alltaf bjart úti. Þegar maður er alltaf í stúdíói missir maður dálítið vitið,“ útskýrir Jamie, sem heitir James Thomas Smith fullu nafni. „Og þegar við bætist þessi stöðuga dagsbirta bætir það við þessa geðveiki og reynsluna sem heild. Við sömdum suma af bestu hlutum plötunnar hérna, finnst mér. Okkur langaði að koma aftur til Íslands eftir þessa frábæru reynslu, af því að hún varð svo sterkur hluti af plötunni.“

–En þú hefur komið fram í Reykjavík sjálfur, sem sólólistamaður?

„Já, ég spilaði á Sónar Reykjavík-hátíðinni, þannig að þetta er í þriðja skipti sem ég kem hingað. Í fyrsta skipti komum við af því að okkur gafst tækifæri til að flýja myrkraherbergið okkar í London. Við ákváðum að leita að gerólíkri reynslu, finna staði sem væru allt öðruvísi en London. Og staðirnir; Texas, Los Angeles og Ísland, höfðu allir þessa víðáttu og endalausan himin og okkur leið eins og við værum milljón mílur frá heimkynnum okkar,“ svarar Jamie.

Álag á hjómsveitina

Spurður hvernig það gangi að vera bæði vinsæll sólólistamaður og hluti af hljómsveit segir hann að það hafi aðeins reynt á þolrif hinna meðlima hljómsveitarinnar hversu miklum tíma hann eyddi einn að túra. „En sólódótið mitt var nokkuð sem ég varð bara að gera á milli xx-platnanna til þess að verða ekki geðveikur. Svo var ég með fullt af tónlist sem ég þurfti bara að koma frá mér og út í heiminn. Ég bjóst ekki við að þurfa að fylgja þessu eftir á ferðalagi svona lengi og þetta olli vissulega dálitlu álagi á hljómsveitina. Ég var svo lengi í burtu frá fjölskyldunni minni, frá vinum mínum og frá heimili mínu. Svo þurfti ég að vera í burtu frá Romy og Oliver, sem eru ekki aðeins bestu vinir mínir heldur treysta á mig til þess að geta klárað upptökur í stúdíói. Þetta varð allt dálitið sundurslitið. En þegar við loksins hittumst til að klára plötuna komumst við að því að vinátta okkar þarf að vera sterk til þess að við getum skapað tónlist saman. Og í raun fjallar platan um það.“

Hljómsveitin The xx urðu heimsfræg þegar þau voru enn á …
Hljómsveitin The xx urðu heimsfræg þegar þau voru enn á unglingsárum.

Aukið sjálfstraust

Jamie útskýrir að þar sem þau hafi gert tónlist saman frá því að þau voru aðeins sextán ára gömul viti þau hvenær þau þurfi að gefa hvert öðru andrými. „Þetta er dálitið eins og samband milli systkina. Þegar fólk fer í fýlu út í hvert annað gleymir maður oftast hvers vegna eftir svona klukkustund.“

–Þegar ég heyrði fyrst í The xx árið 2010 hélt ég að þið væruð einhverjir goth-krakkar að spila melankólíska músík.

„Við höfum samt eiginlega aldrei verið svona þunglyndisleg. Við vorum bara unglingar, og ekkert þunglyndislegri en aðrir unglingar. En svo vorum við pínd til þess að fara í myndatökur og á þessum aldri þolir maður það ekki og endar alltaf með því að horfa bara niður á jörðina,“ útskýrir hann og hlær.

–Áttu þá við að þið hafið orðið „emo“ fyrir tilviljun?

„Við elskum tilfinningaþrungna og dapurlega tónlist sem augljóslega kom þarna út, en þessi ímynd skapaðist fyrir tilviljun. Við erum líka öll með miklu meira sjálfstraust í dag og höfum fært okkur dálítið frá þessu. Nema Romy, sem neitar enn að vera í nokkru nema svörtu. En við hin erum aðeins að færa okkur í aðra hluti.“

Jamie útskýrir að síðasta plata The xx sé mun fjölbreyttari en sú síðasta. „Hún hefur miklu bjartara yfirbragð. Uppáhaldsstundir mínar í lífinu eru þegar ég er í stúdíóinu. Þá er ég glaður. Og ég myndi segja að ég væri almennt hamingjusamur einstaklingur og ég held að það endurspeglist í minni eigin tónlist og líka hjá The xx.“

Björk efst á óskalistanum

–Þú hefur skapað þér einstaklega farsælan feril sem upptökustjóri og starfar sem slíkur með ýmsum stórkostlegum listamönnum. Hvernig hefst svoleiðis samstarf?

„Það fer eftir ýmsu, stundum fílar fólk það sem ég er að gera og hefur samband, eða að ég hitti fólk eða sé það á tónleikum, kynnist því og við verðum vinir, það er alltaf best þegar þetta gerist svona á eðlilegan hátt. Það getur verið erfitt að hitta einhvern í fyrsta skipti í stúdíói þar sem maður þarf að deila persónulegum hlutum með einhverjum sem maður þekkir ekki neitt.“

–En hefur þú einhvern tímann sagt nei við fólk?

„Já, ég er alltaf að því,“ segir Jamie og hlær. Og hann er fljótur til svara þegar hann er spurður að því hvaða íslensku listamönnum hann vilji vinna með. „Björk. Augljóslega. Ég er mikill aðdáandi. Hún kom einu sinni á tónleika með okkur og við hittumst eftir þá, héngum aðeins saman og höfum hist nokkrum sinnum eftir það. Hún er stórkostleg og er ennþá að færa til viðmiðin. Og það væri verulega svalt að vinna með JFDR en ég býst við að allir vilji vinna með henni núna. En hún sendi mér nokkur ný lög, sjáum hvað gerist, það væri allavega alveg frábært.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes