Sá strax að hún væri sérstök

Katrín hertogaynja og Vilhjálmur Bretaprins fóru í myndatöku fyrir tíu …
Katrín hertogaynja og Vilhjálmur Bretaprins fóru í myndatöku fyrir tíu ára brúðkaupsafmælið. AFP

Vilhjálmur Bretaprins og Katrín hertogaynja fagna tíu ára brúðkaupsafmæli í dag. Vilhjálmur er annar í erfðaröð bresku krúnunnar á eftir Karli föður sínum. Vilhjálmur og Katrín gengu í hjónaband í Westminster Abbey hinn 29. apríl árið 2011.

Hjónin kynntust í háskóla og voru saman í rúmlega sjö ár áður en þau tóku stóra skrefið. Saman eiga þau þrjú börn, hinn sjö ára gamla Georg, Karlottu prinsessu sem er fimm ára og hinn þriggja ára gamla Lúðvík. Fjölskylda þeirra er framtíð konungsfjölskyldunnar næstu áratugi. Í frétt AFP um hjónin segir konunglegi sérfræðingurinn Penny Junor fjölskylduna vera eins venjulega og hægt er þegar kóngafólk er annars vegar. 

Vilhjálmur og Katrín gengu í hjónaband þann 29. apríl 2011.
Vilhjálmur og Katrín gengu í hjónaband þann 29. apríl 2011. AFP

Erfiðleikar innan fjölskyldunnar

Hjónin hafa verið í kastljósi fjölmiðla að undanförnu vegna erfiðleika í konungfjölskyldunni. Er þar meðal annars átt við lát Filippusar prins, eiginmann Elísabetar drottningar, en einnig brotthvarf Harrys og Meghan. 

Harry og Meghan hættu að sinna störfum fyrir fjölskylduna í fyrra. Ofan á allt það mættu þau í umdeilt viðtal til Opruh Winfrey í mars þar sem þau fóru ófögrum orðum um lífið innan hallarinnar. Þau sökuðu fjölskylduna um kynþáttahatur og fyrir að styðja sig ekki. Harry sagði einnig Vilhjálm og Karl Bretaprins fasta í gildru og Meghan sakaði Katrínu um að hafa grætt sig fyrir brúðkaup þeirra Harrys árið 2018. 

Ásakanir Harrys og Meghan gáfu innsýn í samskiptaörðugleika frægustu fjölskyldu Bretlands. Vilhjálmur, sem verður að öllum líkindum kóngur einn daginn, varði fjölskylduna og sagði kynþáttahatur ekki líðast innan hennar. Harry mætti einn síns liðs í jarðarför Filippusar og virtust þeir bræður reyna að vinna úr sínum málum ásamt Karli föður þeirra. Þeir vörðu saman nokkrum tímum eftir jarðarförina eftir árs aðskilnað. 

Vilhjálmur og Katrín eiga þrjú börn.
Vilhjálmur og Katrín eiga þrjú börn. AFP

Mjög sérstök

Vinsældir Harrys og Meghan í Bretlandi jukust ekki eftir viðtalið umdeilda. Hins vegar hafa aðrir fjölskyldumeðlimir notið meiri vinsælda að undanförnu, mögulega vegna fráfalls Filippusar prins. Vinsældir Katrínar eru mjög miklar og henni hrósað fyrir framkomu sína í jarðarförinni. „Hún er svo sjálfsörugg og fáguð og er ekki í keppni við Vilhjálm,“ sagði Junor um Katrínu og segir hana mjög þroskaða. 

Katrín bar sig vel í jarðarför Filippusar prins.
Katrín bar sig vel í jarðarför Filippusar prins. AFP

Hjónin byrjuðu saman þegar þau voru bæði í St. Andrews-háskólanum í Skotlandi. Þau trúlofuðu sig árið 2010. Vilhjálmur bað Katrínar með trúlofunarhring móður sinnar, Díönu prinsessu. „Þegar ég hitti Katrínu í fyrsta skipti vissi ég strax að það væri eitthvað mjög sérstakt við hana,“ sagði Vilhjálmur í viðtali eftir trúlofun þeirra. 

Njóta vinsælda

Fyrst um sinn hélt Katrín sig til hlés þegar opinberir viðburðir voru annars vegar. Smám saman fékk hún stærra hlutverk. Hjónin hafa verið mjög áberandi síðasta ár þrátt fyrir heimsfaraldur.

Ný skoðanakönnun sýnir að hjónin eru mjög vinsæl og Vilhjálmur töluvert vinsælli en 72 ára gamall faðir hans. Þriðjungur Breta er sagður vilja að Vilhjálmur taki við krúnunni á eftir Elísabetu í stað Karls. Katrín er þriðja vinsælasta í fjölskyldunni á eftir hinni 95 ára gömlu Elísabetu og Vilhjálmi. Flestir eru jákvæðir í garð hennar. 

Katrín er ekki af konunglegum ættum. Þegar Vilhjálmur tekur við krúnunni mun hún verða  drottning Vilhjálms. „Mér finnst hún ótrúleg og fyrirmynd drottninga framtíðarinnar,“ sagði konunglegi sérfræðingurinn að lokum.

Konunglegur koss árið 2011.
Konunglegur koss árið 2011. AFP
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nýjar hliðar á vandasömu verkefni krefjast allrar þinnar athygli og atorku. Sestu niður, skipuleggðu tíma þinn svo þú getir komið því í verk sem þú átt að gera.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nýjar hliðar á vandasömu verkefni krefjast allrar þinnar athygli og atorku. Sestu niður, skipuleggðu tíma þinn svo þú getir komið því í verk sem þú átt að gera.