„Lykillinn að framtíðinni“

„Ég held að við myndum sem samfélag græða á því …
„Ég held að við myndum sem samfélag græða á því að hlusta meira á listamenn og skapandi fólk,“ segir Birna Hafstein, formaður Sviðslistasambands Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alltaf krefjandi að vera í forsvari fyrir listafólk, en á sama tíma mjög gefandi. Í grunninn er starfsöryggi listafólks mjög lítið, þannig að við erum öllu vön. Núverandi ástand er hins vegar einstakt og ljóst að bæta þarf sviðslistafólki það upp þegar því er vikum og mánuðum saman meinað að vinna eftir hefðbundum leiðum,“ segir Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara og sviðslistafólks og forseti Sviðslistasambands Íslands.

Samkomubannið sem sett var á hérlendis 16. mars til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar hefur svipt fjölda listamanna framfærslumöguleikum sínum eins og fram kom í könnun sem Sviðslistasambandið í samstarfi við Sjálfstæðu leikhúsin lét gera meðal félagsmanna sinna. „Staðan er alvarleg, en sem betur fer er verið að bregðast við henni, þótt enn megi vissulega gera betur,“ segir Birna, sem ásamt fleiri forsvarsmönnum listafólks hefur átt samtal við stjórnvöld á síðustu vikum um hvernig best sé að bregðast við.

Stækka þarf kökuna

„Það er bæði eðlilegt og ber vott um fagmennsku að bjóða samtökum listamanna til samtals um allar mikilvægar ákvarðanir, ekki bara í núverandi árferði heldur alltaf,“ segir Birna og fagnar því að verið sé að setja aukið fjármagn í menningarsjóði, þótt fyrirhuguð hækkun dugi að hennar mati skammt. Umsóknarfrestur átaksverkefnis stjórnvalda rann út fyrir helgi og samkvæmt upplýsingum frá Rannís barst metfjöldi umsókna, alls 541 umsókn, í Tónlistarsjóð, sem fékk 86 milljónir aukalega til úthlutunar, og 192 umsóknir til Leiklistarráðs, sem fékk 99 milljónir aukalega, og er stefnt að því að svara umsækjendum í byrjun júní.

„Þessi metfjöldi umsókna endurspeglar auðvitað þörfina,“ segir Birna og tekur fram að átaksverkefnið nái samt aðeins til lítils hluta sjálfstæða listageirans. Fyrir þinginu liggur tillaga ríkisstjórnarinnar um að fjölga mánaðarlaunum listamanna í ár úr 1.600 í 2.200. Um væri að ræða 250 milljóna króna hækkun, sem skiptist samkvæmt sömu hlutfallsskiptingu og fram kemur í lögum um listamannalaun sem þýðir að rithöfundar fá tæplega 35% starfslauna, myndlistarmenn 27 prósent, hönnuðir þrjú prósent, sviðslistafólk tæp 12 prósent, tónskáld tæp 12 prósent og tónlistarflytjendur 11 prósent.

„Við þessa ákvörðun stjórnvalda skorti samráð, en það hefði verið heppilegra að eiga samtal við hagsmunaaðila áður en ákvörðun lá fyrir. Sviðslistirnar eru mjög kostnaðarsamar og byggjast að mörgu leyti á samvinnu margra listgreina, en við erum með tónlistarfólk, myndlistarmenn, rithöfunda og fleiri úr öðrum listgreinum í okkar verkefnum og sviðslistahópar sækja um laun fyrir alla þessa aðila úr launasjóði sviðslistasjóðs,“ segir Birna og bendir á að sú hækkun sem nú sé á borðinu fyrir sviðslistirnar sé ekki nægjanleg. Við forsvarsmenn fagfélaga í menningargeiranum höfum lengi kallað eftir því að launamánuðum sjóðanna fjölgi og þessi kaka stækki, enda eru listamenn og skapandi hugsun lykillinn að framtíðinni,“ segir Birna og bætir við: „Við erum svo lánsöm að eiga stórkostlega listamenn hér á Íslandi, sem af hug og hjarta skapa ómetanleg verðmæti fyrir samfélagið okkar,“ segir Birna og bendir á að verðmætin séu svo samofin daglegu lífi að „það er ógerningur að gera sér í hugarlund hvernig líf okkar væri án þeirra“.

Þörf á traustum innviðum

Aðspurð hvernig stuðningur stjórnvalda hérlendis líti út í samanburði við þau lönd sem Ísland vill bera sig saman við segir Birna úrræðin svipuð, en hlutföllin þó önnur. „Það er erfitt að vera í beinum samanburði milli landa þar sem kerfin eru ólík. Heilt yfir er verið að fara í svipaðar aðgerðir hér og erlendis, en upphæðirnar eru misjafnar. Í þessu ástandi verður líka skýrt hversu mikilvægt er að allir innviðir séu traustir og menningarstofnanir sterkar,“ segir Birna og bendir einnig á að laga þurfi kerfið þegar komi til dæmis að atvinnuleysisbótum, því sjálfstætt starfandi listafólk passi illa inn í módel Vinnumálastofnunar.

„Það lítur út fyrir að sjálfstætt starfandi listafólk þurfi að bíða í margar vikur og jafnvel til hausts til að fá úrlausn sinna mála. Það er í raun mesta furða hvernig sjálfstætt starfandi listamenn lifa af hérlendis, enda dýrt að lifa hér á sama tíma og tekjuöflunin er mjög takmörkuð og starfsöryggið lítið. Listamenn eru drifnir áfram af ástríðu og hugsjón og finna alltaf leið til að koma sköpun sinni á framfæri,“ segir Birna og tekur fram að óskandi væri að ástandið núna gæfi tilefni til að endurskoða framtíðarsýnina varðandi menningu, listir og skapandi greinar. „Listræn sköpun er ein stærsta auðlind sem við eigum og það er í allra þágu að hlúa vel að henni og taka hana ekki sem sjálfsagðan hlut. Við eigum listamenn á heimsmælikvarða og tækifærin eru óþrjótandi,“ segir Birna og bendir á að sviðslistir hafi fram til þessa ekki átt útflutnings- eða kynningarmiðstöð, en það standi sem betur fer til bóta síðar á þessu ári. 

„Leikhúsið er mitt löglega hugvíkkandi efni og ég mæli með …
„Leikhúsið er mitt löglega hugvíkkandi efni og ég mæli með því,“ segir Birna Hafstein sem hlakkar til að komast aftur í leikhús í haust. Segir hún mögulegt að leikhúsin verði rekin með aðeins breyttu sniði en það verði gert af krafti og hugmyndaauðgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægi fagmennsku

„Það eru ótrúlega jákvæðar fréttir og ástæða til að þakka ráðherra menningarmála fyrir að koma þessu í gegn. Við eigum svo mikið af verðmætum í sviðslistum sem á erindi á alþjóðavettvangi og við búum auðvitað í alþjóðasamfélagi þótt tímarnir séu svolítið skrýtnir í augnablikinu. Listin er okkur einstaklega mikilvæg því hún sameinar okkur, gefur okkur kraft og andlegt hugrekki. Hún er súrefnið sem samfélagið þarf svo nauðsynlega á að halda.“

Birna segir að spennandi væri að sjá aukið samstarf milli listamanna og hefðbundinna atvinnugreina. „Ég held að hefðbundar atvinnugreinar gætu nýtt sér samstarfið við listamenn í mun meira mæli með því að fá þá inn í alla hugmyndavinnu,“ segir Birna og tekur fram að vonandi verði núverandi ástand fólki hvatning til að hugsa hlutina upp á nýtt. 

Leikhúsið mitt hugvíkkandi efni

„Ég held að við myndum sem samfélag græða á því að hlusta meira á listamenn og skapandi fólk,“ segir Birna og bendir sem dæmi á að listafólk hafi árum saman rætt um umhverfis- og loftslagsmál áður en þau komust loks á dagskrá fyrir alvöru á heimsvísu hjá bæði almenningi og stjórnvöldum. „Í ljósi þess hversu mikilvægar listir og skapandi greinar eru samfélaginu skýtur það óneitanlega skökku við hversu lítið í reynd er rætt um menningu, listir og skapandi greinar inni á þingi.“

Aðspurð segist Birna nokkuð ánægð með samtalið sem samtök listamanna hafi átt við stjórnvöld að undanförnu. „Allt samráð, samtal og samstarf er af hinu góða. En það þarf að fara fram á öllum tímum, ekki bara krísutímum. Það þarf að setja hlutina í faglegan farveg til framtíðar. Það væri þannig óskandi að menningin, listir og skapandi greinar spiluðu stærra hlutverk í framtíðarsýn landsins – ef ekki aðalhlutverk. Og fyrst ég minnist á fagmennsku þá er ekki hægt annað en að hrósa fagfólkinu í þríeykinu góða sem er búið að stjórna hér aðgerðum. Ef við værum öll eins fagleg og þau gengi margt örugglega aðeins betur hér í samfélaginu. Þegar kemur að úthlutun á opinberu fjármagni, hvort heldur það er til menningar, lista og skapandi greina eða annarra atvinnugreina í landinu, þá er fagmennska lykilatriði. Núverandi aðstæður bjóða upp á kærkomið tækifæri til endurskoðunar, tiltektar og sjálfskoðunar.

Við búum í heimi sem tekur sífelldum breytingum og hraðinn er mikill. Leikhúsformið er listform augnabliksins og leikhúsið er samvera. Þar getur allt gerst og þar er pláss fyrir allt og alla. Ég held að við megum öll aðeins meira við því og ég hlakka til að geta farið aftur í leikhúsið í haust. Kannski verða leikhúsin rekin með aðeins breyttu sniði en það verður gert af krafti og hugmyndaauðgi. Leikhúsið er mitt löglega hugvíkkandi efni og ég mæli með því.“

Birna Hafstein, forseti Sviðslistasambands Íslands, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti …
Birna Hafstein, forseti Sviðslistasambands Íslands, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í Tjarnarbíói vorið 2019 þegar tilnefningar til Grímunnar voru kynntar. Skipulagið verður allt með öðru sniði í ár vegna kórónuveirufaraldursins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gríman í ár verður afhent mánudaginn 15. júní

Gríman, Íslensku sviðslistaverðlaunin, verður veitt við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu mánudaginn 15. júní og athöfnin verður í beinni útsendingu á RÚV. „Í ljósi samkomubannsins sem sett var á vegna kórónuveirufaraldursins varð leikárið 2019-2020 ögn styttra en upphaflega var gert ráð fyrir. Við ákváðum að fresta Grímunni ekki heldur taka þessu sem áskorun og skemmtilegu tækifæri til að gera hlutina aðeins öðruvísi – sem ég held að sé ágætis lífsmottó,“ segir Birna Hafstein og tekur fram að í ljósi aðstæðna verði athöfnin með óhefðbundnum hætti enda verða bæði stóru leikhúsin komin í frí á þessum tíma eftir að hafa verið í samkomubanni síðan um miðjan mars.

Að sögn Birnu er enn verið að vinna í útfærslu athafnarinnar, en nú þegar er ljóst að Heimilistónar halda utan um Grímuna í ár og leikstjóri hennar verður, eins og síðustu ár, Helena Stefáns Magneudóttir. „Við höldum þannig bara upp á það leikár sem við höfðum, sem var pínulítið óhefðbundið og aðeins styttra en venjulega,“ segir Birna. Upplýst verður um tilnefningar til Grímunnar um mánaðamótin maí/júní.

Viðtalið við Birnu birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 14. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes