Brúðkaupsgleði á götum Windsor

Hjónin Claire Ludlow og Torsten Ahl frá borginni Worms í ...
Hjónin Claire Ludlow og Torsten Ahl frá borginni Worms í Þýskalandi. Þau eru miklir aðdáendur bresku konungsfjölskyldunnar og segja að um leið og dagsetning brúðkaupsins hafi legið fyrir hafi þau bókað ferðina. Ljósmynd/Anna Lilja

Það er sannarlega hátíðlegt um að litast í bænum Windsor á Englandi núna í morgunsárið, þegar klukkan nálgast þar 11, en þar munu Harry Bretaprins og bandaríska leikkonan Meghan Markle ganga í það heilaga klukkan 12 að staðartíma. 

Viðburðurinn hefur sannarlega vakið áhuga margra. Hvert sem litið er á götum, torgum og strætum þessa litla bæjar í Berkshire-skíri skammt frá London er alls staðar mannþröng. Lestarferðum frá London var fjölgað og fleiri vagnar en venjulega eru í hverri lest. Reyndar verða, samkvæmt frétt breska ríkissjónvarpsins BBC, eins margar lestarferðir og eins margir vagnar í ferðum og lestarlínan á leiðinni getur borið. Fólki er ráðiði frá því að koma á einkabílum og hefur verið varað við því að bænum verði hugsanlega lokað fyrir fleiri gestum.

Margir ætla að samgleðjast Meghan og Harry á götum úti.
Margir ætla að samgleðjast Meghan og Harry á götum úti. AFP

Blaðamaður Morgunblaðsins fór með lest til Windsor frá London. Allir vagnar voru stappfullir, þar var fólk víða að úr heiminum og þeirra á meðal voru hjónin Claire Ludlow og Torsten Ahl frá  borginni Worms í Þýskalandi. Þau eru miklir aðdáendur bresku konungsfjölskyldunnar og segja að um leið og dagsetning brúðkaupsins hafi legið fyrir hafi þau bókað ferðina.

Spurð hvað það sé sem veki svona mikinn áhuga þeirra á bresku konungsfjölskyldunni segir Claire að margar ástæður séu fyrir því, m.a. áhugi á sögu og stjórnmálum. „Þau eru alltaf þarna. Stjórnmálamenn koma og fara á nokkurra ára fresti, en það er alltaf hægt að treysta á að konungsfjölskyldan sé á sínum stað. Amma mín var alltaf að skoða tímarit með greinum og myndum um bresku konungsfjölskylduna. Ég komst eiginlega ekki hjá því að fá áhuga á þessu,“ segir Torsten og hlær. 

„Harry og Vilhjálmur,“ svarar Torsten, spurður um hvert sé hans uppáhald í bresku konungsfjölskyldunni. „Mér finnst ég eiga mest sameiginlegt með þeim, þeir eru á svipuðum aldri og ég. Þeir eru nýja kynslóðin og það verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni. Claire tekur undir þetta. En ég held líka mikið upp á Elísabetu drottningu. Hún hefur verið lengi við völd, gengið í gegnum ýmsa erfiðleika en heldur alltaf sínu striki. Ég dáist að henni.“

Í lestinni var líka Mary Beth McGrath frá Boston. Hún kom sérstaklega til London til að fylgjast með brúðkaupinu og er enginn nýgræðingur í ferðum sem þessum því hún kom til London árið 2011 til að fylgjast með brúðkaupi Vilhjálms og Katrínar og aftur til að vera við krýningarafmæli Elísabetar drottningar árið 2012. „Sumum finnst þetta skrýtið, að ég sé að fara alla þessa leið til að fylgjast með brúðkaupi fólks sem ég þekki ekki neitt. En mér er alveg sama um það.“

Á veginum sem liggur að Windsor-kastala hafa hundruð manna komið ...
Á veginum sem liggur að Windsor-kastala hafa hundruð manna komið sér fyrir. AFP

Mary Beth kom með fjölskyldu sinni til Englands, en aðrir úr fjölskyldu hennar voru ekki með henni í för til Windsor. „Þau voru alveg til í að koma með mér til London, en drógu línuna við að eyða deginum í að fylgjast með brúðkaupinu,“ segir hún og hlær.

Breska konungsfjölskyldan er eitt stærsta áhugamál Mary Beth sem segir að áhuginn hafi vaknað í æsku en amma hennar og afi áttu mikið safn diska og bolla með myndum af konungsfjölskyldunni. Dálæti hennar á fjölskyldunni er reyndar svo mikið að nafn einkadóttur hennar, sem heitir Abbey Diana, tengist þessum áhuga. „Abbey er vegna þess að mér hefur alltaf þótt Westminster Abbey-kirkjan svo falleg. En þegar maðurinn minn er spurður út í nafnið segir hann að það sé vegna Bítlaplötunnar Abbey Road,“ segir hún og hlær. Nafnið Diana er eftir Díönu prinsessu. Hún var, og er, í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún var einstök manneskja og ég held að synir hennar séu það líka,“ segir Mary Beth. 

Miðbær Windsor er fagurlega skreyttur með fánum og þar er aðdáendum parsins boðið upp á ýmiss konar skemmtiatriði til að stytta biðina. Þegar er búið að afmarka svæði meðfram leiðinni sem brúðhjónin munu aka í opnum vagni eftir að þau hafa verið gefin saman af erkibiskupnum af Kantaraborg og stórum skjám hefur verið komið fyrir sem munu sýna beint frá athöfninni.

Mary Beth kom með fjölskyldu sinni til Englands, en aðrir ...
Mary Beth kom með fjölskyldu sinni til Englands, en aðrir fjölskyldumeðlimir voru ekki með henni í för til Windsor. mbl.is/Anna Lilja

Bresku blöðin birtu kort, sem sýndi þá staði þar sem mestar líkur væru á að hafa gott útsýni þegar brúðhjónin aka um göturnar og hélt blaðamaður Morgunblaðsins þegar á einn þeirra staða. Strax kom í ljós að nokkur þúsund manns til viðbótar höfðu lesið sömu grein og blaðamaður og því var ekki annað að gera en að finna nýjan stað.

Gríðarleg öryggisgæsla er á staðnum, vopnaðir lögreglumenn ganga um, aðrir lögreglumenn eru með leitarhunda og á tilteknum stöðum í bænum þarf að ganga í gegnum málmleitarhlið. Á hverju götuhorni er fólk í gulum vestum sem leiðbeinir þeim tugþúsund gestum sem sækja bæinn heim í dag. 

Allir eru kátir, af og til er hrópað „Lengi lifi Harry og Meghan“ og þá taka allir undir og veifa fánum sem dreift hefur verið á götunum. Það er mikil gleði í bænum, svo mikil að hún er hreinlega áþreifanleg. Enda er tilefnið gleðilegt; ástfangið par er að fara að ganga í það heilaga. 

Gleðin ræður ríkjum meðal þeirra sem hafa komið sér fyrir ...
Gleðin ræður ríkjum meðal þeirra sem hafa komið sér fyrir í Windsor til að fylgjast með brúðkaupinu. AFP
Bresku blöðin birtu kort, sem sýndi þá staði þar sem ...
Bresku blöðin birtu kort, sem sýndi þá staði þar sem mestar líkur væru á að hafa gott útsýni þegar brúðhjónin aka um göturnar og hefur fólk komið sér vel fyrir á þeim stöðum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina