Með svarta beltið í spaugi

Betty White kætti kynslóðirnar svo áratugum skipti.
Betty White kætti kynslóðirnar svo áratugum skipti. AFP

Ein ástsælasta og langlífasta sjónvarpsstjarna sögunnar, Betty White, kvaddi þennan heim á gamlársdag, rúmum tveimur vikum fyrir 100 ára afmælið. Henni er lýst sem svartabeltiskonu í gríni. 

„Má ég kynna eiginkonu mína, einn af frumkvöðlum þögla sjónvarpsins!“ Þannig kynnti sjónvarpsmaðurinn Allen Ludden spúsu sína, Betty White, gjarnan. Og glotti við tönn. Klassískt hjónagrín sem þó var alls ekki úr lausu lofti gripið en White tók einmitt þátt í tilraunaútsendingu sjónvarps í Bandaríkjunum árið 1939 og var að nánast fram í andlátið á dögunum. Ludden kvaddi fjörutíu árum fyrr.

White fór á flug snemma á sjötta áratugnum; fyrst í spjallþætti sem kenndur var við hana sjálfa og síðan í gamanþáttunum Life With Elizabeth. Sá síðarnefndi fer svo sem seint í sögubækurnar fyrir gæði en White heillaði eigi að síður áhorfendur með glettni sinni og útgeislun.

Gerði spé að lífibrauði sínu

Spé lá alla tíð afbragðsvel fyrir White og upplagt að gera það að lifibrauði. Í minningargrein í breska blaðinu The Guardian er White sögð hafa verið með svarta beltið í gríni. Hver gamanþáttaröðin rak aðra á ferlinum en frægust er White fyrir leik sinn í The Mary Tyler Moore Show á áttunda áratugnum og The Golden Girls á þeim níunda og tíunda. Hún vann til Emmy-verðlauna sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir báða þætti, raunar í tvígang fyrir þann fyrrnefnda. Þar lék White glaðlynda en kaldhæðna sjónvarpskonu sem hafði næmt auga fyrir körlum og steig ófeimin í vænginn við þá.

White ásamt hinum Klassapíunum, Bea Arthur og Rue McClanahan.
White ásamt hinum Klassapíunum, Bea Arthur og Rue McClanahan. AFP


Í The Golden Girls, eða Klassapíum, lék hún hina tápmiklu ekkju Rose Nylund sem deildi heimili með þremur öðrum eldri konum í Flórída. Rose var ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni en hlý og indæl og keppnismaður fram í fingurgóma – enda af norsku bergi brotin.

Gamanleikur snýst ekki síst um tímasetningar og þær negldi White eins og að drekka vatn; allt frá barnslegu sakleysi yfir í flugbeitt sveðjuhögg, þar sem það átti við. Vörumerkið var þó jafnan þessi alltumvefjandi spékoppahlýja stelpunnar í næsta húsi. Það var útilokað að láta sér líka illa við Betty White.

Tækluð á fótboltavelli

Hún lét sér heldur ekki allt fyrir brjósti brenna eins og þegar hún birtist nær níræð í Super Bowl-auglýsingu frá súkkulaðigerðinni Snickers árið 2010. Var tækluð á tyrfnu undirlagi, eins og hver annar spartverskur handspyrnir. Samfélagsmiðlar fóru á hliðina í framhaldinu og kröfðust þess að hún liti við í skemmtiþættinum sívinsæla Saturday Night Live. Á það var hlustað, eins og menn gera, og White stóð uppi með enn ein Emmy-verðlaunin sem besta gestaleikkonan í gamanseríu. Jay nokkur Z var þar á kantinum. White hafði einstakt lag á að sameina kynslóðirnar.

Margir hafa minnst White nú í upphafi árs.
Margir hafa minnst White nú í upphafi árs. AFP


Það er raunar lyginni líkast að fletta ferilskrá hennar á öðrum áratugi þessarar aldar, konu á tíræðisaldri. Hún var til dæmis í burðarhlutverki í gamanþáttunum Hot in Cleveland í fimm ár, auk þess að stjórna sínum eigin þætti, Betty White’s Off Their Rockers, í önnur fimm ár, þar sem eldri borgarar fífluðust með falinni myndavél í fólki sem hæglega gat verið barnabörn þeirra. Þar var White eins konar Auddi Blö roskna mannsins. Þess utan kom hún fram sem gestur í hinum og þessum þáttum og lék í sjónvarpsmyndum.

Mögulega skein stjarna Betty White aldrei skærar en eftir nírætt.

Miklu meira um Betty White má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.   

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í þörf fyrir að draga þig í hlé í einhvern tíma. Farðu að ráðum góðs vinar.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í þörf fyrir að draga þig í hlé í einhvern tíma. Farðu að ráðum góðs vinar.