Myndirnar allar um veiruna en urðu til á undan

„Fyrir okkur er allt það besta í lífinu skipulagt eða …
„Fyrir okkur er allt það besta í lífinu skipulagt eða mótað af íhaldssömu viðmóti,“ segja Gilbert og George. mbl.is/Einar Falur

„Mikið vildi ég að við gætum verið við opnun sýningarinnar okkar í Reykjavík. Það er sorglegt að geta það ekki. Við heimsóttum landið og Listasafn Reykjavíkur í fyrra, til að skoða aðstæður, og það var alveg frábært,“ segir George Passmore.

„En staðan er erfið vegna farsóttarinnar því við erum báðir á áttræðisaldri,“ bætir Gilbert Proesch við. „Við erum því í svokölluðum áhættuhópi, til að mynda í flugvélum og þar sem fólk kemur saman. Meira að segja á gönguferðum er viss hætta, er okkur sagt. Við förum samt daglega í þrjár göngur utandyra og svo þrjár hér innandyra.“

One World eftir Gilbert & George.
One World eftir Gilbert & George.

„Við erum vonsviknir yfir því að geta ekki mætt, ekki síst vegna þess að Ísland er sú eyja sem er í næstmestu uppáhaldi hjá okkur,“ sögðu bresku myndlistarmennirnir kunnu Gilbert & George þegar blaðamaður heimsótti þá í London í vikunni. Sú eyja sem er í mestu uppáhaldi hjá þeim er heimalandið, Bretland, en þeir höfðu lagt mikla alúð í að hanna módelið að sýningunni í Hafnarhúsinu sem þeir sitja hér við en sýningin er í mörgum sölum og á henni fjölmörg og gríðarstór verk.

Veirufaraldurinn veldur því að Gilbert & George verða að sitja heima og ná ekki að hitta gesti í Hafnarhúsinu. Í rúma hálfa öld hafa þeir verið meðal kunnustu og umtöluðustu listamanna Breta, yfirlýstir íhaldsmenn og guðleysingjar, en við upphaf ferilsins breyttu þeir lífi sínu í samfelldan gjörning.

Þrátt fyrir að þurfa nú í fyrsta skipti síðan þeir kynntust að borða heima hjá sér og margt hafi breyst hafa þeir ekki setið auðum höndum í einangrun.

„Ástandið hefur ekki breytt því hvernig við vinnum, við höfum skapað 85 ný verk,“ sögðu þeir spenntir. „Við höfðum lokið við að hanna verkin þegar veiran skall á, gáfum myndröðinni heiti strax í janúar og köllum The New Normal Pictures. Og þremur vikum síðar fengu verkin – og heitið – alveg nýja merkingu með veirunni.

Við vorum fyrstir með þetta! Myndirnar eru allar um veiruna en urðu til á undan henni.“ 

Hluti 19 metra langs verks, Death Hope Fear Life, eftir …
Hluti 19 metra langs verks, Death Hope Fear Life, eftir Gilbert & George.

Afar umfangsmikil sýning á mörgum af þekktustu verkum Gilberts & George verður opin gestum í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur frá og með deginum í dag, sett upp í flestum sölum safnsins, og er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. The Great Exhibition er heiti sýningarinnar og gefur mjög gott yfirlit yfir myndheim og viðfangsefni tvímenninganna síðustu fimm áratugi. Sýningin var fyrst sett upp í Arles í Frakklandi fyrir tveimur árum og hefur síðan haft viðkomu í Stokkhólmi og Ósló. Sýningarstjórarnir eru víðkunnir, Hans Ulrich Obrist, stjórnandi Serpentine Gallery í London, og Daniel Birnbaum, stjórnandi Acute Art. Samhliða opnun sýningarinnar hefur verið gefin út afar vegleg sýningarskrá sem þýdd hefur verið á íslensku, um 460 blaðsíður og hönnuð af listamönnunum sjálfum. Í henni er meðal annars að finna ítarlegt og skemmtilegt samtal listamannanna og sýningarstjóranna um feril þeirra og verk, auk mynda af sýningum á verkum þeirra.

Fyrstir með verk um veiruna

Kórónuveirufaraldurinn hefur vitaskuld haft mikil áhrif á líf tvímenninganna, eins og annarra.

George: „Þetta eru miklar breytingar, og hræðilegar. Allan þann tíma sem við höfum starfað saman höfum við bara borðað á veitingastöðum, við höfum aldrei nokkurn tíma borðað hér í húsinu. En núna erum við bara í fjandans húsinu.“

Áhugafólk um myndlist gat á dögunum fylgst með röð stuttra myndbanda sem voru birt á instagramsíðu gallerís þeirra, White Cube, og sýndu tvímenningana borða, ganga og dunda sér innan dyra hússins, við þessar furðuaðstæður. Þeir segjast sakna mikið veitingastaðarins sem þeir hafa nú borðað á undanfarinn aldarfjórðung.

Gilbert: „Og við söknum þjónanna mest!“

George: Við hittum þá oftar en nokkurn annan – sjö daga vikunnar.“

Gilbert: „Við erum með einn aðstoðarmann sem býr ekki langt héðan og hann kemur nú á morgnana með dagblöðin og mat, sem hann setur í þennan litla ísskáp þarna, eina ísskápinn í húsinu. Hann kemur með ost, skinku, salami ...“

George: „Við keyptum ísskápinn fyrir nokkrum árum, bara til að kæla kampavín sem var alltaf verið að gefa okkur. Við vorum aldrei með mat áður í húsinu en nú urðum við að taka kampavínið út, vín sem við annars drekkum aldrei, og koma matnum þar fyrir.“

Gilbert: „En ástandið hefur ekki breytt því hvernig við vinnum, við höfum haft mikið að gera, höfum skapað 85 ný verk,“ segir hann spenntur.

George: „Við höfðum lokið við að hanna þau þegar veiran skall á.“

Gilbert: „Við gáfum myndröðinni heiti strax í janúar og köllum ...“

George: „... The New Normal Pictures. Og þremur vikum síðar fengu verkin, og heitið, alveg nýja merkingu með veirunni.“

Gilbert: „Við tölum um faraldurinn sem „hið nýja norm“.“

George: „Við vorum fyrstir með þetta! Myndirnar eru allar um veiruna en urðu til á undan veirunni.“

Gilbert: „Titillinn kom til af því að við vildum þýða hugmyndina að baki franska orðinu existensíalismi. Við ákváðum að það þýddi eitthvað normal. Og hver mynd í röðinni er kölluð hið nýja normal ástand. Við erum mjög spenntir fyrir þessum myndum en vandamálið er að við vitum ekkert hvenær galleríin geta sýnt þær.“

George: „Kannski verður það ekki fyrr en eftir að við erum allir.“

Gilbert: „En við höfðum þegar hannað verkin þegar faraldurinn brast á. Við hönnum verkin alltaf í hlutfallinu einum tíunda af endanlegri stærð. Þá tekur við að stækka verkin upp og nú erum við, eins og þú sérð á veggnum bak við þig, að prufa hina ýmsu þætti verkanna. Þegar við erum orðnir ánægðir með samsetninguna þá ljúkum við við verkin og prentum þau út.

Þessi nýju verk eru einstaklega fjölbreytileg og við höfum unnið af kappi að þeim í þessari innilokun, alla daga.“

Mótlæti vegna íhaldsskoðana

Þeir félagar hafa löngum gert það að umtalsefni að þeir séu íhaldsmenn. Segja þeir marga í listheiminum, sem sé einsleitur í stjórnmálaskoðunum, hafa verið svo ósátta við það að á áttunda áratugnum hafi þeir nánast yfirgefið listheiminn.

mbl.is/Einar Falur

George: „En fyrir okkur er allt það besta í lífinu skipulagt eða mótað af íhaldssömu viðmóti.“

Gilbert: „Frelsi! Frjálsri hugsun!“

George: „Yfir höfuð þá styðja íhaldsmenn við hugmyndir um einstaklinginn og einstaklingsfrelsi en í einfaldaðri mynd þá eru vinstrimenn með áhuga á einsleitni. Þar snýst allt um hópa, hvort sem það eru kennarar eða námuverkamenn, og það er ógnvekjandi.“

Gilbert: „Ein hugmynd í sósíalisma er að listin sé hluti af hinu opinbera. Jafnvel hér myndi vinstrið vilja skipulegga sósíaliska list sem yrði að vera góð fyrir fólkið, hvað sem það gæti þýtt. Þá væri listamaðurinn ekki lengur frjáls hugsuður.

En í byrjun ferils okkar mættum við mikilli andúð og jafnvel fjandskap þegar við sögðumst vera íhaldsmenn. Við áttum ekki að fá að vera öðruvísi en aðrir.“

George: „Það er merkilkegt að á sviði þar sem frumleiki er lykilatriði, eigi allir að hafa sömu pólitísku skoðanir.“ Hann hristir höfuðið, bætir svo glottandi við: „Gegnum árin höfum við fengið mikla hjálp frá óvinum okkar.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, 6. ágúst 2020.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er kominn tími til að slaka á og taka því rólega. Veislur, sem haldnar eru í dag, verða óvenju ánægjulegar.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er kominn tími til að slaka á og taka því rólega. Veislur, sem haldnar eru í dag, verða óvenju ánægjulegar.