Hætti með Madonnu því hún er hvít

Tupac Shakur og Madonna áttu í ástarbambandi tveimur árum áður ...
Tupac Shakur og Madonna áttu í ástarbambandi tveimur árum áður en hann lést. skjáskot/Pinterest

Í handskrifuðu bréfi frá rapparanum Tupac til Madonnu kemur fram að hann sleit sambandi þeirra því hún er hvít á hörund. 

Bréfið birti slúðurrisinn TMZ en á því er stimpluð dagsetningin 15. janúar 1995, sem er næstum tveimur árum áður en rapparinn dó.

Í bréfinu segir Tupac að samband hans við Madonnu muni skaða ímynd hans og þar af leiðandi feril hans. 

„Ef þú sést með svörtum manni mun það engin slæm áhrif hafa á þinn feril, ef eitthvað er þá myndi það láta þig virðast miklu meira opin og spennandi. En fyrir mig þá myndi ég bregðast helmingnum af fólkinu sem gerðu mig að þeim manni sem ég er í dag,“ skrifaði Tupac í bréfinu.

Rapparinn minntist einnig á ósætti út af hlutum sem Madonna sagði í viðtali og að það sé einnig ein af ástæðum sambandsslitanna.

„Í viðtali sagðirðu að þú ætlaðir að fara á stefnumót með öllum röppurum og körfuboltamönnum eða eitthvað svoleiðis. Þau orð særðu mig mikið því að ég hef ekki vitað til þess að þú hafir verið með neinum röppurum eða körfuboltamönnum fyrir utan mig. Eftir þetta sagði ég margt við þig sem ég meinti ekki en eins og þú sérð hef ég þroskast síðan þá. Vonandi skilur þú stöðu mína sem ungs manns með litla reynslu með rosalega frægu kyntákni.“

Bréfið, sem er þrjár blaðsíður, verður selt á uppboði í lok júlí þar sem fyrsta boð er rúmlega 10 milljónir króna. Áætlað er að bréfið verði samt sem áður selt fyrir mun meira en það.

Madonna og Tupac.
Madonna og Tupac. skjáskot/Instagram
mbl.is

Bloggað um fréttina