Kveikja loks í brennunni

Eyjamenn kveikja í þjóðhátíðarbrennunni á Fjósakletti annað kvöld.
Eyjamenn kveikja í þjóðhátíðarbrennunni á Fjósakletti annað kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Segja má að grátbroslegar tilfinningar eigi sér stað á meðal Vestmannaeyinga eftir að sú ákvörðun var tekin að kveikja loksins í þjóðhátíðarbrennunni annað kvöld. Brennan hefur staðið á Fjósakletti í Vestmannaeyjum síðan í lok júlí og því orðið löngu tímabært að tendra bálið.  

Jónas Guðbjörn Jónsson, varaformaður þjóðhátíðarnefndar, segir enga sérstaka ástæðu hafa verið fyrir vali dagsetningarinnar. Nefndin hafi einungis séð fyrir sér að þurfa að slá botninn í þau vonbrigði að ekki hafi verið hægt að halda Þjóðhátíð í sinni réttu mynd í tvö ár vegna heimsfaraldursins.

„Við höfum verið að reyna að finna einhverja góða dagsetningu til þess að klára dæmið. Það er búið að ganga frá öllu öðru í Dalnum, það var auðvitað allt komið í fullan skrúða. Þetta er auðvitað frekar súr staða en nú er bara að koma vetur og þá er von á alls kyns veðrum þannig okkur þótti kjörið að klára þetta núna. Gera gott úr þessu öllu saman.“

Úrslit morgundagsins ráða örlögum ÍBV

ÍBV íþróttafélag hefur orðið fyrir þungu höggi fjárhagslega vegna aflýsingar Þjóðhátíðar enda hefur hátíðin verið drjúg tekjulind fyrir félagið. Karlalið ÍBV spilar örlagaríkan leik á Hásteinsvelli á morgun þar sem liðið á möguleika á að tryggja sér sæti í Pepsi-Max deildinni.

„Það er líka gaman að geta tengt brennuna og leik ÍBV við Þrótt Reykjavík í Lengjudeildinni á morgun. Vonandi vinnum við leikinn og þá er hægt að gera sér enn glaðari dag,“ segir Jónas.

Samkvæmt núgildandi samkomutakmörkunum er hámarksfjöldi í sama rými alls 200 manns, þær reglur gilda hvort tveggja um samkomur innan- og utandyra. Vestmannaeyingar eru því hvattir til að halda sér innan þessa ramma ef þeir sjá fyrir sér að berja brennuna augum annað kvöld.   

Í tilkynningu sem ÍBV sendi frá sér fyrr í dag verður kveikt í brennunni stundvíslega klukkan 21:00 á morgun, laugardag, í fullu samráði við löggæsluliða.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gættu þess að segja ekkert það sem þú kannt að iðrast seinna meir. Hvað sem þú tekur þér fyrir hendur mun koma þér vel í framtíðinni.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gættu þess að segja ekkert það sem þú kannt að iðrast seinna meir. Hvað sem þú tekur þér fyrir hendur mun koma þér vel í framtíðinni.