„Ég verð að segja þér hvað þessi kona er merkileg“

Tinna Haraldsdóttir og Silja Björk Björnsdóttir segja að feminísmi þurfi …
Tinna Haraldsdóttir og Silja Björk Björnsdóttir segja að feminísmi þurfi ekki alltaf að vera þurr, alvarlegur og málefnalegur. mbl.is/Árni Sæberg

Kona er nefnd eru hlaðvarpsþættir, sem líkt og nafnið gefur til kynna fjalla um konur. Silja Björk Björnsdóttir og Tinna Haraldsdóttir stjórna þáttunum og segja þær hvor annarri frá merkilegum konum, hinsegin fólki og kynsegin fólki. 

Silja og Tinna eru báðar frá Akureyri en þær kynntust í leiklistarvinnuhóp sumarið 2009 og hafa verið óskiljanlegar síðan. Silja segir þær vera 100% sálufélaga og ekki geta lifað hvor án annarrar. 

Silja er 27 ára kvikmyndafræðinemi í Háskóla Íslands. Það nægir þó ekki til að segja frá Silju þar sem hún er með mörg járn í eldinum. Hún hefur beitt sér í geðheilsuumræðunni síðustu 5-6 ár, er í stjórn Geðhjálpar og gefur út sína fyrstu bók, Vatnið, gríman & geltið, í haust. Þar að auki á hún soninn Úlf Orra sem fyllir brátt sitt fyrsta ár. 

Tinna er 29 ára og meistaranemi í kynjafræði við Háskóla Íslands. Þetta er þriðja háskólagráðan hennar Tinnu, sem grínast með að vera að safna háskólagráðum, en hún kláraði ferðamálafræði og viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum fyrir nokkrum árum. Það var þó ekki bara söfnunaráráttan sem dreif hana í námið. „Líka af því að í gegnum mína femínísku baráttu á netinu langaði mig í breiðari grunn og bara hreinlega vita meira um málefnið,“ segir Tinna í viðtali við mbl.is.

Simone De Beauvoir var kveikjan

„Við Tinna höfum náttúrlega báðar verið yfirlýstir femínistar í mörg ár og beitt okkur í þeirri baráttu með ýmsum hætti og fannst vera kominn tími á kvennahlaðvarp, gert af konum um konur en fyrir alla til að hlusta á,“ segir Silja. Silja segir þó að Tinna hafi átt hugmyndina að hlaðvarpinu. 

„Ég sat í kynjafræðitíma í vor og heyrði nafnið Simone de Beauvoir  sem mörg hafa heyrt  en ég þekkti ekki. Og þegar ég byrjaði að læra um hana fannst mér eiginlega fáránlegt að ég skyldi ekki vita hver hún er. Ég var á þessum tíma að hlusta mikið á My Favorite Murder-hlaðvarpið þar sem eru tvær konur sem segja hvor annarri sögur og mér fannst sú framsetning skemmtileg svo þetta kom allt saman í hausnum á mér  segja sögur af konum og heyra sögur af konum. Mig langaði að nota þetta til að læra um konur sjálf en hafði líka lengi langað út í einhvers konar skapandi verkefni líka. Þannig að þetta small bara saman,“ segir Tinna.

Hugmyndin að þáttunum kviknaði í kynjafræðitíma.
Hugmyndin að þáttunum kviknaði í kynjafræðitíma. mbl.is/Árni Sæberg

Þær stöllur segja lítið vandamál að finna konur til að fjalla um. Eftir að þær tóku upp fyrsta þáttinn af Kona er nefnd byrjuðu þær að gera lista yfir konur sem væri áhugavert að fræðast um. Það fyrsta kvöld voru komnar yfir 160 konur á listann sem hefur bara lengst síðan. 

Silja segir að það sé morgunljóst að ekki er fjallað nóg um konur og að þær hafi viljað breyta því. Í fyrsta þættinum ræddi Tinna um Simone de Beauvoir en Silja talaði um Marilyn Monroe. „Ég ákvað að taka Marilyn Monroe því hún er fyrir mér bara fullkomin táknmynd skaðsemi feðraveldis og karllægrar hugsunar; kona sem hefur ekki verið neitt annað en kyngerð í gegnum tíðina en hafði í rauninni svo miklu meira til málanna að leggja en að vera bara falleg og þegja. Konum er gjarnan bara sagt að vera fallegar og þegja og það vildum við ekki gera,“ segir Silja. 

„Við viljum draga fram það sem liggur að baki þessum konum sem fólk annaðhvort þekkir ekki neitt eða sem það sér sem einhverja eina ímynd, eins og Marilyn Monroe, og sýna fram á margbreytileika lífs þeirra og hæfileika,“ bætir Tinna við. 

ÉG VERÐ AÐ SEGJA ÞÉR NÚNA HVAÐ ÞESSI KONA ER MERKILEG“

Þættirnir eru þannig uppbyggðir að þær læra um eina konu hvor um sig. Síðan hittast þær og taka upp þáttinn og segja hvor annarri frá þeirri konu sem þær völdu. Þær vita hvaða konu hin ætlar að fjalla um en ekkert meira. 

„Það er svo gaman að vera svona spennt yfir sinni konu og sínu málefni og mæta í upptökur og gleðjast saman! Vera hissa saman, vera hneykslaðar, læra saman! Það er hins vegar jafn erfitt að eyða viku í rannsóknarvinnu og hringja ekki hvor í aðra tímunum saman, bara „ÉG VERÐ AÐ SEGJA ÞÉR NÚNA HVAÐ ÞESSI KONA ER MERKILEG“, segir Silja.

Silja segir að einn af kostum þess að gera hlaðvarp með vinkonu sinni sé að þá eyði þær mun meiri tíma saman. Annar kostur segir Silja að sé að vinnan hafi auðgað skilning þeirra á lífinu og mannkynssögunni og þær hafi lært um eitthvað sem þær vissu sjálfar ekkert um. „Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um það hver Roxane Gay var, það var bara einhver sem benti okkur á hana þegar við spurðum eftir konum á Twitter, og þegar ég var að undirbúa textann fyrir þáttinn um hana og Feminstu Jones varð ég bara ástfangin af Roxane. Svo vitum við náttúrlega núna allt um tennis og fótbolta eftir að við ræddum um Megan Rapinoe og Billie Jean King,“ segir Silja. 

„Femínismi þarf ekki alltaf að vera alvarlegur, þurr og málefnalegur“

Þættirnir eru langt því frá að vera þurr upplestur á afrekum kvennanna heldur leggja þær upp með að blanda húmor inn í þá. „Femínismi þarf ekki alltaf að vera alvarlegur, þurr og málefnalegur  það má líka bara hafa gagn og gaman af. Við hlæjum og grínumst, enda er þetta það skemmtilegasta sem við gerum og ekki skemmir fyrir að læra um merkilegar konur og fyrirmyndir í leiðinni,“ segir Silja. 

Þær hafa einnig tekið tvö viðtöl, fyrst við Maríu Rut Kristinsdóttur og Ingileifi Friðriksdóttur og síðar við Báru Halldórsdóttur. Í framtíðinni vilja þær gera meira úr þáttunum, halda barsvar, fá gestalesara eða taka stærri viðtöl við þekktar íslenskar konur á borð við frú Vigdísi, Katrínu Jakobsdóttur eða Kristbjörgu Kjeld. 

Í síðasta þætti af Kona er nefnd ræddu þær Silja og Tinna við Báru Halldórsdóttur og farið var yfir viðburðaríka ævi Báru sem þekkt er fyrir litla upptöku á litlum bar hér í borg. Hægt er að hlusta á Kona er nefnd á helstu hlaðvarpsveitum en einnig hér á vefnum, og hér fyrir neðan má einmitt hlýða á þáttinn með Báru Halldórsdóttur. 

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mikilvægar ákvarðanir bíða þín í starfi. Verkefni sem krefjast einbeitingar og úthalds liggja vel fyrir þér.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mikilvægar ákvarðanir bíða þín í starfi. Verkefni sem krefjast einbeitingar og úthalds liggja vel fyrir þér.