Kveikti í eiginmanninum

Áströlsk kona, sem kveikti í kynfærum eiginmanns síns vegna þess að hún hélt að hann væri að halda framhjá sér, hefur verið ákærð fyrir morð. Maðurinn lést af sárum sínum í síðustu viku.

Saksóknarar segja, að konan, sem er 44 ára gömul, hafi viðurkennt fyrir nágrönnum sínum að hafa kveikt í manninum í desember sl. eftir að hún sá hann faðma aðra konu. Konan sagðist ekki hafa ætlað að drepa manninn þegar hún skvetti leysivökva í kjöltu mannsins og kveikti í.

Saksóknari hefur eftir konunni að hún hafi aðeins vilja brenna kynfæri mannsins svo þau tilheyrðu sér og engum öðrum. En þegar maðurinn vaknaði spratt hann á fætur og velti um flöskunni með eldfima vökvanum. Við það breiddist eldurinn út og á endanum brann hús hjónanna til grunna og nærliggjandi hús skemmdist mikið.

Eiginkonan var upphaflega ákærð fyrir lífshættulega líkamsárás, íkveikju og fyrir að stofna lífi fólks í hættu en þrjú börn hjónanna voru í húsinu þegar þetta gerðist. Konan hefur nú verið ákærð fyrir morð þar sem maðurinn lést í síðustu viku. 

mbl.is

Bloggað um fréttina