Tilraun til að framleiða jákvæða og jarðbundna popptónlist

Tvíeykið Congo Bongo skipa frændur og eins og sjá má …
Tvíeykið Congo Bongo skipa frændur og eins og sjá má er svipur með þeim.

Dúettinn Congo Bongo hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu og nefnist sú Origins. Congo Bongo er raftónlistartvíeykið Hreinn Elíasson og Sigurmon Hartmann Sigurðsson og eru þeir náskyldir, systkinabörn. Tónlist Congo Bongo lýsa þeir sem „80's skotnu sólarpoppi með frumbyggjaívafi sem einkennist af samruna ólíkra stefna með það að leiðarljósi að skapa nýstárlega og ferska upplifun“.

Um Origins segja þeir að platan sé ferðalag í gegnum framandi heim Congo Bongo þar sem finna megi sólardýrkendur, blóð indjána, frumbyggjaættbálka og fornar vættir og að innblásturinn sæki þeir í náttúruna, hulinn heim skapandi afla, fantasíu og ímyndunarafls. „Tónlistin er lykillinn, eins konar töfragátt frá hversdagsleikanum sem hefur þann mátt að geta lyft okkur upp á æðra plan og jafnvel gefið aðgang að tilfinningaástandi til að áorka hverju sem er,“ segja frændurnir.

Blaðamaður sendi nokkrar spurningar á þá frændur um plötuna nýju, þá sjálfa og heim Congo Bongo.

Hafa samið saman í 15 ár

–Segið mér aðeins frá ykkur, hvar eruð þið fæddir og uppaldir og hvenær fóruð þið að vinna saman að tónlist?

„Við heitum Hreinn og Moni og erum pródúseratvíeyki. Við elskum tónlist, elskum að skapa hana og allt sem henni fylgir og tengist. Sköpunarferli okkar er þannig að við skiptum öllu okkar á milli og spilum á öll hljóðfæri til skiptis, syngjum, pródúsum, mixum og masterum.

Við erum frændur og höfum því þekkst alla tíð. Afi okkar var myndlistarmaður frá Akranesi sem vann með alls konar mismunandi form og miðla en hans ævistarf hefur alltaf verið mikil innspýting fyrir okkur,“ svara frændurnir og að Hreinn hafi kennt Mona fyrstu handtökin þegar kom að hljóðfæraleik og kynnt honum góða tónlist frá unga aldri.

„Úr því spratt ákveðið mynstur þar sem við kennum hvor öðrum og deilum áhrifum í gegnum alls kyns listform. Við höfum því alist upp í tónlist saman síðan við vorum krakkar,“ segja frændurnir sem hafa samið tónlist saman í ein 15 ár og þá allt frá draumkenndri sveimtónlist yfir í rjúkandi þungarokk, eins og þeir lýsa því. Þá hafi þeir líka verið í hljómsveitum og samið fyrir sjónvarpsefni.

Einföld skilaboð

-Þið lýsið þessu sem „80's skotnu sólarpoppi með frumbyggjaívafi“, getið þið útskýrt það betur fyrir þeim sem átta sig ekki á hvers konar tónlist það er?

„Tónlist Congo Bongo er okkar tilraun til að framleiða jákvæða og jarðbundna popptónlist með einföldum skilaboðum um betra líf. Við leitumst því oft við að rannsaka frumstæða menningarheima og lífshætti því í grunninn erum við öll tengd á svo djúpstæðan hátt. Tónlist frá 80's hefur haft djúpstæð áhrif á okkur og síast meðvitað og ómeðvitað inn í okkar tónlist. Lögin hafa yfirleitt byrjað sem einhvers konar óður til popptónlistar níunda áratugarins en við endum alltaf á því að tóna það niður með því að setja lögin í nútímalegri og meira framandi búning. Það er svona að alast upp með Phil Collins í eyrunum. Hefur varanleg áhrif,“ svara frændurnir.

Lögin hafi þessi hefðbundnu element sem megi finna í góðu lagi frá níunda áratugnum með jarðbundnari hljóðum, kraftmiklum, frumbyggjalegum trommum og sólarlegum hljóðgervlum sem undir liggi.

Hugsa myndrænt

- O rigins er ferðalag í gegnum framandi heim Congo Bongo, eins og þið lýsið því, hvernig er sá heimur?

„Við viljum skapa nýja heima með tónlistinni okkar. Hvort sem það er með textanum eða með framandi hljóðgervlahljóði sem hljómar eins og hljóðfæri frá annarri veröld, þá viljum við geta fært hlustandann á þann stað sem við ímynduðum okkur þegar við vorum að skapa tónlistina. Við hugsum myndrænt þegar við erum að skapa og samtöl okkar í sköpunarferlinu litast af því. Okkur þykir t.d. ekkert óvenjulegt að segja hluti eins og „það vantar meiri mold í þennan bassa“ eða „blásturshljóðfærið þarf að hljóma meira eins og fíll úr fornum heimi“,“ bæta frændurnir við.

Læra, vaxa og dafna

-Þið lýsið sköpunarferlinu sem sameiginlegri hugleiðslu og sjálfsuppgötvun. Stundið þið hugleiðslu og hafið þið velt þessum hlutum mikið fyrir ykkur, þ.e. að kafa ofan í sjálfið?

„Við erum mjög hugfangnir af því að læra, vaxa og dafna gegnum hugleiðslu og nálgumst hana gegnum innhverfa íhugun (e. transcendental meditation), jóga og listsköpun. Samtöl okkar einkennast yfirleitt af einhvers konar vangaveltum og hugleiðingum um andleg og dulræn fyrirbæri. Við erum öll skaparar og sköpum okkar veruleika að svo miklu leyti sjálf. Sköpunarferlið, eins og flestir listamenn þekkja, er ákveðin hugleiðsla og mikill sjálfslærdómur út af fyrir sig.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. mars. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson