Enn bólar ekkert á Fan Bingbing

Fan Bingbing mætir til frumsýningar kvikmyndarinnar Everybody Knows í Cannes.
Fan Bingbing mætir til frumsýningar kvikmyndarinnar Everybody Knows í Cannes. AFP

Í byrjun september bárust óstaðfestar fregnir af því að hin ástsæla, kínverska leikkona, Fan Bingbing, hefði verið handtekin og biði dóms. Þá hafði ekkert spurst til hennar í marga mánuði. Enn hefur ekkert verið staðfest um handtökuna og enn bólar ekkert á leikkonunni.

Fan Bingbing er ein skærasta kvikmyndastjarna Kína og er einnig þekkt á vesturlöndum, m.a. fyrir leik sinn í kvikmyndunum X-Men.

Hún hef­ur ekki sést op­in­ber­lega frá því í júní er hún er sögð hafa farið að heimsækja barnaspítala í Tíbet. Síðan þá hefur eng­in hreyf­ing verið á síðu henn­ar á sam­fé­lags­miðlin­um Sina Wei­bo þar sem um 62 millj­ón­ir aðdá­enda henn­ar fylgja henni. 

Ítarlega er nú fjallað um hvarf hennar í fréttaskýringu á vef CNN. Sömu sögu er að segja um Seattle Times sem birti einnig grein um hvarfið í gær. En hvergi er að finna staðfestar upplýsingar um hvar hana sé að finna.

Einn af ríkisfjölmiðlum Kína, Securities Daily, birti frétt þann 6. september sem síðar var eytt. Í henni sagði að Fan hefði verið handtekin og væri í þann mund að fá dóm. Þessi frétt var aldrei staðfest og ef hún reynist rétt er á huldu hvers vegna hún var handtekin og fyrir hvað hún var ákærð.

Í fréttaskýringu CNN segir að vandræði leikkonunnar hafi hafist í vor er kvikmyndasamningi sem hún hafði skrifað undir var lekið á samfélagsmiðla. Í frétt Global Times á þeim tíma þótti þetta sanna að leikkonan væri að svíkja undan skatti. Maðurinn sem lak samningnum, sjónvarpsmaðurinn Cui Yongyuan, baðst Fan afsökunar á uppátæki sínu skömmu síðar en um svipað leyti hóf skattstofa Kína rannsókn á fjármálum leikkonunnar. Og síðan þá hefur ekkert til hennar spurst.

Í frétt CNN er rætt við blaðamanninn Jonathan Landreth sem starfað hefur lengi í Asíu. Hann segir að kínverski Kommúnistaflokkurinn ætlist til mikils af stjörnum landsins. Þær þurfi að feta fína línu, þóknast stjórnvöldum, og vera duglegar við að kynna „kínverska drauminn“.

Og nú hefur Fan reitt stjórnvöld til reiði, með því að komast í fréttirnar fyrir möguleg skattsvik. Það hafa stjórnvöld svo notað til að hræða aðra, birta fréttir um málið (sem þó eru ekki staðfestar).

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kínversk stórstjarna hverfur sporlaust. Árið 2011 hvarf listmaðurinn Ai Weiwei til dæmis í þrjá mánuði. Í ljós kom að hann hafði verið hnepptur í varðhald. Honum var ekki sleppt fyrr en hann hafði skrifað undir játningu þess efnis að hann hefði stundað skattsvik.

mbl.is