Norski herinn í gæslu á Iron Maiden

Norskir hermenn voru meðal fjölda aðila sem gættu að öryggismálum …
Norskir hermenn voru meðal fjölda aðila sem gættu að öryggismálum á tónleikum Iron Maiden í Bergen á miðvikudaginn. Breytt heimsmynd lands sem á landamæri að Rússlandi árið 2023. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Líklega má kalla öryggisgæsluna á The Future Past-tónleikum bresku rokkbrýnanna í hinni fornfrægu Iron Maiden í Bergen í Noregi á miðvikudaginn sögulega. Tugir norskra hermanna stóðu þar vörð auk vopnaðrar lögreglu sem líklega tefldi til flestum ökutækjum á hennar valdi í Vesturlandshöfuðborginni Björgvin sem kom af krafti inn á íslenska tónratsjá á sínum tíma þegar ICY-hópurinn flutti þar Gleðibankann í Grieg-höllinni 3. maí 1986, daginn sem sjá mátti mannlausan miðbæ í Reykjavík.

Björgvinskir lögregluþjónar voru um allt tónleikasvæðið og óku um götur …
Björgvinskir lögregluþjónar voru um allt tónleikasvæðið og óku um götur fyrir og eftir tónleika á svo mörgum merktum lögreglubifreiðum að á tímabili sýndust aðeins þær á götunum, ekki ósvipað og þegar Gunnar á Hlíðarenda brá sverði sínu svo mörg sýndust á lofti. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Miðbærinn í Bergen var hins vegar engan veginn mannlaus á miðvikudaginn og heljarmikil upphitunarteiti haldin í blíðskaparveðri við annan þeirra tveggja voga sem einkenna þessa svipmiklu borg þar sem gömlu pakkhúsin í miðbænum hafa fengið að halda sínu ytra svipmóti síðan Hansakaupmenn réðu þar lögum og lofum. Safnaðist þar fjöldi tónleikagesta saman og hlýddi á ýmsar gamlar perlur Bretanna sem stofnuðu sveit sína árið 1975 í austurhluta Lundúna.

Húðflúruð gæslustelpa með á nótunum. Allir lögðust á eitt við …
Húðflúruð gæslustelpa með á nótunum. Allir lögðust á eitt við að tryggja tónleikagestum í Bergen ánægjulega upplifun á miðvikudaginn og fórst vel úr hendi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Auk hers og lögreglu voru öryggisverðir frá gæslufyrirtækinu PSS um allt tónleikasvæðið, sem var víðáttumikill garður hins forna virkis Björgvinjarbúa, Bergenshus Festning, og að lokum fjöldi fólks í gulum sjálflýsandi vestum merktum gæslu.

Hér gilti greinilega sýnileiki öryggisins í breyttri heimsmynd lands sem á landamæri að Rússlandi og hefur nýlega ögrað rússnesku nágrönnunum verulega með heimsókn stærsta herskips heims, hins bandaríska USS Gerald R. Ford sem hélt beinustu leið til heræfinga við Vesterålen eftir heimsókn til Óslóar, en Vesterålen er að mati greinenda einni gráðu sunnar en það nyrsta sem hertæki Atlantshafsbandalagsins mega fara áður en Rússar telja þau ögrun – það er til Tromsø þar sem bandarískir kjarnorkukafbátar eiga sér aðstöðu og áningarstað, raunar við mismikinn fögnuð bæjarbúa.

Gestir á upphitunarbarnum á miðvikudaginn steyta hornin eins og enginn …
Gestir á upphitunarbarnum á miðvikudaginn steyta hornin eins og enginn hafi verið morgundagurinn. Hann kom nú samt, og sama rjómablíðan, ekki það sem allir tengja við hina vingjarnlegu Bergen. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Á tónleikunum var platan Somewhere in Time frá 1986 undirliggjandi þema, vinsæl plata sem vakti athygli á sínum tíma og mörgum þótti betra verk en Powerslave sem fylgdi í kjölfarið með sínu egypska faraóþema.

Gaurarnir í veitingasölunni voru klárlega sjóaðir Iron Maiden-menn, kunnu alla …
Gaurarnir í veitingasölunni voru klárlega sjóaðir Iron Maiden-menn, kunnu alla gömlu textana og kyrjuðu við raust. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Efnisskráin var þó mun víðtækari en Somewhere in Time og hefðu tónleikarnir verið innandyra hefði þakið líkast til fokið rakleiðis af því húsnæði þegar upphafstónar meistaraverksins Can I Play with Madness af mjög eftirminnilegri plötu, Seventh Son of a Seventh Son frá 1988, hljómuðu úr vægast sagt öflugu hátalarakerfi. Drógu helstu forsprakkar sveitarinnar, þeir Bruce Dickinson og Steve Harris, hvergi af sér við flutninginn og virtust sömu unglingarnir og þegar sveitin hélt sína fyrri tónleika á Íslandi, 5. júní 1992 í Laugardalshöllinni, fyrstu tónleika Fear of the Dark-ferðalagsins.

Barir og klósett, aðalsmerki allra góðra tónleikasvæða...fyrir utan góða tónlist.
Barir og klósett, aðalsmerki allra góðra tónleikasvæða...fyrir utan góða tónlist. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Titillag þeirrar plötu fékk einnig að hljóma í Bergen á miðvikudaginn við gríðarlegan fögnuð en fljótlega eftir það dró sveitin sig í hefðbundið uppklappshlé og létu mörg þúsund tónleikagestir ekki minna sig á að öskra sig hása.

Harris og Dickinson á sviðinu. Þessir menn hafa engu gleymt …
Harris og Dickinson á sviðinu. Þessir menn hafa engu gleymt síðan þeir stofnuðu sveitina jólin 1975. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Voru uppklappslögin ekki af verri endanum, Hell on Earth, The Trooper og Wasted Years, og vöktu einkum hin tvö síðastnefndu gríðarlegan fögnuð og stemmningu viðstaddra, verk frá þeim árum þegar margir Íslendingar voru að uppgötva Járnfrúna – greinilega Norðmenn líka.

Við innganginn. „Gefið upp alla von,“ eins og sagði í …
Við innganginn. „Gefið upp alla von,“ eins og sagði í Vítisljóði Dantes. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hvað sem sagt verður um nýjan raunveruleika í Evrópu og óvenjulega harða gæslu á tónleikum var hún auðvitað bara kærkomin en það sem ef til vill stendur upp úr frá góðu tónleikakvöldi í Bergen, þar sem húðflúraðir málmáhugamenn komu saman og gleymdu stað og stund eitt kvöld, er að Bruce Dickinson og félagar í Iron Maiden hafa engu gleymt og ekki glatað frábærum tónleikatakti og stemmningu sem hrífur áhorfendur með sér hvar sem vera skyldi í heiminum – eða bara Somewhere in Time.

Gleðji eitthvað gamalt málmslegið hjarta er það að sjá kynslóðabilið …
Gleðji eitthvað gamalt málmslegið hjarta er það að sjá kynslóðabilið birtast ljóslifandi á þungarokkstónleikum. Þessi hjón voru mætt með unga dóttur sína sem dró ekki fjöður yfir aðdáun sína á Iron Maiden. Þetta er uppeldi! mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú gætir þurft að annast einhvern sem þarf á hjálp þinni að halda. Lofaðu ekki upp í ermina á þér. Fjárhagsleg tækifæri birtast en þú skalt fara þér að engu óðslega.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Emil Hjörvar Petersen
2
Mohlin & Nyström
3
Shari Lapena
5
Mads Peder Nordbo og Sara Blædel

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú gætir þurft að annast einhvern sem þarf á hjálp þinni að halda. Lofaðu ekki upp í ermina á þér. Fjárhagsleg tækifæri birtast en þú skalt fara þér að engu óðslega.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Emil Hjörvar Petersen
2
Mohlin & Nyström
3
Shari Lapena
5
Mads Peder Nordbo og Sara Blædel