„Allt sem gerist hér eftir er bara plús“

Björg Magnúsdóttir hefur ýmsa Eurovisionfjöruna sopið en hún er nú …
Björg Magnúsdóttir hefur ýmsa Eurovisionfjöruna sopið en hún er nú í fjórða skipti á Eurovision söngvakeppninni. mbl.is/Sonja Sif

Fjölmiðlakonan Björg Magnúsdóttir hefur ýmsa Eurovisionfjöruna sopið síðustu ár. Hún er nú í fjórða skipti á Eurovision söngvakeppninni fyrir Ríkisútvarpið og segir stemninguna í íslenska hópnum gríðarlega góða.

Björg segir hverja Eurovisionupplifun vera ólíka. „Fyrst fylgdi ég Ara Ólafssyni til Portúgal. Það lag hreyfði ekki mikið við fólki og fékk því miður ekki mörg stig. Það var mjög lágstemmd ferð miðað við þá ferð sem kom á næsta ári, Hatari í Ísrael. Þarna vorum við með atriði sem vakti rosalega athygli, þeir voru í viðtali við BBC um morguninn, þýsku stórblaði í hádeginu og enduðu á franskri sjóvarpsstöð um kvöldið. Það var allt klikkað. Endapunkturinn í þeirri ferð var svo palestínski fáninn í beinni útsendingu, þetta var náttúrulega bara sturluð upplifun,“ segir Björg.

Ari Ólafsson fór út til Portúgal 2018.
Ari Ólafsson fór út til Portúgal 2018. Eggert Jóhannesson

Á síðasta ári fylgdi Björg Daða og Gagnamagninu til Rotterdam í Hollandi þar sem íslenski hópurinn lenti í því að kórónuveirusmit greindist innan hópsins. Þau máttu því ekki koma fram á úrslitakvöldinu og allur hópurinn settur í einangrun. 

„Þetta var bara frekar glatað. Við fengum að fara í tíu mínútna gönguferð á dag og þetta var hræðilegt. Ég ímyndaði mér að mér myndi ekkert leiðast einni með sjálfri mér, en svo var þetta bara orðið hræðilegt eftir þrjár klukkustundir,“ segir Björg.

Hatari á sviðinu í Tel Aviv í Ísrael árið 2019.
Hatari á sviðinu í Tel Aviv í Ísrael árið 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hræðsla við jákvæð próf

„Svo komum við hingað til Tórínó og það eimir enn af veirutímum. Sérstaklega hræðslu við að smit greinist. Það er líka minna félagslíf og partí eins og hefur verið. Við höfum alltaf staðið fyrir skandinavískupartíi með hinum skandinavísku þjóðunum, en það er ekkert svoleiðis núna,“ segir Björg. 

Þegar hópurinn kom út í byrjun maí voru strangar reglur um skimanir fyrir kórónuveirunni og þurftu allir, tónlistarmenn, starfsfólk og blaðamenn að fara í skimun á 72 klukkustunda fresti. Sú regla var afnumin í vikunni vegna þess hve fá smit hafa greinst. 

„Þetta voru mjög skýr skilaboð fyrst. Þegar þú veist af því, og með þessa reynslu í bakpokanum að Daði og Gagnamagnið hafi ekki farið á svið í fyrra, þá ertu náttúrulega passasamur. Við héldum okkur mjög þétt saman og vorum lítið að blanda geði við aðra. Svo var það mikill léttir síðasta sunnudag þegar allir voru neikvæðir,“ segir Björg.

Daði og Gagnamagnið í Rotterdam á síðasta ári, en hópurinn …
Daði og Gagnamagnið í Rotterdam á síðasta ári, en hópurinn fékk ekki að stíga á svið á laugardagskvöldinu vegna veirusmits í hópnum. Gísli Berg/RÚV

Mikið talað um ítalska skipulagið

Björg segir margt áhugavert við skipulagningu keppninnar í ár. Hún nefnir að mikið hafa verið talað um ítalska skipulagið sem er kannski best hægt að lýsa með orðunum, einhvern veginn. Það er allt bara einhvern veginn og ekkert alveg meitlað í stein. 

„Þessi blessaða svarta sól á sviðinu, sem hreyfist ekki, og eyðileggur fyrir mörgum atriðum. Svo eru ýmis skipulagsmál sem maður hefur séð vera tekin fastari tökum. Ítalía er náttúrulega stórkostlegt land og Tórínó falleg borg. Mér finnst hún henta vel fyrir svona keppni, hún er lítil og sæt. Það er auðvelt að finna allt og ekki langar vegalengdir. 

Stóra markmiðinu náð

Björg segir stemninguna í hópnum vera góða, enda hópurinn búinn að ná stóra markmiðinu; að komast upp úr undanriðlinum. „Við vorum með tempraðar væntingar gagnvart því að komast áfram. Auðvitað vorum við þvílíkt að vona það, en það hefði getað brugðið til beggja vona í þeim efnum. Spennan byggðist upp dag frá degi fram að þriðjudegi og þegar Ísland er lesið upp númer þrjú í röðinni þá náttúrulega trylltist allt. Ég er enn að vinna í raddleysi og bara allir,“ segir Björg. 

Hún segir alla vera í sæluvímu og finnst stóra markmiðinu vera náð. 

„Allt sem gerist hér eftir er bara plús. Okkur er spáð 20. sætinu núna og það yrði bara fínn árangur. Þetta er þriðja árið í röð sem Ísland fer í úrslit. Við erum að stimpla okkur inn. Þriðja árið sem við vekjum athygli. Við erum að beina sjónum að allskonar málefnum í leiðinni,“ segir Björg en Systur hafa lagt áherslu á málefni Úkraínu annars vegar og hins vegar málefni transbarna. Sjálf er Sigríður móðir transbarns og stendur málefnið henni því nærri. 

Íslandi er spáð 19. sæti af 25 sætum á morgun. Systur eru númer 18 í röðinni en keppnin hefst klukkan 19:00. Blaðamaður mbl.is er staddur í Tórínó og mun flytja fréttir beint af staðnum á morgun. 

Það er góð stemning í íslenska hópnum fyrir lokakvöldið.
Það er góð stemning í íslenska hópnum fyrir lokakvöldið. AFP
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér finnst þú getað fengið alla á þitt band og að þú sért við stjórnvölinn í þínu lifi. Gefðu þér því góðan tíma til þess að velta framtíðinni fyrir þér.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér finnst þú getað fengið alla á þitt band og að þú sért við stjórnvölinn í þínu lifi. Gefðu þér því góðan tíma til þess að velta framtíðinni fyrir þér.