Skelli „mér út í djúpu laugina“

„Ég hef stundum þurft að sleppa verkefnum erlendis út af …
„Ég hef stundum þurft að sleppa verkefnum erlendis út af tónleikaröðinni, en langar nú til að sinna söngnum betur og þá hef ég ekki lengur tíma fyrir tónleikaröðina,“ segir Bjarni Thor Kristinsson um tónleikaröðina Perlur íslenskra sönglaga sem hann hefur haldið úti í Hörpu frá vígslu tónlistarhússins. mbl.is/Eggert

„Þetta er stór biti og mjög spennandi verkefni. Ef allt gengur upp held ég að ég verði fyrsti Íslendingurinn til að syngja Wotan allan,“ segir Bjarni Thor Kristinsson bassi sem tekið hefur að sér hlutverk Wotans eða Óðins í Niflungahringnum eftir Richard Wagner sem settur verður upp í Kassel í Þýskalandi á árunum 2018 til 2019. Fyrsta óperan af fjórum sem mynda hringinn, þ.e. Rínargullið, verður frumsýnd haustið 2018 og á næstu 18 mánuðum fylgja hinar þrjár í kjölfarið, þ.e. Valkyrjan, Siegfried eða Sigurður Fáfnisbani og Ragnarök.

Óðinn er aðalgimsteinninn

„Ég hef áður sungið hlutverk Óðins í Rínargullinu, sem er léttasti Óðinn raddlega séð. Hringurinn er í mínum huga krúnudjásnið í kórónu Wagner. Persónulega finnst mér Wotan þar vera aðalgimsteinninn og það var ástæða þess að ég sagði já við þessu tilboði, því ég vildi alls ekki missa af þessu tækifæri,“ segir Bjarni Thor, en þess má geta að hlutverk Óðins er skrifað fyrir barítón, en Bjarni Thor er sem kunnugt er bassi. „Ég er að reyna fyrir mér í öðru fagi. Hlutverk Óðins er skilgreint sem hetjubarítón og teygir sig dálítið upp fyrir hefðbundið bassa-raddsvið. Þó ég sé bassi ætla ég að skella mér út í djúpu laugina með þetta hlutverk,“ segir Bjarni Thor sem prófaði að syngja sig í gegnum alla erfiðustu kafla hlutverksins með píanista áður en hann tók tilboðinu.

„Ég vildi vera viss um að ég réði vel við þetta,“ segir Bjarni Thor sem æfir nú reglulega með píanista til að undirbúa sig fyrir átökin sem framundan eru. „Ég mun eyða góðum tíma í að syngja hlutverkið inn í röddina. Óðinn syngur í þremur óperum af fjórum í hringnum. Ég verð því með annan fótinn í Kassel næstu tvö árin rúmlega,“ segir Bjarni Thor sem er þaulkunnugur tónsmíðum Wagner enda hefur hann sungið nær öll bassahlutverkin í Wagner-óperum, þeirra á meðal nokkur hlutverk í Niflungahringnum.

Nóg að gera á næstunni

„Þó ég bregði mér í hlutverk hetjubarítónsins Óðins mun ég eftir sem áður syngja mín bassahlutverk,“ segir Bjarni Thor sem staddur var í Napólí þegar blaðamaður náði tali af honum. Þar var hann staddur til að syngja hlutverk Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir W.A. Mozart hjá Teatro di San Carlo. „Þetta er rómuð uppfærsla leikstjórans Giorgio Strehler sem ferðast hefur um heiminn frá því hún var frumsýnd fyrir um hálfri öld. Þetta er tímalaus uppfærsla sem er mjög vinsæl, enda viðtökur ávallt góðar. Ég hef verið svo gæfusamur að syngja Osmin í þessari uppfærslu í fjórum óperuhúsum víðs vegar um Evrópu,“ segir Bjarni Thor og bendir á að það sé svolítið eins og að hitta gamlan vin að koma aftur að Osmin og fara í búninginn, sem ásamt leikmyndinni er geymdur í gámi milli uppfærslna.

„Þegar ég var að byrja að syngja var það draumur minn að fá að syngja hlutverk styttunnar í Don Giovanni. Ég var sannfærður um að það yrði toppurinn á tilverunni. Síðan hef ég komist að því að það eru mörg önnur bassahlutverk í tónbókmenntunum sem eru mun skemmtilegri og meira gefandi. Engu að síður er lokasenan einn af hápunktunum í óperum Mozart þar sem styttan sækir Don Giovanni og fer með hann til helvítis.“

Að sögn Bjarna Thors er nóg að gera hjá honum á næstunni. Frá Napólí heldur hann til Kölnar þar sem hann syngur hlutverk fangelsisstjórans Franks í Leðurblökunni eftir Johann Strauß. „Á næsta ári bíður mín hlutverk styttunnar í Don Giovanni annars vegar í Köln og hins vegar í Peking auk hlutverks Baron Ochs í Rósariddaranum eftir Richard Strauss í Düsseldorf svo eitthvað sé nefnt.“

Sönglögin veita innsýn í íslenska þjóðarsál

Vegna anna sér Bjarni Thor sér ekki lengur fært að halda úti tónleikaröðinni Perlur íslenskra sönglaga sem hann hefur staðið fyrir frá opnun tónlistarhússins Hörpu vorið 2011. „Fyrst var tónleikaröðin bara á sumrin, en vatt upp á sig þar sem við bættum við áramótatónleikum og síðan dagskrá bæði á vorin og haustin,“ segir Bjarni Thor og áætlar að haldnir hafi verið 400 til 500 tónleikar á síðustu sex árum.

„Frá fyrsta degi hafa viðtökur verið mjög góðar. Þetta hefur verið góður tími og ánægjulegt hversu vel þetta hefur gengið,“ segir Bjarni Thor og bendir á að tónleikaröðin hafi fyrst og fremst verið ætluð erlendu ferðafólki. „Markmiðið með röðinni var að kynna íslenska söngtónlist fyrir ferðafólki og opna þennan heim fyrir því,“ segir Bjarni Thor og bendir á að tónleikagestir setji sig reglulega í samband við sig til að fá upplýsingar um hvar hægt sé að nálgast upptökur og nótur af þeim lögum sem flutt eru á tónleikunum.

„Það hefur verið mjög gaman að verða vitni að því hversu hrifnir erlendir gestir eru af íslensku sönglögunum. Tónlist hverrar þjóðar er hluti af þjóðarkarakternum. Með því að mæta á tónleika er þannig hægt að fá ákveðna innsýn í íslenska þjóðarsál,“ segir Bjarni Thor og tekur fram að sér hafi líka þótt ánægjulegt að geta veitt stórum hópi söngvara og tónlistarfólks tækifæri til að koma fram, en hann áætlar að á bilinu 40 til 50 söngvarar og hljóðfæraleikarar hafi komið fram á tónleikaröðinni. „Ég er mjög þakklátur öllu þessu góða tónlistarfólki og finnst gott að hafa getað unnið í þessu frábæra tónlistarhúsi,“ segir Bjarni Thor sem frá upphafi hefur haldið utan um skipulag tónleikaraðarinnar samhliða störfum sínum sem óperusöngvari erlendis. 

Myndi taka slíku boði

„Ég hef stundum þurft að sleppa verkefnum erlendis út af tónleikaröðinni, en langar nú til að sinna söngnum betur og þá hef ég ekki lengur tíma fyrir tónleikaröðina. Við ætlum að klára þá dagskrá sem við vorum búin að auglýsa. Þrennir hefðbundnir tónleikar verða í þessum mánuði, þ.e. 11., 18. og 25. nóvember. Síðasta jóla- og áramótadagskráin okkar verður flutt í níu skipti frá 27. desember til 5. janúar,“ segir Bjarni Thor, en allar nánari upplýsingar um tónleikana má nálgast á vefnum pearls.is.

Ekki er hægt að sleppa Bjarna Thor án þess að forvitnast hvenær Íslendingar fái næst að heyra í honum á óperusviðinu hérlendis, en seinasta hlutverk Bjarna Thors á sviði hér á landi var Dr. Bartolo í Rakaranum í Sevilla fyrir rúmum tveimur árum í uppfærslu Íslensku óperunnar. „Ef ég hefði tíma og mér væri boðið að syngja í óperu hér heima myndi ég örugglega segja já, því mér finnst mikilvægt að koma reglulega fram hér heima. Það hefur hins vegar ekkert verið leitað til mín seinustu tvö árin, en sem betur fer er nóg að gera erlendis,“ segir Bjarni Thor að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes